Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 16:22:43 (2158)

1995-12-19 16:22:43# 120. lþ. 72.2 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., Frsm. meiri hluta StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[16:22]

Frsm. meiri hluta (Stefán Guðmundsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spurði: Hvað var þingmaðurinn raunverulega að segja? Það sem ég var að segja, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, var það að ég trúi því að bestu upplýsingar sem við höfum um orkubúskap okkar Íslendinga liggi hjá þessum tveimur stofnunum. Annars vegar Landsvirkjun og hins vegar Orkustofnun og hjá starfsmönnum þessara stofnana.

Mér finnst það ekki maklegt sem hv. þm. sagði gagnvart þeim starfsmönnum sem þarna vinna. Ég trúi því að það sé hægt að byggja á þeim upplýsingum sem þeir gefa þingnefndum Alþingis um þessi mál. Ég trúi því. Ég trúi því að haldbetri upplýsingar um þessi mál liggi ekki annars staðar. Ég vil frekar fara í smiðju til þeirra til að fá haldbærar upplýsingar um þessi mál en til hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar.