Þingstörf fram að jólahléi

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 14:21:16 (2143)

1995-12-19 14:21:16# 120. lþ. 72.91 fundur 150#B þingstörf fram að jólahléi# (aths. um störf þingsins), Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[14:21]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Forseti vill segja fyrst að frá hans sjónarhóli hefur samstarf milli forseta þingsins og þingmanna verið sérstaklega gott og það metur forseti mikils. Vissulega hefðu ýmis mál mátt koma fram fyrr og áttu reyndar að gera samkvæmt yfirlýsingum sem gefnar voru þegar við upphaf þings. Það hefur ekki enn komið að sök en vissulega er fyrirsjáanlegt, ef við eigum að ljúka þingstörfum í þessari viku eins og ætlunin var, raunar ætluðum við að gera það í dag, að menn verða að ná samkomulagi um afgreiðslu þeirra þungu mála sem nú eru óafgreidd.

Hv. þm. spurði hvernig forseti sæi fyrir sér daginn. Forseti hafði hugsað sér að hefja núna umræðu um 2. dagskrármálið, viðaukasamning um álbræðslu við Straumsvík, 3. umr. Þegar við lukum 2. umr. um fyrra dagskrármálið, tekjuskatt og eignarskatt, á laugardaginn var, lýsti forseti því yfir að það mál færi til nefndar á milli umræðna þannig að færi gæfist fyrir hv. þm. að athuga það bæði í nefnd og ræða það við 3. umr. Forseta skilst að þeirri athugun í þingnefnd sé ekki lokið. Þess vegna er ekki hægt að hefja umræðu um það mál nú en yrði þá vonandi síðar í dag eða í kvöld eftir atvikum.

Þá hafði forseti gert sér vonir um að frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, svokallaður bandormur, gæti komið til umræðu og afgreiðslu í dag. Það er sama með það að þar eru nefndarálit ekki komin þannig að það er alveg ljóst að það gerist ekki alveg á næstu klukkutstundum en forseti vonast þó enn til að það geti orðið síðar í dag eða í kvöld.

Þetta er það sem forseti sér á þessari stundu. Önnur mál eru að vísu að koma frá nefndum, léttari mál en þessi sem hér hafa verið nefnd, og kynnu að koma fyrir á síðari fundi í dag eða síðar ef samkomulag verður um það. Þannig lítur málið út á þessari stundu.