Þingstörf fram að jólahléi

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 14:40:23 (2151)

1995-12-19 14:40:23# 120. lþ. 72.91 fundur 150#B þingstörf fram að jólahléi# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[14:40]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það eru nokkuð sérkennilegar fréttir sem eru að berast núna á öldum ljósvakans. Er það rétt að hæstv. heilbrrh. ætli að hækka sjúklingaskattana sem hún er á móti? Það eru mjög athyglisverð tíðindi. Er þá nokkur maður hissa á því að nefndir þingsins vilji ræða nýja stöðu sem upp er komin?

Verið er að fjalla um heilbrigðismál í þremur nefndum þingsins, í efh.- og viðskn., í fjárln. en síst í heilbrn. Það á auðvitað að gera þá kröfu að heilbrn. fái yfirlit yfir breytingar sem ætlunin er að gera á heilbrigðisþætti fjárlaganna frá því að fjárlagafrv. var lagt fram. Það hefur enginn, --- ég endurtek enginn --- yfirlit yfir það í nefndum þingsins eins og sakir standa. Það er ekki hægt að ljúka þessu máli öðruvísi en þetta yfirlit verði tekið saman og menn geri sér grein fyrir hvert hæstv. ríkisstjórn er að fara, sérstaklega þegar þingið stendur frammi fyrir þeim vanda að hæstv. heilbrrh. er greinilega með allt aðra skoðun á þessum málum en hún var fyrir örfáum sólarhringum. Þá var hún á móti því að leggja á innritunargjöld en ætlar núna að hækka sjúklingaskatta eins og fram hefur komið.

Í öðru lagi veit ég ekki betur en að ríkisstjórnin sé stöðugt að breyta sínum eigin tillögum og ég spyr, hæstv. forseti: Verður frv. um tekju- og eignarskatt tekið fyrir til 3. umr. núna? Það mun vera fyrra málið á dagskránni sem liggur fyrir. Verður það tekið fyrir? Verði það ekki tekið fyrir, hæstv. forseti, af hverju er það? Er það vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki komið sér saman um breytingar sem hún ætlar að gera á því frv. við 3. umr. málsins? Er það vegna þess? Eða er það af einhverjum öðrum ástæðum?

Að lokum vil ég segja við hv. þm. Vilhjám Egilsson sem hann virðist ekki hafa uppgötvað og kemur engum á óvart í salnum nema honum. Það er skylt samkvæmt lögum fyrir alþingismenn að sækja þingfundi.