Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 17:11:57 (2137)

1995-12-18 17:11:57# 120. lþ. 70.1 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur


[17:11]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. hans orð í þessu sambandi. Ég vil aðeins nefna að ég held að hjá þjóðum sem búa við erfiðar aðstæður að því er varðar snjóflóð hafi á liðinni tíð verið sú meginstefna að reyna að verja byggð með mannvirkjagerð, þ.e. byggð sem hefur verið reist án þess að menn hafi tekið tillit til þess arna, og óvíða hafi verið horfið að því ráði að kaupa upp fasteignir í stórum stíl eða miklum mæli. Mér var sagt af fulltrúa sem skoðaði þessi efni t.d. í Austurríki á þessu ári að þar væru aðeins þrjú dæmi reidd fram um að keyptar hefðu verið upp fasteignir. Búa þó Austurríkismenn við mjög mikla hættu í þessum efnum en auðvitað landþrengsli líka sem ýtir á eftir að menn verji mannvirki. Ég hvet að sjálfsögðu til fulls raunsæis í sambandi við það hvenær gripið verði til þess ráðs að reisa kostnaðarsöm varnarvirki, það þarf að gera. En ég er sannfærður um að þannig er hægt að verja hluta af byggðum sem hugsanlega eru metnar í hættu og það ber finnst mér, eins og hæstv. forsrh. nefndi, að ríkja jafnræði í skoðun mála að þessu leyti.