Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 21:03:31 (2173)

1995-12-19 21:03:31# 120. lþ. 72.1 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[21:03]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að spyrja hvort hæstv. fjmrh. er staddur í þinghúsinu og ef svo er óska eftir að hann verði viðstaddur þessa umræðu.

(Forseti (GÁ): Hæstv. fjmrh. er í húsi og skal forseti gera honum viðvart.)

Ég óska einnig eftir því að hæstv. heilbr.- og trmrh. komi í þingsalinn.

(Forseti (GÁ): Forseti upplýsir að hæstv. heilbrrh. er hér einnig og verður henni gert viðvart.)

Ég óska eftir því að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., verði einnig viðstaddur umræðuna.

(Forseti (GÁ): Forseti getur upplýst að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er staddur í húsi og verður honum einnig gert viðvart um óskir hv. þm.)

Ég mun ekki hefja mína tölu, hæstv. forseti, fyrr en þessir aðilar eru komnir í þingsalinn en geta þess að þetta var mjög athyglisverð ræða sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutti áðan. Hann skýrði mjög vel hvernig ríkisstjórnin virðist hafa fundið sérstakan markhóp til tekjuöflunar og er þar um að ræða aldrað fólk. Það er með ólíkindum hve miklar kjaralegar árásir eru gerðar á aldraða, bæði í fjárlagafrv. og einnig í hinum illræmda bandormi, sem svo er nefndur.

Ég hef fjallað nokkuð um efni frv. við fyrri umræður í þinginu. Bæði hef ég fjallað um meginkerfisbreytingar sem boðaðar eru með þessari lagasmíð, svo og í bandorminum, sem ganga út á að aftengja bætur í tryggingakerfinu, launaþróun og fjárhæðir í skattkerfinu, verðbreytingum. Einnig hef ég gert að sérstöku umræðuefni atlöguna sem gerð er að öldruðu fólki. Hún virðist engan enda ætla að taka, eins og ég gat um áður. Ég fagna því að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðsk., er kominn í þingsalinn til að vera viðstaddur umræðuna og er gleðilegt að sjá hann í þingsal. Það sætti furðu fyrr í dag þegar hann veitti öðrum þingmönnum ákúrur fyrir slælega þingsetu, þingmönnum sem hafa sótt þingið mjög vel en hv. þm. Vilhjálmur Egilsson virðist okkur hinum tala úr glerhúsi þegar hann ávítar aðra fyrir slaka mætingu. Ég bíð þess að hæstv. fjmrh. komi til umræðunnar en ég hef sérstaklega óskað eftir því. En það var annar hv. þm., Steingrímur J. Sigfússon, sem óskaði eftir að hæstv. forsrh. gerði grein fyrir því sem hv. þm. sagði að flygi fyrir að minni hluti upp á einn mann, hæstv. forsrh., tefði framgang þingmála. Ég ætla nú ekki að hafa eftir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði. Það er rétt að hann geri sjálfur grein fyrir máli sínu. Ég hef óskað eftir því sérstaklega að tveir hæstv. ráðherrar verði viðstaddir umræðuna.

(Forseti (GÁ): Því miður misskildi forseti áðan beiðnina og lét kalla til hæstv. forsrh. en nú hefur forseti gert ráðstafanir til þess að kalla hæstv. fjmrh. í salinn.)

Ég hélt að hæstv. forsrh. væri viðstaddur umræðuna þar sem ég gerði grein fyrir áhyggjum sem ég hef af lagabreytingum sem verið er að knýja í gegn og snerta sérstaklega kjör aldraðra. En ég ætla að leyfa mér að gera hlé á tölu minni þangað til hæstv. fjmrh. kemur.

Ég fagna því að hæstv. fjmrh. skuli gera okkur þann heiður að vera viðstaddur þessa umræðu um fjármál ríkisins. Ég gat um í upphafi, hæstv. fjmrh., að ég hefði áður í ræðum fjallað nokkuð um efni frv. sem hér er til umræðu og einnig þær kerfisbreytingar sem eru boðaðar í svokölluðum bandormi. Ég vakti athygli á því að í öllum þessum frv., sem snerta kjör fólks, sem liggja núna fyrir er sérstaklega vegið að öldruðum. Mig langar til að víkja að nokkrum atriðum sem snerta þessa lagasmíð. Þannig er að fyrir fáeinum árum hófu ýmis samtök aldraðra mikla baráttu gegn tvísköttun lífeyris. Menn sögðu sem svo: Það gengur ekki að skattleggja lífeyrisgreiðslur tvisvar sinnum, bæði þegar iðgjald er sett inn í lífeyrissjóð til geymslu og einnig þegar lífeyrir er tekinn út úr þessari sömu geymslu, úr lífeyrissjóðnum, þ.e. að skattleggja sjálfan lífeyrinn. Urðu nokkrar deilur um á hvorum endanum bæri að aflétta skattinum ef á annað borð yrði í það ráðist. Deilurnar mögnuðust nokkuð þegar sýnt þótti að stjórnvöld hygðust verða við þessum kröfum aldraðra um að afnema tvísköttun á lífeyri.

Ég skal gera hlé á máli mínu, hv. form. efh.- og viðsk., Vilhjálmur Egilsson, meðan hv. þm. þarf að ljúka erindum í þingsalnum.

Sem sagt, það var deilt um það á sínum tíma á hvorum endanum ætti að aflétta skattheimtunni, af iðgjaldinu eða af sjálfum lífeyrinum. Það varð síðan úr að sett voru lög sem kváðu á um að 15% af lífeyrisgreiðslum til einstaklinga sem náð hefðu 70 ára aldri yrðu undanþegin skatti. Ekki voru allir á eitt sáttir með þessa ráðstöfun. Þannig benti Alþýðusambandið t.d. á að þetta gagnaðist betur þjóðfélagshópum sem byggju við traust lífeyrisréttindi en hinum sem að byggju við ótraustari réttindi. Þar sem lífeyrisréttur opinberra starfsmanna væri almennt betri þegar á heildina væri litið en þeirra sem störfuðu á almennum vinnumarkaði kæmi þetta opinberum starfsmönnum betur. Heppilegra væri, að mati ASÍ, að létta sköttum af hinum endanum, þ.e. létta sköttum af hinum vinnandi manni, ekki lífeyrisþeganum. Með öðrum orðum, létta skattbyrðinni af iðgjöldunum í stað lífeyrinum. Þetta varð síðan niðurstaðan og var ákveðið að létta sköttum af iðgjöldum í tveimur tímasettum áföngum. Þá kom gagnrýni úr gagnstæðri átt. Samtök aldraðra, svo og samtök opinberra starfsmanna bentu á að þessi leið til afnáms tvísköttunar væri ekki síður ranglát en hin. Ástæðan er að sjálfsögðu sú að því hærri sem launin eru þeim mun hærri iðgjöld eru greidd í lífeyrissjóð og eftir því skattafslátturinn meiri til hátekjufólks en lágtekjufólks. Einstaklingur með 50 þús. kr. á mánuði fær þannig 4% af launum sínum undanþegin skatti, upphæð iðgjaldsins, eða 2 þús. kr., sem reyndar breytir engu því þessi einstaklingur er undir skattleysismörkum en 500 þús. kr. maðurinn fær 20 þús. kr. undanþegnar frá skatti. Þannig að sama er á hvorum endanum er tekið, um mismunun er að ræða. En það er um annars konar mismunun að ræða einnig sem kemur fram í yfirlýsingu sem BHMR, Bandalag háskólamanna, sendi frá sér í dag og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Bandalag háskólamanna, BHMR, mótmælir harðlega þeirri skerðingu á tekjum ellilífeyrisþega sem felst í niðurfellingu á 15% frádrætti af greiddum lífeyri úr lífeyrissjóði. Í fyrirliggjandi frv. til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt, nr. 75/1981, var upphaflega gert ráð fyrir að þessi frádráttur yrði helmingaður í 7,5%. Bandalagið taldi að hér væri í raun um ýtrustu skerðingu að ræða en lét málið átölulaust. Niðurfelling á 15% frádrættinum í heild mun hins vegar valda mörgum ellilífeyrisþeganum umtalsverðum tekjumissi og bitnar harðast á þeim sem sparað hafa lengst og mest í lífeyrissjóði. Það er því ljóst að þessi breyting á frv. beinist einkum gegn opinberum starfsmönnum.

[21:15]

Bandalagið vill einnig mótmæla vinnubrögðum í þessu máli. Bandalaginu var sent frumvarp til umsagnar með skömmum fyrirvara sem gerði ráð fyrir 7,5% frádrætti eins og áður hafði verið talað um. Eftir að bandalagið hafði tjáð sig um málið var þessum forsendum breytt án þess að bandalaginu gæfist kostur á að koma að sjónarmiðum sínum.

Bandalag háskólamanna, BHMR vill í þessu sambandi einnig benda á að skattfrelsi lífeyrisiðgjalda samkvæmt fyrirliggjandi skattalagabreytingum nýtist opinberum starfsmönnum miklu síður en öðrum launamönnum þar sem opinberir starfsmenn greiða aðeins iðgjöld af dagvinnulaunum. Bandalagið telur að þennan mismun verði að bæta opinberum starfsmönnum í kjörum.``

Undir þetta skrifar nafn sitt, Páll Halldórsson formaður BHMR og lýkur þar með tilvitnun í þessa ályktun BHMR sem samtökin sendu frá sér í dag.

Mismununin sem bent var á í þessari yfirlýsingu er sú að hluti vinnandi fólks greiðir iðgjöld af öllum tekjum og fær skattafslátt í samræmi við það. Þetta er sú regla sem tíðkast á almennum vinnumarkaði. En hjá opinberum starfsmönnum þá eru iðgjöld greidd af föstum launum einvörðungu. Þannig að á þessari forsendu skapast mismunun opinberum starfsmönnum í óhag. Þeir sem eru með hæstar heildartekjur á vinnumarkaði, fólkið og einstaklingarnir sem eru með 500, 600 og 700 þús. kr. hagnast að sjálfsögðu mest á þessum skattkerfisbreytingum sem verið er að gera.

Ég vil leyfa mér að taka undir með Landssambandi aldraðra og öðrum samtökum sem hafa andæft þessum breytingum, andæft því að skattaívilnanir aldraðra séu afnumdar. En hver skyldi nú, hæstv. forseti þings, vera lágmarkskrafan hjá þeim sem hafa forgöngu um þessa baráttu af hálfu aldraðra og annarra? Hún hlýtur að vera sú að staðið verði við þau fyrirheit sem gefin voru þegar fjárlögin voru birt um að þegar 15% skattaívilnunin yrði færð niður, mundu þeir skattpeningar sem þannig yrði aflað látnir renna inn í hækkun grunnfjárhæða lífeyristrygginga.

Þetta sjónarmið kemur fram í áliti BSRB, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, frá 8. des. þar sem fjallað er sérstaklega um þetta frv. og var það sent Alþingi. Það skal tekið fram að BSRB hefur áður mótmælt niðurfellingu á skattaívilnunum til lífeyrisþega en í þessu áliti er sett fram skilyrði að því gefnu að þessar skattkerfisbreytingar yrðu keyrðar í gegn. Í áliti BSRB segir orðrétt m.a., með leyfi forseta:

,,Hvað varðar breytingar á skattfrelsi hluta af útgreiddum lífeyri til einstaklinga yngri en 70 ára skorar BSRB á ríkisstjórnina að standa við það sem stendur í fjárlagafrumvarpinu að nýta þá fjármuni sem við þetta sparast til að hækka grunnfjárhæðir lífeyristrygginga og telur það forsendu þess að ellilífeyrisþegar séu sviptir þessum skattaívilnunum.``

Þetta var yfirlýsing sem ég hef áður vitnað til í þessum ræðustól þar sem ég vísaði í frv. til fjárlaga 1996 þar sem það fyrirheit er gefið beinlínis að verði þessar skattaívilnanir numdar brott þá verði þeir fjármunir sem þannig sparast látnir renna til að hækka grunnfjárhæðir lífeyristrygginga. Þessu geta menn flett upp á bls. 271 í frv. til fjárlaga 1996. Hvað skyldi hér vera um miklar fjárhæðir að ræða? Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað úr fjmrn. ætla menn að 15% skattaívilnun til lífeyrisþega nemi um 250--300 millj. kr. á ári hverju. Nú vil ég beina þessari spurningu til hæstv. fjmrh.: Hvað líður þeim loforðum sem lífeyrisþegum og öldruðum voru gefin í frv. til fjárlaga 1996 um að láta þá fjármuni sem spöruðust við það að afnema þessar skattaívilnanir til aldraðra, renna til að hækka grunnfjárhæðir lífeyristrygginga? Hvað líður þessu loforði?

Ef við lítum á hvaða upphæðir við erum að tala um fyrir einstaklingana, þá hefur komið fram í opinberum gögnum, þar sem tíundaður er fjöldi lífeyrisþega, útborgaður lífeyrir og meðallífeyrir fyrir árið 1993, að 4.528 fyrrverandi starfsmenn ríkisins fengu greitt úr lífeyrissjóði LSR. Frádrátturinn þýddi fyrir þennan hóp að meðaltali 82 þús. kr. á ári. Við erum að tala þarna um að meðaltali 7.000 kr. á mánuði en ríkisstjórnin og fjmrh. höfðu heitið lífeyrisþegum að ef af því yrði að þessar ívilnanir yrðu numdar brott þá mundi þetta verða látið renna í lífeyriskerfi almannatrygginga. Hvað líður þessu loforði? Ætla menn að ganga á bak orða sinna? Það er nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir þessu við umræðuna á eftir því þetta stendur skrifað í frv. til fjárlaga. Ef ekki verður orðið við því að efna þau fyrirheit sem lífeyrisþegum voru gefin er niðurstaðan úr þessari áralöngu baráttu lífeyrisþeganna einfaldlega sú að þeir fá ekki neitt. Þeir fá ekkert út úr þessari áralöngu baráttu. Og reyndar er það verra en svo því samkvæmt þeim breytingum sem boðaðar eru í fjárlagafrv. og öðrum tengdum frv., m.a. því sem hér er til umræðu, þá eru boðaðar enn frekari álögur á aldraða. Nú er talað um að hækka hlutfall á skerðingu á grunnlífeyri úr 25% í 35% sem fyrir marga einstaklinga þýðir 5.000--6.000 kr. á mánuði. Síðan er fundinn sérstakur markhópur ríkisstjórnarinnar, þ.e. sá hluti aldraðra sem býr við einhvers konar veikindi eða krankleika, vegna þess að það á að hækka viðmiðunarmörk á afslætti í heilbrigðisþjónustunni til aldraðra úr 67 árum til 70 ára. Það á að svipta þennan hóp þeim afslætti sem hann hefur búið við auk þess sem það þak sem sett var á þennan aldurshóp og fólk yfir sjötugt býr við, 3.000 kr., hækkar upp í 12.000 kr. Þannig að það er ekki nóg með það að dregið sé úr afslættinum heldur er þakið einnig hækkað. Þetta er sérstakur markhópur að auki. Mér finnst að ríkisstjórnin þurfi að gera nánar grein fyrir þessum áformum sínum og skýra þau fyrir öldruðum og samtökum þeirra. Skýra það fyrir lífeyrisþegum almennt hvernig hún ætlar að réttlæta þessar gjörðir.

Varðandi aðrar hliðar frv. tel ég góðra gjalda vert að reynt sé að bæta barnafólki upp þá skerðingu á kjörum sem það varð fyrir á síðasta kjörtímabili og lækka jafnframt jaðarskatta þessa hóps með því að lækka skerðingarhlutfall barnabótaaukans. Á það ber þó að líta að óvíst er hvað gerist í framtíðinni vegna aftenginga fjárhæða í skattkerfinu. Einnig er rétt að leggja áherslu á að afnám vísitölubindinga í skattkerfinu nú þýðir niðurskurð í millifærslukerfinu sem tekur til persónuafsláttar, barna- og vaxtabóta og bitnar því á almennu launafólki, ekki síst barnafólki sem er að kom sér upp húsnæði.

Hingað til hefur tenging virkað sem ákveðið öryggi fyrir því að bótaupphæðir og afsláttarliðir í tekjuskattskerfinu fylgi launa- og verðlagsþróun í landinu. Aftenging hefur í för með sér að hækkun þessara fjárhæða verður geðþóttaákvörðun stjórnvalda hverju sinni. Ákveðin reynsla er komin á það hvað slík aftenging hefur í för með sér. Hækkun persónuafsláttar var í upphafi tengd lánskjaravísitölu en í lok fyrsta staðgreiðsluársins var ákveðið að aftengja persónuafslátt að hluta til hækkun lánskjaravísitölunnar. Þetta hefur haft í för með sér að skattleysismörk eru 5.500 kr. lægri, þ.e. miðað við núverandi skatthlutfall en ef tengingunni við lánskjaravísitöluna hefði verið haldið eins og gert var ráð fyrir í upphafi.

Nú, ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri að þessu sinni. Ég bíð spenntur eftir því að heyra skýringar hæstv. fjmrh. á þeim skerðingum sem að aldrað fólk verður fyrir vegna fjárlagafrv., vegna þeirra lagabreytinga sem hér eru til umræðu og vegna bandormsins að sjálfsögðu einnig. Nú það verður fróðlegt að heyra skýringar form. efh.- og viðskn., Vilhjálms Egilssonar, sem óvænt heiðrar þingið með nærveru sinni. Mér finnst ekki stætt á því að ljúka þingi fyrir jólin fyrr en ríkisstjórnin hefur gefið viðhlítandi svör við því hvernig á því stendur að ekki á að standa við þau fyrirheit sem gefin voru í fjárlagafrv. Það er allt annar handleggur hvað gerðist gagnvart verkalýðshreyfingunni um að kjör öryrkja, atvinnulausra og lífeyrisþega yrðu ekki skert á næsta fjárlagaári. Það er aðskilið mál því sem að ég hef nefnt hér og fjallar um sérstakar skattaívilnanir til aldraðra.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri að sinni. Ég er ekki mjög langorður maður. En ég vona að hæstv. fjmrh. og hv. form. efh.- og viðskn. gerist nokkuð langorðir og gefi okkur rækilegar skýringar á þeim breytingum sem þeir eru að innleiða gagnvart öldruðu fólki og ekki síst þeim hluta aldraðra sem býr við veikindi.