Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 17:08:22 (2168)

1995-12-19 17:08:22# 120. lþ. 72.2 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[17:08]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. viðveruna og svörin þó að þau séu mér fyrst og fremst vonbrigði. Ekki vegna þess að hugleiðingar hæstv. forsrh. um byggðamál voru að mörgu leyti ágætar en út úr þeim kom það að hæstv. forsrh. er á sömu línu og hæstv. iðnrh. að ekki sé tilefni til að gera nokkurn skapaðan hlut. Í raun og veru eiga orðin ein að nægja sem notalegar hugleiðingar um að það þurfi nú kannski að líta á þetta ef illa fer á næstu árum og menn verði kannski búnir að byggja nokkur álver og það verði farið að halla verulega á. Þá verði líklega að kíkja eitthvað á þetta en ekki fyrr. Það sé ekki ástæða til þess að hafa neinar fyrirbyggjandi aðgerðir eða vera strax vakandi gagnvart því að til jafnvægisaðgerða af einhverju tagi geti þurft að grípa í efnahags- og atvinnulífi okkar til að ekki verði þar röskun á.

Herra forseti. Ég hlýt að lýsa vonbrigðum með að hæstv. ríkisstjórn er að mínu mati með þessu skeytingarleysi við þau sjónarmið sem við höfum hér sett fram í sambandi við þetta mál og önnur sem afgreiðslunni tengjast og fluttar voru um sérstakar breytingartillögur. Með því skeytingarleysi er hæstv. ríkisstjórn að hafna víðtækri samstöðu um þetta mál sem ég held að hefði getað verið í sjónmáli þannig að mun meiri sátt hefði tekist um þessar framkvæmdir. Þá á ég ekki bara við hér á þingi heldur í landinu öllu. Það er dapurlegt vegna þess að að mínu mati býður þetta mál upp á það að um það væri miklu meiri samstaða í þjóðfélaginu en nú er að verða. Það er fyrst og fremst vegna einhvers konar sinnuleysis, áhugaleysis eða viljaleysis hæstv. ríkisstjórnar til að taka eitthvað á í þeim efnum. Auðvitað er alveg hárrétt sem hæstv. forsrh. nefnir að almennt ástand skiptir mjög miklu og kannski sköpum fyrir byggðaþróun. Að sjálfsögðu er það númer eitt að það atvinnulíf sem fyrir er í landinu gangi og það dafni. Þó menn hafi vinnu við það sem menn eru vanir að vinna við o.s.frv. og í byggðarlagi sínu og allt þar fram eftir götunum. Menn verða hins vegar að varast mjög allar alhæfingar í þessum efnum, til að mynda það að segja sem svo: Af því það er ekki atvinnuleysi á Vestfjörðum, eða ekki nema 0,7%, þá afsannast það þar með að vandinn liggi í einhæfu atvinnulífi þar eða aðstæðum fólks þar. En hvers vegna m.a. er ekki atvinnuleysi á Vestfjörðum í dag? Það er vegna þess að mörg hundruð manns hafa flust í burtu á undanförnum árum. Þar á meðal um 300 manns á þessu ári eða fækkunin nemur um það bil þeirri tölu. 300 manns af 9.000 er býsna há prósenta. Ef við gæfum okkur að á Vestfjörðum væru í dag 300 fleiri en þar eru, og væru á atvinnuleysisskrá, við gefum okkur að það sé um það bil jafnvægi á vinnumarkaði, þá væri atvinnuleysi á Vestfjörðum orðið svipað og í mörgum öðrum landshlutum. Svo einfalt er dæmið. Hæstv. forsrh. er að gleyma því sama og maðurinn sem var að ræða um ástandið í Færeyjum og sagði: Það er merkilegt að það skuli ekki vera meira atvinnuleysi í Færeyjum eftir allt sem á undan er gengið. Af hverju er ekki meira atvinnuleysi í Færeyjum, hæstv. forsrh.? Það er af því að um 15% þjóðarinnar eru flutt úr landi og eru í Danmörku eða einhvers staðar annars staðar, hvort sem þeir hafa þar atvinnu eða ekki. Þar af leiðandi eru þau 15% ekki á atvinnuleysisskrá í Færeyjum. (Gripið fram í.) Það er heilmikið til í því en það er m.a. vegna þess að það hefur flust svo margt fólk í burtu. (Gripið fram í.) Hvort kemur nú á undan, eggið eða hænan, hæstv. forsrh.? Snúum dæminu við og segjum að þetta fólk flytti skyndilega til baka til Vestfjarða? Hvað yrði um það þá? Færi það þá ekki inn á atvinnuleysisskrá? (Gripið fram í.) Það eru fullyrðingar hæstv. forsrh. í sjálfu sér. Sumt af þessu fólki hefur farið burtu vegna tímabundinna áfalla og atvinnuleysis kannski í sínu byggðarlagi þegar þau hafa gengið yfir og síðan ekki flutt þangað aftur. Ég held að það sé því miður of einfölduð mynd af ástandinu. En þetta skiptir ekki meginmáli heldur hitt að reynslan hefur sýnt okkur að jafnvel næg atvinna í afskekktum byggðarlögum og í fábreyttu og einhæfu atvinnulífi dugar ekki til að halda þar uppi þróttmikilli byggð þannig að hún dafni. Það þarf fleira að koma til. Hvað nefna forsvarsmenn þeirra byggða yfirleitt númer 1, númer 2 og númer 3? Þeir nefna bættar samgöngur. Það er mat flestra sem eitthvað hafa nennt að leggja sig eftir þessum málum á undanförnum árum að úrslitaatriði í sambandi við þróun byggðamála í landinu séu bættar samgöngur. Þá á ég við samgöngur í víðustu merkingu þess orðs, líka fjarskipti og allt sem þar fellur undir.

Það er líka rétt að taka það upp, og það nefndi reyndar hæstv. forsrh., að spurningin um byggðamál og byggðaþróun og aðstæður í atvinnu- og byggðamálum, eru að stórum hluta til spurning um andrúmsloft. Um sálarástand. Það er ekki síður þess vegna, herra forseti, sem ég hef reynt að gera þessi mál að umtalsefni og reynt að kveikja einhverja hugsun hjá hæstv. ríkisstjórn um stöðuna í þessum málum. Ég held að skilaboðin sem eru að berast frá Alþingi og hæstv. ríkisstjórn þessa dagana séu mjög neikvæð ef þau verða eins og nú horfir. Þá á ég ekki síst við þennan harkalega niðurskurð í samgöngumálunum sem þarna er verið að fara í.

Herra forseti. Ég held að menn hafi ekki almennilega tengt þessa hluti saman eins og vert væri og skylt væri. Ég spái því að þegar menn sjá útfærðan niðurskurðinn á vegáætlun í einstökum verkum sem á að fresta eða skera niður á næstu árum muni renna upp ljós fyrir ýmsum en fullseint að vísu. Það er auðvelt að skjóta sér á bak við eina tölu. Hvað er einn milljarður króna milli vina ef menn vita ekki í hvaða samhengi það er? En þegar menn átta sig á því að það er fjórðungur af öllu framkvæmdafé í vegamálum og fara svo að skoða það hver hjá sér hvað það gæti þýtt þá er nú hætt við að það fari að hvína í einum og einum nösum einhvers staðar. En það verður þá sjálfsagt of seint í rassinn gripið þegar búið er að afgreiða allar skerðingarnar sem hér eru til meðferðar.

[17:15]

Hæstv. forsrh. sagði ef, ef þetta verður nú svona og svona, ef það verður ráðist í þessa seríu stórframkvæmda á suðvesturhorninu þá verður kannski ástæða til að kíkja eitthvað á þetta, grípa til aðgerða. Ég, herra forseti, tel að ,,efið`` sé ,,nú`` vegna þess að við erum með þessa hluti í einum og sama punktinum. Við erum með það. Við erum að afgreiða þennan samning um stækkun álversins plús viðbótarheimild um stækkun upp í 200 þús. tonn og á þingi verða ekki önnur betri tækifæri til að ræða t.d. áhrifin af öðrum líklegum framkvæmdum heldur en núna. Og á Alþingi þessa dagana er verið að afgreiða niðurskurðinn samkvæmt fjárlagafrv. í ýmsum mikilvægum þáttum opinberra framkvæmda, samgöngumálum og fleiri hlutum.

Við erum að gera þetta, herra forseti, við þær aðstæður að samkvæmt nýframreiknaðri spá verða 80% þjóðarinnar komin í eina borg við Faxaflóann um eða fljótlega upp úr aldamótunum. 80% þjóðarinnar. Ég veit ekki hvort menn hafa einhvern tímann gluggað eitthvað í landafræði, þeir sem hér eru eða kannski lesa hv. þm. lítið í þeim fræðum sem eru ein allra gagnlegustu vísindi til að skoða fyrir þá sem vilja eitthvað fylgjast með þróun í mannlegum samfélögum og breytingum á búsetuháttum og öðru slíku. En ég þykist a.m.k. vita nóg til þess að svona búseturöskun og svona byggðamynstur í einu landi er að verða gjörsamlega fáheyrt a.m.k. í öllum hinum vestræna heimi. Að 80% þjóðar sem býr í stóru og vel byggilegu landi og hefur eitthvert mesta landrými í allri Evrópu, búi svo gott sem öll á sama blettinum. Að fjórir fimmtu hlutar þjóðarinnar verði komnir í eina borg. Hvers konar nýting er það á landgæðum og möguleikum sem hér bjóðast? Og er það æskileg og heppileg þróun? Er það mynstrið sem við viljum sjá hér að afgangurinn af landinu og þeir sem annars staðar búa skipti sífellt minna og minna máli, verði orðin eins og hver annar lítill minnihlutahópur sem í vaxandi mæli verði horft fram hjá og ekki þurfi að taka tillit til? Ég held að þetta sé mjög, mjög slæm þróun, herra forseti, og þarna væri þvert á móti betra að hlutirnir væru á þann veginn að jafnvægi þróaðist heldur í hina áttina, að þau svæði styrktust sem liggja annars staðar í landinu. Kannski er Ísland svona sérstakt að þetta þyki bara allt í lagi. Eina landið á öllum Vesturlöndum þar sem menn hafa ekki neinar áhyggjur af slíkum hlutum. Það er a.m.k. ekki svo hér í kringum okkur. Mér er vel kunnugt um það t.d. í Noregi, í Skotlandi, í Kanada og víðar eru geysiviðamiklar aðgerðir af ýmsum toga í gangi til þess að sporna gegn því sem þar er metið og skilgreint sem óæskileg byggðaþróun og röskun. Nýjar hugmyndir í umhverfismálum og margt, margt fleira þar fram eftir götunum mælir heldur með því að slík viðleitni sé höfð uppi af hálfu stjórnvalda, en ekki hér, ekki upp á Íslandi. Sá flokkur sem lengi hefur gefið sig út fyrir að vera alveg sérstakur skjöldur manna á landsbyggðinni og fer þangað einu sinni á fjögurra ára fresti til að sækja sér fylgi, deplar ekki auga í umræðum um þetta mál. Deplar ekki auga. Það segir kannski sína sögu um það hvert sá flokkur er kominn.

Hæstv. utanrrh., sem á að heita formaður í þessum flokki, örugglega er hann a.m.k. formaður þessa fáu daga á ári sem hann er heima, hlýtur að hafa góðan varaformann, hæstv. utanrrh., því hann sést hér afar lítið. Hann hefur þetta svona eins og selstöð, kemur hér við af og til, hvílir sig og hleður batteríin eins og sagt er, milli hinna löngu og erfiðu ferða í útlöndum. Hann hefur ekki mikið lagt til málanna í umræðunum um þetta, hæstv. utanrrh. Er það kannski vegna þess að það kynni að vera svo þrátt fyrir allt að það sé eitthvert feimnismál fyrir hv. 1. þm. Austurl. hvernig verið er að ganga frá þessum hlutum? Kannski það.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð. Mér eru þessi svör hæstv. ráðherra mikil vonbrigði. Þau eru á engan hátt sú viðleitni í þessum málum sem ég hefði talið að hæstv. ríkisstjórn væri rétt og skylt að sýna og sú viðleitni sem hefði getað aukið samstöðu um þetta mál og afgreiðslu þess á þingi. Það er alveg ljóst að ég treysti mér ekki til að greiða þessu máli atkvæði eins og allar kringumstæður þess eru í pottinn búnar. (Gripið fram í: Hættur við?) Það stóð í sjálfu sér aldrei neitt frekar til, hæstv. forseti, í frammíkalli, sem hefur nú enga bjöllu til að lemja í þannig að það er nú gott, menn fá að tjá sig óhindrað fyrir því. Ég harma þetta satt best að segja vegna þess að ég tel að ef betur hefði verið að málum staðið varðandi a.m.k. tvo af þremur þáttum þessa máls sem við höfum sérstaklega fjallað um og fluttar hafa verið brtt. um, þ.e. umhverfisþáttinn og þennan þátt sem lýtur að atvinnu- og byggðaþróun, þá hefði það getað greitt mjög fyrir mun víðtækari samstöðu um málið. Það hefði verið gleðilegt ef það hefði tekist en því hefur hæstv. ríkisstjórn klúðrað.