Þingstörf fram að jólahléi

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 14:23:52 (2144)

1995-12-19 14:23:52# 120. lþ. 72.91 fundur 150#B þingstörf fram að jólahléi# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[14:23]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það sé ekki nema von að menn staldri aðeins við og reyni að átta sig á því hvernig staðan er varðandi lúkningu þinghaldsins ef það á að takast með einhverjum skaplegum hætti fyrir hátíðirnar. Það er skaði, herra forseti, að hæstv. forsrh. skuli ekki vera viðstaddur umræðuna því það væri eðlilegt að hann væri einnig til svara um störf þingsins sem ábyrgðarmaður málefna sem eru að koma frá hæstv. ríkisstjórn. (Gripið fram í: Láta sækja hann.)

Ég held, herra forseti, að það sé óhjákvæmilegt að ræða líka í þessu samhengi ástand meiri hlutans á þingi því það vandamál sem við erum í hnotskurn að fjalla um er ekki tímaleysi og ekki skipulagsleysi í störfum hér inni á Alþingi, heldur alger upplausn í meiri hlutanum og samstöðuleysi sem birtist í því að hvert málið á fætur öðru er að koma inn í nefndir og ný og ný efnisatriði eru tekin upp þegar umfjöllun um mál er svo gott sem lokið eða menn hafa talið vera svo. Ég heyri að einn ónefndur hv. þingflokksformaður er eitthvað órólegur í salnum út af þessum orðum en ætli það geti ekki verið að við sem höfum verið að starfa í efh.- og viðskn. undanfarna daga getum sagt eitthvað frá því hvernig störfin hafa gengið fyrir sig þar. Það má t.d. upplýsa það ef hv. þingflokksformaður Framsfl. veit það ekki að nú er bandormurinn tekinn upp á því að fjölga sér. Það er sennilega kynlaus æxlun. Það er upplýst að bandormurinn hafi eignast afkvæmi sem eigi að koma inn í þingið, herra forseti, skröltormur eða pottormur eða hvað sem menn nú vilja kalla það. Þar eiga að koma til umfjöllunar í nýjum lagafrumvörpum splunkuný mál sem ekki hafa verið til umfjöllunar enn þá.

Ég er, herra forseti, þeirrar skoðunar um fundahaldið nú að það væri langskynsamlegast að gefa fundahlé eða frí í dag og afhenda þann tíma meiri hlutanum til að reyna að koma sér saman um málið, til að mynda til fundahalda um stefnu sína í heilbrigðismálum þannig að menn væru ekki með mismunandi þætti almannatryggingalöggjafarinnar og heilbrigðismálanna í höndunum hér sólarhring eftir sólarhring. Gerist það ekki fljótlega að meiri hlutinn komi sér saman um lendingu í þessum efnum og átti sig á því með hvaða hætti hann vill reyna að greiða fyrir þingstörfum, er ekkert annað að gera en taka jólafrí og hittast aftur að hátíðunum loknum. Það þjónar afar litlum tilgangi að menn séu að funda nánast í lausu lofti meðan ástandið er eins og raun ber vitni hjá hæstv. ríkisstjórn. Það er aldrei að vita hvað kemur næst frá klukkutíma til klukkutíma.