Þingstörf fram að jólahléi

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 14:26:40 (2145)

1995-12-19 14:26:40# 120. lþ. 72.91 fundur 150#B þingstörf fram að jólahléi# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[14:26]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér eru menn búnir að fara með smásjá yfir fjárlagafrv. og bandorma, senda einstakar greinar út í þjóðfélagið til umsagnar eins og eðlilegt er. Úr þessu hefur spunnist mikil umræða, bæði í þingsalnum og úti í þjóðfélaginu. Það er verið að fjalla um grundvallarbreytingar, kerfisbreytingar sem snerta almannatryggingar, sem snerta bótakerfið, sem snerta innritunargjöld á sjúkrastofnanir og gjaldtöku innan veggja heilbrigðisstofnana.

Nú erum við hins vegar að heyra í fréttum, hæstv. forseti, að tillögur liggi frammi um það að hækka eigi innritunar- eða komugjöld á heilsugæslustöðvar og til sérfræðinga um á bilinu 17--50%. Við heyrðum það frá ríkisstjórninni núna nýlega að fallið hefði verið frá því að setja innritunargjöld á sjúkrastofnanir. Þetta er ekkert annað en innritunargjald sem hér er verið að tala um, eitt form af því. Ég hef stutt hæstv. heilbrrh. í ýmsum góðum verkum sem hún vill hafa í frammi. Ég var sammála hæstv. heilbrrh. þegar hún féll frá því að setja innritunargjöld á sjúklinga. Hæstv. heilbrrh. hefur talað um nefskatt. Er meiningin að setja nefskatt á þá eina sem eru með brotið nef? Hvers konar vinnubrögð eru þetta?

Ég hef farið fram á það og krafist þess af formanni heilbr.- og trn. þingsins að nefndin verði kölluð saman þegar í stað og hæstv. heilbrrh. geri nefndinni grein fyrir þeim tillögum sem hún hefur sett fram á síðum DV og í öðrum fjölmiðlum. En ég vil taka undir þá tillögu sem hér hefur verið sett fram að hlé verði gert á þingstörfum þar til ljóst er hverjar eru raunverulegar tillögur ríkisstjórnarinnar varðandi fjárlögin og bandorminn og þau mál sem eru til umræðu.