Afnám laga nr. 96/1936

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 17:19:59 (2140)

1995-12-18 17:19:59# 120. lþ. 70.2 fundur 206. mál: #A afnám laga nr. 96/1936# frv., Frsm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur


[17:19]

Frsm. efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um afnám laga um að Mjólkursamsalan í Reykjavík og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda skuli vera undanþegin útsvari og tekju- og eignarskatti.

Nefndin fékk á fund sinn marga aðila sem tengjast þessu máli, m.a. fulltrúa úr fjmrn., frá ríkisskattstjóra og framkvæmdastjóra og löggilta endurskoðendur Mjólkursamsölunnar í Reykjavík. Ég til taka fram varðandi skattamál Sölusambands ísl. fiskframleiðenda að þetta hefur einungis sögulega þýðingu þar sem því félagi eða félagsskap hefur þegar verið breytt í hlutafélög.

Frv. gengur út á að gera skattastöðu Mjólkursamsölunnar sambærilega við stöðu annarra fyrirtækja í landinu. Niðurstaða nefndarinnar var að það bæri að gera það með þeim hætti sem frv. er gert úr garði, þó með þeirri breytingu að í stað orðanna ,,kaup eða byggingarári til ársloka 1995`` í 1. málsl. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða komi: upphafi fyrningartíma skv. 33. gr. laga nr. 75/1981. Þessi breyting sem efh.- og viðskn. gerir á frv. felur í sér að frádráttur frá framreiknuðu kostnaðarverði fyrninga fyrir hvert ár verður ekki talinn hafa hafist fyrr en eign Mjólkursamsölunnar var komin í notkun.

Allir nefndarmenn í efh.- og viðskn. standa að þessu nefndaráliti.