Neyðarsímsvörun

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 16:25:07 (2125)

1995-12-18 16:25:07# 120. lþ. 69.92 fundur 147#B neyðarsímsvörun# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[16:25]

Lúðvík Bergvinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir að bera þetta mál fyrir þingið því að samræmd neyðarsímsvörun fyrir landið er af hinu góða, á því leikur enginn vafi. En hins vegar verður að draga í efa aðferðafræði hæstv. ráðherra í þessu máli sem er vægast sagt frekar umdeild og kallar á að hann geri betur grein fyrir máli sínu.

Hver eru rökin fyrir að einkavæða neyðina? Hvers vegna er verið að einkavæða neyðina? Hvaða nauðsyn er á því að einkavæða starfsemi um samræmda neyðarsímsvörun á landsvísu, símsvörun sem ætlað er að sinna viðtöku tilkynninga um fólk og eignir í neyð og beiðnum um aðstoð lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita, sjúkraflutningaliðs og aðra neyðaraðstoð? Hvers vegna er þessi leið farin hér á land þveröfugt við það sem þekkist víðast erlendis? Á þessu hefur hæstv. ráðherra ekki gefið neinar skýringar. Hvers vegna voru Securitas hf., Vari hf. og Sívaki hf. valin til að koma að þessu máli? Hefur dómsmrn. kannað innbyrðis tengsl þessara þriggja fyrirtækja? Það hefur m.a. verið fullyrt við mig að Securitas hf. hafi nú þegar keypt fyrirtækið Vara hf. Jafnframt má benda á að vaktstöð Vara hf. var flutt í stjórnstöð Securitas hf. 1. október sl. Þá hefur Sívaki hf. ekki sérstaka stjórnstöð en býður viðskiptavinum sínum að tengjast stjórnstöð Securitas.

Það er því von að spurt sé um einokun þessara fyrirtækja á öryggisþjónustumarkaðnum. Er verið að tryggja fákeppni og einokun á þessum markaði með aðstoð ríkisvaldsins? Ef tekið er mið af þeim verkefnum sem Neyðarlínunni er ætlað að sinna hlýtur það að vera krafa að fyrirtæki sem hleypt er inn í eignarhaldið séu fjárhagslega sterk. Samkvæmt upplýsingum frá hlutafélagaskrá eru tvö þeirra þriggja fyrirtækja sem aðild eiga að neyðarlínunni skráð með 400--500 þús. kr. í hlutafé. Tvö af þremur fyrirtækjum sem ætlað er að koma að því verkefni að sinna viðtöku símhringinga frá fólki í neyð hafa innan við 1 millj. í skráð hlutafé. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Félaginu eru tryggðar tekjur upp á hálfan milljarð næstu átta árin og af þeirri upphæð greiða ríki og sveitarfélög 80--90%. Er eðlilegt, herra forseti, að ríkið sé að greiða með rekstri öryggisþjónustufyrirtækja sem starfa á einkamarkaði?