Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 17:40:38 (2170)

1995-12-19 17:40:38# 120. lþ. 72.1 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[17:40]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta frv. sem hér er í lokameðferð hv. Alþingis er einn meginþátturinn í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Þær brtt. sem kynntar voru af hálfu meiri hluta efh.- og viðskn. lúta allar að tæknilegum breytingum sem gerðar voru á frv. milli umræðna, nokkrar dagsetningar færðar til rétts vegar auk þess sem villur sem komu í ljós eru leiðréttar. Minni hluti í efh.- og viðskn. gerir ekki athugasemdir við þær brtt. sem eru lagðar til á frv. af hálfu meiri hluta efh.- og viðskn. Hins vegar er full ástæða til að vekja athygli á nokkrum þáttum í frv. sem hér er til umræðu. Það er eins og ég nefndi áður ákveðinn hornstein í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, þeirri efnahagsstefnu sem sér skýr merki í fjárlagfrv., í þessu frv. og í svokölluðum bandormi og fylgifrv., en nokkur þeirra eru enn órædd eða í þinglegri meðferð á hinu háa Alþingi. Það er fyrst og fremst sá þáttur sem snýr að afnámi viðmiðunar verðlags- og launaþróunar af hálfu ríkisstjórnarinnar, þ.e. það efni sem hefur gengið eins og rauður þráður í gegnum efnahagsstefnu stjórnvalda á haustdögum.

Nú er það svo að slíkar vísitöluviðmiðanir má vitaskuld taka til endurmats, ekki síst í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið á verðlagsþróun undanfarin missiri. Það er hins vegar ekki hægt að lesa út úr neinum af þessum frv. ríkisstjórnarinnar þá ætlun að afnema viðmiðanir sem lið í efnahagsstefnu og uppstokkun í ríkisfjármálum heldur er fyrst og fremst um það að ræða að afnám þessara viðmiðana er beitt til þess að rýra kjör almennings. Þetta endurspeglast í fjölmörgum frv. sem við höfum haft til afgreiðslu á aðventunni.

Það eru nokkur ákvæði í þessu frv. er lúta að breytingum sem hægt er að fella sig mjög vel við. Það má nefna skattfrelsi lífeyrisiðgjalda sem er hluti af samningsgerð aðila vinnumarkaðarins með aðild ríkisvaldsins. Afnám skattvísitölu hins vegar er það atriði sem dregur hvað mest úr öryggi þegnanna sem ekki áttu von á þessum breytingum núna á haustdögum. Þetta hefur komið mjög skýrt fram í umfjöllun um annað frv. ríkisstjórnarinnar sem tengist bótum almannatrygginga en allt er þetta sama stefnan sem gengur hér fram.

[17:45]

Ég vil draga sérstaklega fram við afgreiðslu þessa máls að skattafsláttur ellilífeyrisþega skyldi vera afnuminn með öllu. Það var gert eftir 1. umr. Til stóð að lækka þennan skattafslátt í áföngum í takt við að áhrif af skattfrelsi lífeyrisiðgjalda færu að koma fram. Þessi aðgerð sparar ríkissjóði um 150 millj. kr., samkvæmt þeim upplýsingum sem hv. efh.- og viðskn. fékk við umfjöllun á frv.

Ég vil geta þess að í tengslum við bandorminn og aðgerðir í heilbrigðismálum komu forsvarsmenn félags aldraðra á fund nefndarinnar í morgun. Þeir höfðu verulegar áhyggjur af þessu og litu á breytingar sem gerðar voru á frv. mjög alvarlegum augum. Þær þýða mikil fjárhagsleg útlát fyrir aldraða sem eiga ekki hatrömm hagsmunasamtök til að berjast fyrir málum sínum en eru mjög háðir velvild annarra í þjóðfélaginu.

Það kom greinilega fram við afgreiðslu málsins á hinu háa Alþingi hvað viðvék þessum þætti hve mikið óöryggi öldruðu fólki er búið. Það líður varla sá fréttatími að ekki berist fregnir frekari skerðingum ríkisstjórnarinnar sem hitta fólk sem er komið á efri ár og fólk sem þarf að leita sér hjálpar í heilbrigðiskerfi eða félagslega kerfinu. Það verður að líta á þessi mál í samhengi. Þótt hér sé um að ræða frv. um tekju- og eignarskatt þá hangir það vitaskuld saman við fjárlögin og hinn svokallaða bandorm, auk nýrra aðgerða í heilbrigðiskerfinu.

Yfir landsmenn, sérstaklega fólk sem er óöruggt með stöðu sína, dynja sífelldar fréttir af niðurskurði. Það verður ekki búið við að nú nokkrum dögum fyrir jól skuli mál vera afgreidd á þennan hátt. Það er í engu samræmi við yfirlýsingar sem núv. ríkisstjórnarflokkar gáfu fyrir kosningar. Líklega hefur sjaldan verið mynduð ríkisstjórn sem hefur gengið meira á svig við stefnumál sín fyrir kosningar. Þetta er sérstaklega áberandi hvað viðvíkur Framsfl., sem reið um héruð fyrir kosningar og lofaði öllu fögru, kvaðst vilja leysa hvers manns vanda. Það fór eins og gjarnan þegar rekin er harðvítug kosningabarátta að mjög margir landsmenn lögðu trúnað á orð þeirra.

Nokkrum sinnum í þessari umræðu hafa verið rifjuð upp ummæli þingmanna Framsfl., ýmissa núv. ráðherra, frá því fyrir u.þ.b. ári síðan þegar þeir lögðust gegn ráðstöfunum í ríkisfjármálum þáv. ríkisstjórnar. Þeir hafa farið létt með að snúa gjörsamlega við blaðinu í þessu efni og bætt um betur með skerðingu í fjölmörgum liðum. Það er leitun á öðru eins.

Vitaskuld er jákvæð sú aðgerð sem gerð var í samningum við aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar nú fyrir nokkrum vikum að láta ganga til baka hluta af fyrirhuguðum skerðingum og aftengingar. En það var ekki gert fyrr en eftir þrýsting frá aðilum vinnumarkaðarins. Ég bendi enn á að öll aftengingarákvæðin í þessu frv. og skyldum frv. eru varanleg sem gerir að verkum að berjast þarf fyrir réttmætri leiðréttingu á hverju einasta ári. Menn geta spurt sig hvort það sé eðlilegt fyrirkomulag stjórnkerfisins að sá hópur sem minnst má sín, sjúklingar eða aldraðir, þarf á hverju hausti að óttast um afkomu sína vegna aðgerða ríkisstjórna.

Það upplýstist einnig í efh.- og viðskn. í morgun þegar rætt var við félagsmálastjóra Reykjavíkur að persónulegum vandamálum sem þar er fengist við hefur fjölgað mjög verulega á þessu ári. Við ættum að hugleiða að þótt meðaltalskaupmáttur sé sagður hafa hækkað nokkuð á árinu hefur atvinnuleysi aukist og staða þeirra sem verst eru settir versnað enn frekar. Það er ekki hægt að gera það að kjarnaatriði í efnahagsstefnu ríkisstjórnar að sauma svo að þessari stétt manna að hún geti ekki varið sig. Það verður einnig að hafa í huga að þegar ríkisvaldið dregur úr framlögum til þessara málaflokka er verið að velta vandanum yfir á sveitarfélögin. Þær áhyggjur komu einmitt mjög skýrt fram þegar félagsmálastjóri Reykjavíkur lýsti stöðunni fyrir nefndarmönnum í efh.- og viðskn. Flestir þingmenn vita að mörg sveitarfélög eru komin í svo mikla erfiðleika að þau eiga erfitt með að uppfylla nauðsynlegar skyldur á þessu sviði.

Í frv. er m.a. framlengdur svokallaður 5% hátekjuskattur sem stjórnarandstaðan hefur stutt. Þetta er skattur sem kemur ofan á tekjur sem eru ríflega 200 þús. kr. á mánuði og er vart hægt að tala um raunverulegan hátekjuskatt. Tími er kominn til að leggja á sérstakan skatt á tekjur sem nema t.d. yfir 700--800 þús. kr. á mánuði. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar kemur hins vegar skýrt fram í því efni að ekki er hugleidd nein slík skattlagning. Hún birtist einnig í því að ekki er lagður á fjármagnstekjuskattur, sem mundi auka réttlæti í innheimtu skatts og aukja tekjur ríkissjóðs. Þar bólar ekki á neinum hugmyndum um útfærslu þessa nema á því eina sviði sem tengist afgreiðslu við ríkisfjármálin nú á haustdögum, fjármagnstekjuskattur er lagður á eldra fólkið. Það er fyrst látið greiða þennan skatt. Þessi frv. verða því að skoðast í heild og ekki er hægt að greina þau í sundur með auðveldum hætti í umræðu. Það sem er alvarlegast við frv. er afnám viðmiðunar, hin einhliða skerðing sem var notuð til viðmiðunar við skattvísitölu. Það allra versta í þessu er að skattafsláttur ellilífeyrisþega er afnuminn með öllu.

Brýnt er, herra forseti, þótt frv. sé komið býsna langt í afgreiðslu þingsins, að leitað verði leiða til að vinda ofan af fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar. Hópurinn sem oft hefur þurft að bera byrðar umfram aðra fái nú ekki þá jólagjöf frá Alþingi að að missa öryggi í meðhöndlun á skattafslætti af lífeyrisiðgjöldum.