Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 16:36:24 (2166)

1995-12-19 16:36:24# 120. lþ. 72.2 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[16:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Erindi mitt hingað er fyrst og fremst að ræða lítillega einn afmarkaðan þátt þessa máls við hæstv. forsrh. Eins og ég boðaði við 2. umr. þá undi ég satt best að segja og uni enn illa svörum hæstv. iðnrh. Ég óska eftir að hæstv. forsrh., sem fyrir skömmu var hér í húsi, verði gert aðvart um að ég óski eftir viðveru hans sem yfirmanns byggðamála í landinu.

Meðan við bíðum hingaðkomu hæstv. forsrh. kemst ég ekki hjá því að gera athugasemdir við málflutning hæstv. iðnrh. áðan. Ég held að hæstv. iðnrh. eigi ekkert að vera að túlka orð manna sem fallið hafa í umræðunum heldur leyfa mönnum að tala fyrir sig sjálfa. Þó að honum þyki halla á sig í rökræðum við hv. 4. þm. Austurl. er alveg ástæðulaust að afflytja sjónarmið og skoðanir sem komið hafa fram. Ég hef til að mynda aldrei tekið mér þau orð í munn að ég telji ákvæði þessa orkusölusamnings í góðu lagi. Ég hef þvert á móti gert orð leiðarahöfundar Dagblaðsins að mínum að þarna sé um að ræða útsöluverð á orkunni á afsláttartímanum og þriðjaheimsbragur sé á frágangi umhverfismála. Ég dró fram þennan ágæta leiðara og las upp úr honum hér við 1. umr. málsins og hvika ekki frá því að færa má rök fyrir þeim sjónarmiðum.

Um skattamálin er það að segja að bæði sterkir og veikir hlekkir eru að mínu mati í þeirri keðju. Það er eðlilegt að reynt sé að færa skattskil þessa fyrirtækis nær því sem gerist með íslensk fyrirtæki en á móti kemur að sá fasti tekjustofn sem af álverinu hefur verið, framleiðslugjaldið, er lækkaður um helming og fyrir liggur að afkoma fyrirtækisins hefur verið þannig að það á gífurlega mikið óuppsafnað tap, fær miklar fyrningar vegna nýrra fjárfestinga, þannig að það er nú alllangt úti við hafsbrún að þetta fyrirtæki fari að borga tekjuskatt. Ef menn minnast þess hvernig afkoman hefur verið þá hefur tekist þannig til að sá hluti ,,anleggsins`` sem er hér uppi á Íslandi hefur af einhverjum ástæðum átt afar erfitt með að skila góðri afkomu. Fyrr á tíð var nú talið að það væri vegna hinnar margumræddu hækkunar í hafi en á seinni árum hafa aðstæður í áliðnaði verið óhagstæðar um alllangt skeið, þannig að útkoman er sú að afkoman hefur verið mjög léleg. Allir vita hvað það þýðir í sambandi við tekjuskattsgreiðslur slíks fyrirtækis. Þótt ekkert annað kæmi til en þessar forsendur í málinu þá liggur það auðvitað fyrir að í því dæmi eru bæði plúsar og mínusar fyrir íslenska ríkið. Það kann vel að vera og guð láti gott á vita að afkoman í iðnaðinum verði þannig á komandi tímum, í fyllingu tímans, eins og útvarpsstjóri segir stundum þegar hann tekur hvað hátíðlegast til orða, að þarna verði gullöld og gleðitíð og gróði mikill og fyrirtækið skili myndarlegum tekjuskatti í ríkissjóð. En mér sýnist að það sé ekki fyrr en út við ystu hafsbrún að undir það hilli. Á næstu árum þýðir þetta væntanlega minni skatttekjur til ríkisins en ella hefði getað orðið.

Í öðru lagi er alveg fráleitt af hæstv. iðnrh. að gera að stórum hluta í rökstuðningi sínum og máli að það segi eitthvað um langtímaáhrif og gæði þessa samnings þótt til verulegra áhrifa í efnahagslífi okkar komi á byggingar- og framkvæmdatímanum. Það held ég að allir hafi viðurkennt og alltaf vitað. Skárra væri það nú. Þegar fjárfesting af þessu tagi kemur inn í landið og farið er í stórframkvæmdir á stuttu árabili þá eru skammtímaáhrifin af því að sjálfsögðu jákvæð, umtalsverð og jákvæð. Hitt er lakara að langtímaáhrifin eru minni vegna þess að ekki skapast mjög mörg störf til lengri tíma litið. Þetta er þvert á móti feiknarlega dýr fjárfesting á hvert ársstarf til frambúðar, jafnvel þótt margföldunaráhrif séu tekin inn í myndina. Glöggir menn hafa reiknað að dýr mundi Hafliði allur ef svo skyldi hver limur, þ.e. ef jafnmikið kostaði að skapa hvert af 12 þús. nýjum störfum Framsfl. og í þessu tilviki þar sem kannski 70--80 varanleg störf kosta fjárfestingu af stærðargráðunni 12--15 milljarðar kr. eða hvað það nú er.

Skammtímaáhrifin eru auðvitað jákvæð og umtalsverð, t.d. verða þau væntanlega allveruleg á verktakamarkaðnum. Það er gott því þar hafa verið erfiðleikar og samdráttur. Að sjálfsögðu er það einn af jákvæðum þáttum þessa máls, um það er ekki deilt. En mér leiðast satt best að segja þessar tilraunir manna til að stilla hlutunum upp í svart og hvítt. Þeim mun eldri sem ég verð og hef hugsað meira um tilveruna þeim mun vitlausara finnst mér alltaf þegar menn taka eitthvert ofstækisfullt, trúarbragðalegt viðhorf til hlutanna og sjá ekki nema helminginn af litrófinu. Allt sé hvítt og fullkomið og fallegt. Hæstv. iðnrh. má vel vera hreykinn af sjálfum sér og því sem hann hefur sjálfsagt réttilega afrekað í þessu máli. Eftir sem áður er honum ekki til vegsemdar að fallast ekki á að í litrófinu geti ferið fleiri litir og enn síður að tala með þeim hætti að aðrir eigi ekki rétt á öðrum skoðunum en hann sjálfur. Rýrir það gildi skoðana manns eða, svo ekki sé nú talað um, réttar manns til að hafa sínar skoðanir þó að hann standi einn með þeim? Ætli það gæti ekki farið þannig að það eigi einmitt eftir að gefa þeim meira gildi þegar frá líður að viðkomandi einstaklingur hafi haft bein í nefinu til að standa á sinni sannfæringu og sínum sjónarmiðum, jafnvel þótt hann réri þar móti straumnum. ,,Hún snýst nú samt`` var einu sinni sagt af manni sem stóð á móti býsna þungum straumi fordóma og fáfræði á þeim tíma. Það kom í ljós nokkrum hundruðum ára síðar að jörðin snerist, þótt það kostaði viðkomandi mann næstum lífið að láta þau orð út úr sér. Hún snýst enn. Við skulum því reyna að umgangast sjónarmið og viðhorf hvers annars með virðingu Mér falla það ekki sem rök, hvort sem það er hæstv. iðnrh. sem lætur þau falla eða aðrir menn í viðtölum við fjölmiðla, að reyna að gera lítið úr sjónarmiðum manna vegna þess að þeir hafa sérstöðu í málum. Ég til að mynda hef búið við það alllengi og flokkur minn að hafa umtalsverða sérstöðu í tilteknum málum í íslenskri pólitík, varðandi afstöðu til erlendrar hersetu o.s.frv., og ég tel það ekki rýra gildi þeirra sjónarmiða þótt aðrir flokkar hafi haft aðrar skoðanir og hana nú.

Svo ætla ég að lokum að segja við hæstv. iðnrh. að ég tel að hann hafi ekki vaxið af málflutningi sínum í þessum umræðum sem snúa að Alþb. Hæstv. iðnrh. hefði betur tekið á því sem hlut sem á sér eðlilegar skýringar að uppi geta orðið mismunandi sjónarmið í þessum máli. Ég tel að það sé fullkomlega skiljanlegt. Ég get þar talað frá eigin brjósti að fyrir mér er þetta mál langt í frá þannig rakið í eina áttina eða aðra að það hafi verið fyrir fram sjálfgefið hvar afstaða mín mundi endanlega leggjast í málinu. Það ræðst meðal annars umtalsvert af kringumstæðum í málinu, sem ég hef reynt gera að umtalsefni en gengið nokkuð erfiðlega því að menn vilja afgreiða þetta ofan í einhverri lokaðri skúffu, þar sem ekkert kemst að nema hinar jákvæðu röksemdir.

Herra forseti. Ég vona að hæstv. iðnrh. verði ekki með meira skítkast í garð Alþb. í þessu máli.

Þá er það spurningin um hæstv. forsrh., hæstv. forseti. Ég hafði óskað eftir því við 2. umr. að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur þá þriðju vegna þess að ég vildi fá að eiga orðastað við yfirmann byggðamála í landinu áður en málinu yrði lokið. Ég held að einhvern tímann hafi nú að minna tilefni verið hóað í eins og eitt stykki hæstv. forsrh. Ég held ég geri bara hlé á máli mínu þangað til leitinni lýkur og upplýsingar berast um hvernig hæstv. forsrh. hefur það. Hefur forseti einhverjar upplýsingar um hæstv. forsrh.?

(Forseti (RA): Mér er tjáð að hæstv. forsrh. sé væntanlegur innan tíðar. Ég veit ekki nákvæmlega hversu langt er í það.)

Oft kemur góður þá getið er.

(Forseti (RA): Það er styttra en ætlað var.)

Eigum við ekki að hafa það þannig að oft komi góður þá getið er. (Forsrh.: Eða hitt.) Ja, það verður hæstv. forsrh. þá að velja sjálfur. (Gripið fram í: Það kemur í ljós.)

[16:45]

Þannig er mál með vexti, herra forseti, að ég vildi ræða nokkuð við 2. umr. málsins áhrif þessara framkvæmda og þá kannski ekki síður annarra stórframkvæmda sem áform eru uppi um að ráðast í hér á næstunni. Þær eru því miður, leyfi ég mér að segja, allar því marki brenndar að fyrirhuguð staðsetning þeirra er á einu og sama atvinnusvæðinu við sunnanverðan Faxaflóa. Það hefur komið fram að líklegt er talið að skrifað verði undir framkvæmdasamning um jarðgöng undir Hvalfjörð á næstu dögum og aðgerðir séu í undirbúningi til að stækka járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og bæta þar við ofni. Líklegt er að í slíka fjárfestingu verði ráðist. Áhugasamir Ameríkumenn eru líklega með eitt stykki álver í handraðanum, þeir hafa áhuga á að skoða aðstæður til að setja það upp á Grundartanga. Fyrir liggur að búið er að ganga frá staðsetningu álvers á Keilisnesi í samstarfi við svonefndan Atlantsáls-hóp og mögulegt að þau áform vakni upp á nýjan leik á næstunni.

Enn fremur er í frv. því sem hér er til umræðu heimild til frekari stækkunar álversins í Straumsvík en nú er verið að ákveða. Ber þar allt að sama brunni. Enn munu vera fleiri iðnaðarkostir í athugun eins og magnesíum-vinnsla og eitthvað því um líkt miðaðir við staðsetningu hér á sama svæðinu.

Nú er það auðvitað svo að við fögnum því að fjárfestingar og framkvæmdir komi til sögunnar hér eins og annars staðar í landinu ef þær eru þannig úr garði gerðar að þær séu arðgefandi og þeim fylgi jákvæð áhrif í efnahagslífi okkar. En hitt er alveg jafnljóst að það jafnvægi sem við búum við í þessum efnum á vinnumarkaði, fjármagnsmarkaði o.s.frv. er afar viðkvæmt í okkar litla og lokaða hagkerfi og á okkar fámenna vinnumarkaði. Sérstaklega er það hættulegt með tilliti til þess ef öll umsvif verða á einu landshorni. Við höfum langa og bitra reynslu af því að því fylgir mikið jafnvægisleysi og röskun sem er öllum landsmönnum afar óhagstæð og dýr hvort sem menn búa hér við Faxaflóann eða annars staðar.

Herra forseti. Eins og ég hef reynt að rökstyðja í umræðum um þetta mál bæði fyrr og nú tel ég mikið ábyrgðarleysi að horfa ekki með einhverjum hætti á þennan hluta málsins. Ég sætti mig til að mynda afar illa við að hæstv. forsrh., yfirmaður byggðaþróunar og byggðamála í landinu, skuli a.m.k. ekki með einhverjum hætti lýsa sjónarmiðum sínum í þessu efni. Viðbrögð hæstv. iðnrh. voru því miður algjörlega ófullnægjandi og ollu hér miklum vonbrigðum. Breytingartillaga fulltrúa minni hlutans í iðnn., sem var nánast eins og orðrétt upp úr áherslum Framsfl. í sambærilegu máli fyrir 4--5 árum síðan, var felld með sérstakri hvatningu frá hæstv. iðnrh. Ekki einn einasti framsóknarmaður sýndi minnstu tilburði til að muna eftir byggðamálum í þessum efnum. Enda er þegar alveg borðleggjandi og sannað að byggðamál eru eingöngu til þess hugsuð af hálfu Framsfl. að krafsa saman einhver atkvæði úti á landsbyggðinni rétt fyrir kosningar. Síðan má bara gleyma þeim.

Ég hef þess vegna sagt það opinberlega að sá maður einn sem ég set eitthvert traust á í þessum efnum er hæstv. forsrh. Ég geri minna en ekki neitt með marklausar yfirlýsingar framsóknarmanna í þessum efnum. Þeir eru að mínu mati niðurlægðir með svo margvíslegum hætti í sambandi við þessi mál hvað varðar harkalegan niðurskurð á framkvæmdum til samgöngumála og margt því um líkt að það er varla fleiri orðum á þá eyðandi.

En ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., sem mælti hér t.d. fyrr í haust fyrir skýrslu um byggðamál og ársskýrslu Byggðastofnunar, hvort það sé virkilega svo að hæstv. forsrh. sem yfirmaður byggðamála í landinu hafi ekkert leitt hugann að þessari stöðu. Og í öðru lagi hvort hæstv. forsrh. sé tilbúinn til að beita sér fyrir aðgerðum sem gefi a.m.k. einhverjar vonir um að hæstv. ríkisstjórn ætli að sýna lit í þessum efnum. Sú staða sem nú blasir við er að byggðaröskunin, flutningarnir af landsbyggðinni umfram þá sem þangað flytja, eru talsvert á annað þúsund. Sú staða sem nú blasir við er að byggðaröskunin, flutningarnir af landsbyggðinni umfram þá sem þangað flytja, eru talsvert á annað þús. manns núna á milli ára. Og reyndar er landflótti einnig í gangi. Og það er alveg borðleggjandi að sú byggðaröskun er líkleg til að stóraukast ef það verður að veruleika sem ég hef verið að ræða hér.

Það er óhjákvæmilegt að nefna í þessu samhengi hinn mikla niðurskurð opinberra framkvæmda sem bitnar þungt á framkvæmdastiginu á landsbyggðinni. Það er t.d. alveg ljóst að niðurskurður í almennri vegagerð upp á um 1 milljarð kr. hlýtur að bitna mjög harkalega á framkvæmdum þar. Nú er það svo að þeir aðilar sem væntanlega fá mesta vinnu í tengslum við stóriðjuframkvæmdir eða framkvæmdir í tengslum við virkjanir eru hin stærri verktakafyrirtæki í landinu. Vissulega munu þau þá í einhverjum mæli draga sig út af verktakamarkaði fyrir smærri verk í almennri vegagerð. En eftir stendur að minni verktakar í öðrum landshlutum fá væntanlega ekki mikið að gera í tengslum við þessar virkjanaframkvæmdir, eða þeir verktakar sem hafa bolmagn til að bjóða í minni háttar nýbyggingar í almennri vegagerð en hafa hvorki tækjakost, þekkingu né aðstöðu til að bjóða í 100 millj. kr. verk við stóriðjuframkvæmdir. Það væri hægt að hafa veruleg áhrif á jafnvægið í þessum málum ef til kæmu annars vegar auknar framkvæmdir á einhverjum völdum sviðum, t.d. í samgöngumálum, og hins vegar áherslubreytingar.

Kynni ekki svo að vera, herra forseti, að það væri beinlínis efnahagslega skynsamlegt að draga úr einhverjum framkvæmdum hér eða hægja t.d. á framkvæmdum í samgöngumálum hér á suðvestursvæðinu og auka þær þess í stað úti á landi til þess að forðast óæskilega þenslu og kollsteypu á þessu svæði og þar með í grófum dráttum okkar efnahagsmálum? Það örlar ekki á neinni slíkri viðleitni af neinu tagi. Þvert á móti er hér verið að afgreiða fjárlög með harkalegum niðurskurði í samgöngumálum sem bitnar mjög þungt á framkvæmdum á landsbyggðinni samtímis því að stórframkvæmdir koma til með að stórauka umsvif hér á þessu svæði.

Ef þetta verður niðurstaðan, herra forseti, þá er ekki hægt að lesa út úr því nema eitt, þ.e. meðvitaða ákvörðun stjórnvalda um að standa þannig að málum að í kjölfarið verði stóraukin byggðaröskun. Landsmenn geta ekki misskilið þau skilaboð. Forsvarsmenn sveitarfélaga, fjórðungssambanda og aðrir þeir sem eru að reyna að sinna atvinnuþróunarmálum og byggðamálum úti um landið geta ekki misskilið þessi skilaboð. Þeir geta ekki tekið þetta öðruvísi en þannig að þeir standi einir og gleymdir í baráttunni og stjórnvöldum sé sama hvað um þá verði, hvort byggðarlög eða heilir landshlutar hrynji í kjölfarið á þessari miklu byggðaröskun.

Herra forseti. Að lokum langar mig að upplýsa að ég spurðist fyrir um það hjá Hagstofu Íslands hvenær væri að vænta talna um byggðaþróun í landinu eftir það ár sem nú verður gert upp miðað við 1. desember sl. Það var upplýst af Hagstofunni að í fyrsta lagi mundu þær tölur berast á morgun. Því miður ná þær þar af leiðandi ekki inn í þessa umræðu sem ég hefði gjarnan viljað. En betur en ekki ef þær verða eftir sem áður orðnar opinberar áður en þing lýkur störfum og fjárlagafrv. verður afgreitt. Ég óttast því miður að þar muni menn sjá grafalvarlega hluti eins og mikla fólksfækkun á Vestfjörðum sem er þó sá landshluti sem síst mátti við slíku. Mér finnst satt best að segja ekki vansalaust hversu lítill áhugi er að verða á þessum viðfangsefnum hér. Maður virðist tala fyrir daufum eyrum, jafnvel þeirra manna sem með þessi mál eiga að fara. En vonandi heyrum við hér eitthvað jákvætt frá hæstv. forsrh. um þessa hluti og ég lýk því máli mínu og gef honum kost á því að svara.