Þingstörf fram að jólahléi

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 14:31:49 (2147)

1995-12-19 14:31:49# 120. lþ. 72.91 fundur 150#B þingstörf fram að jólahléi# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[14:31]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór þess á leit við forsetadæmið að nú yrði gert hlé á þingfundum til þess að menn gætu farið yfir heilbrigðismálin og séð hvaða tillögur liggja þar fyrir. Ég held að tillagan sé góð. Ég held að á þessum tímapunkti þinghaldsins sé rétt að hlé verði gert á þingstörfum og við förum yfir það með hverjum hætti er hægt að ljúka þinghaldi fyrir jól.

Ég vil núna, herra forseti, rifja upp yfirlýsingu af forsetastóli þegar hnökrar urðu á þinghaldi síðustu viku. Þá lýsti hæstv. forseti yfir, eftir fundi með formönnum þingflokka, heilbrrh. og fjmrh., að stjórnarandstaðan og stjórnarliðið ætti í formlegum viðræðum um breytingar á bandormi. Þessi yfirlýsing kom í framhaldi af því að okkur voru gefnar væntingar um það, af munni hæstv. fjmrh., að gerðar yrðu ákveðnar breytingar á bandorminum. Ég nefni sérstaklega til þann part bandormsins sem lýtur að því að breyta lögum um miskabætur til þeirra sem lent hafa í ofbeldisgjörningum. Hins vegar blasir ekkert við á þessum tímapunkti um breytingar í þá veru sem stjórnarliðið gaf þá til kynna. Og ég spyr, herra forseti: Er þetta ekki rétt munað hjá mér, voru þetta ekki hlutirnir sem átti að ræða? Ef þetta blasir við núna hlýt ég að draga þá ályktun, herra forseti, að það sé enginn vilji hjá stjórnarliðinu til þess að uppfylla þær væntingar sem þá voru veittar. Þess vegna held ég að á þessum tímapunkti sé rétt að við setjum nú niður og ræðum hvort ekki sé rétt að fresta þinghaldi nú þegar í dag og menn komi þá frekar saman milli jóla og nýárs.

Ég vil líka geta þess, herra forseti, að mér þykir undrum sæta hvernig vinnubrögð eru núna uppi í heilbrigðismálunum. Í gær kom aðstoðarmaður heilbrrh. til fundar við heilbr.- og trn. og að hans eigin frumkvæði voru okkur þá veittar ágætar upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á bandormi. Við fengum hins vegar ekkert að vita um það sem kom fram í fréttum um kvöldið að verið er að hugsa um að hækka komugjöld á heilsugæslustöðvar og greiðslur til sérfræðinga um 17--50%. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt annað en að nefndinni verði gerð grein fyrir þessum breytingum, þrátt fyrir, herra forseti, að ég skilji mætavel að ekki þarf lagabreytingar til þess. Þess vegna finnst mér krafa hv. þm. Ögmundar Jónassonar réttmæt.