Neyðarsímsvörun

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 16:33:03 (2128)

1995-12-18 16:33:03# 120. lþ. 69.92 fundur 147#B neyðarsímsvörun# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[16:33]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það er mikill fnykur af þessu máli. Það lítur út fyrir að hagsmunahaugurinn sem Sjálfstfl. er í raun og veru meira og minna táknmynd fyrir sé að skríða af stað. Ég held að það væri skynsamlegt í þessu máli, hæstv. forseti, að endurmeta það í heild. Ég segi fyrir mitt leyti eftir að hafa heyrt þær lýsingar sem hér hafa komið fram og lesið blaðafréttir og blaðagreinar að undanförnu, að mér sýnist augljóst mál að hæstv. ráðherra á í raun og veru bara einn leik í stöðunni. Hann er sá að leggja fyrir þingið frv. um að fresta þessu máli um a.m.k. eitt ár.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að það var tiltölulega góð samstaða um þetta mál í fyrra. Það stafaði þó ekki af því að allir væru ánægðir með málið heldur stafaði það m.a. af því að það var mikil tímaþröng hér við lok þingsins. En það stafað líka af því að menn treystu því að það yrði betur haldið á málinu af hálfu dómsmrh. en orðið hefur. Nú blasir við að það eru að koma áramót, þessi kerfisbreyting er í sjónmáli og undirbúingur í raun og veru í skötulíki, málið í heild er í uppnámi. Við hljótum því að beina þeirri áskorun til hæstv. dóms- og kirkjumrh. að hann beiti sér fyrir því að þessu máli verði frestað. Það er óhæfa að halda áfram með þetta mál eins og það er bersýnilega vaxið. Það er verið að stofna einum mikilvægasta þætti þjóðlífs á Íslandi í hættu með þeim vinnubrögðum sem ráðuneytið hefur viðhaft í þessu máli.