Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 16:26:16 (2160)

1995-12-19 16:26:16# 120. lþ. 72.2 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[16:26]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. beindi engum spurningum til mín við þessa umræðu enda met ég það svo að flest af því hafi komið fram við 2. umr. sem hefur verið farið yfir í dag. Ég vil þó við lok umræðunnar gera athugasemdir við síðustu ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar þar sem hann segir að þessi umræða hafi orðið til þess að stjórnvöld hafi kannski áttað sig á að menn þyrftu að vanda sig örlítið betur næst ef til fleiri samninga kæmi. Þessu er ég algjörlega ósammála, hv. þm., einfaldlega vegna þess að samningurinn er ekkert sem menn þurfa að skammast sín fyrir. Hann virkar sem vítamínsprauta inn í íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Samkvæmt spám Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn á næsta ári förum við nú upp fyrir að meðaltali OECD-ríkin í hagvexti, sennilega upp í 3,2%. Af hverju er það? Einfaldlega vegna þess að það tókst að gera þennan samning um stækkun álversins. Hagvöxtur mun núna fara yfir 3% og það hefur ekki gerst svo árum skiptir. Hann mun leggja grunn að bættum lífskjörum hér í framtíðinni fyrir þjóðina. Hv. þm. leggst gegn þessum hlutum og það er auðvitað grafalvarlegt. Við erum með þessum samningi að fara út úr þeim vítahring, þeirri kyrrstöðu sem hefur ríkt hér á undanförnum árum. Samningurinn mun skapa ný störf fyrir þjóðarbúið. Hann mun draga úr því atvinnuleysi sem hér hefur verið á undanförnum árum enda er það svo að aðeins einn hv. þm. á Alþingi leggst gegn þessum samningi og það er alvarlegt.