Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 17:10:46 (2136)

1995-12-18 17:10:46# 120. lþ. 70.1 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur


[17:10]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get fyrir mitt leyti tekið undir með hv. þm. að það þarf að hafa jafnræði hvað þessa þætti varðar, þennan kost sem nefndur hefur verið varðandi kaup á húsnæði en jafnframt ekki síður hitt að tryggja það að þar sem hægt er að stuðla að öryggi byggðanna með varnaraðgerðum, megi ekki gefa það frá sér.

Það má vel vera að eftir þá miklu atburði sem orðið hafa hafi menn brostið kjark til að horfast í augu við að mögulegt sé að veita allgott öryggi, þótt það sé kannski aldrei fullkomið. Og ég tek undir með hv. þm. að við endurskoðun málsins og í umræðum og við meðferð þess eigi að tryggja þann kost. Við hljótum líka að sjá að við gætum stefnt byggð í voða með því að leggja of mikla áherslu á hinn fyrri þátt. Það kann að vera að allstór hluti byggðar mundi ekki eiga að njóta samkvæmt reglunum slíks réttar. Þá yrðu þær eignir verðlausar eða verðlitlar af mannavöldum en ekki náttúrunnar. Ég tel því að þetta sé réttmæt ábending.