Þingstörf fram að jólahléi

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 14:45:38 (2153)

1995-12-19 14:45:38# 120. lþ. 72.91 fundur 150#B þingstörf fram að jólahléi# (aths. um störf þingsins), Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[14:45]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Forseti óskar samvinnu við hv. þingmenn um framgang mála í dag en fer ekki fram á meira á þessari stundu en að umræðan um 2. dagskrármálið geti hafist. (SvG: Af hverju ekki fyrsta?) Forseti hafði þegar gert grein fyrir því í upphafi fundarins að þegar við lukum 2. umr. á laugardaginn var, var fallist á það í góðri samvinnu milli forseta og þeirra fáu þingmanna sem voru í salnum að hv. efh.- og viðskn. gæfist tími til að fara frekar yfir málið og það yrði ekki tekið til 3. umr. fyrr en þeirri athugun væri lokið. Og forseta hefur skilist að það sé eitthvað eftir. Þess vegna sagði hann í upphafi fundar að það yrði ekki hafin umræða um það mál.

Forseti lét þess líka getið í upphafi fundar að hann gerði ráð fyrir öðrum fundi í dag þar sem rædd yrðu mál frá nefndum og þá sérstaklega ráðstafanir í ríkisfjármálum. Sá fundur verður ekki settur fyrr en tími hefur gefist til að halda fund með þingflokksformönnum og aðrir sem þar koma að geti ræðst við.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom með þá tillögu að nú yrði fundi frestað og þingið kæmi saman á milli jóla og nýárs. Forseti telur að ákvörðun um það sé ekki tímabær hér og nú, það verði að ræðast í hópi þingflokksformanna í forsætisnefnd og við ríkisstjórnina. Það þykist ég vita að allir hv. þingmenn skilji.

Forseti fer fram á það að í sátt verði nú hafin umræða um 2. dagskrármálið.