Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 16:28:26 (2161)

1995-12-19 16:28:26# 120. lþ. 72.2 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[16:28]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mjög gaman að fylgjast með hæstv. iðnrh. þegar hann fer með himinskautum í mati á þeim gjörningi sem hann lagði fyrir Alþingi Íslendinga. Hann gleymdi að vísu því lýsingarorði sem honum er tamast þegar hann ræðir málið, það er orðið gríðarlegt. Það kom ekki fyrir núna í þessu andsvari en hins vegar ýmislegt annað af stórum einkunnum sem hæstv. ráðherra var að skreyta sig með. Hann telur það grafalvarlegt mál að ég skuli standa gegn þessum samningi. Ég skil það vel að hæstv. ráðherra líkar ekki að það skuli ekki vera almennt klappað á Alþingi Íslendinga fyrir þessum gjörningi. Ég met það nokkurs að hæstv. ráðherra tekur eftir því. En ég held að hitt sé jafnljóst að þau ummæli sem ráðherrann hefur uppi um þennan samning eru mjög óraunsæ og þær væntingar sem hæstv. ráðherra gefur þjóðinni í tengslum við þennan samning eru mjög fjarri því að eiga stoð í veruleikanum.

Ég skil vel að ráðherra úr liði Framsfl. sé að reyna að efna upp í eitthvað af kosningaloforðum flokksins í sambandi við ný störf. En það sem hangir á spýtunni er ekki nema 90 manns eins og meðal fiskvinnslufyrirtæki sem fá með beinum hætti atvinnu af stóriðjunni í Straumsvík. Hinu vill svo hæstv. ráðherra gleyma að þessi samningur er dæmalaus að því er varðar umhverfisþáttinn því þar er ekki einu sinni reynt að verða við þeim skuldbindingum sem við Íslendingar höfum gert varðandi nýja stóriðju eins og hér er verið að efna til með nýjum kerskála í Straumsvík þar sem gengið er gegn eðlilegum viðhorfum í umhverfismálum þannig að það mundi í engu vera undir það tekið í grannlöndum okkar. Það er framlag sem á eftir að hitta okkur Íslendinga fyrir og er miklu alvarlegra en það sem varðar krónur og aura og tengist þessu máli.