Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 21:58:50 (2175)

1995-12-19 21:58:50# 120. lþ. 72.1 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[21:58]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það er satt að segja ekki heiglum hent að fá yfirsýn yfir allar þær aðgerðir sem hæstv. ríkisstjórn beitir sér fyrir í lok þings fyrir jólin. Það er verið að fjalla um þessar aðgerðir í frv. því sem hér er til umræðu. Það er verið að fjalla um þessar aðgerðir í svokölluðum bandormi sem er fylgifrv. með fjárlögum ríkisstjórnarinnar. Síðan er að sjálfsögðu einnig verið að fjalla um þessar aðgerðir í fjárlögum og þar að auki hefur hæstv. heilbrrh. notað þá óvanalegu aðferð að láta Ríkisútvarpið skýra Alþingi og nefndum þingsins frá því að hún hyggist með reglugerð í upphafi næsta árs hækka komugjöld á heilsugæslustöðvar og hlut sjúklinga í sérfræðilæknishjálp um á bilinu 17--50%. Það er umhugsunarvert og athyglivert að í framkvæmdinni velur hún þá leið að láta þá sem erfiðust hafa kjörin og lakasta greiðslugetuna, þ.e. gamla fólkið og öryrkjana, taka á sig 50% hækkun á sama tíma og aðrir þegnar þjóðfélagsins þurfa að taka á sig 17% hækkun. Það er undarlegt í fyrsta lagi hvaða hátt hæstv. ráðherra hefur valið á því að skýra frá þessari ákvörðun sinni að láta útvarpið gera það í kvöldfréttum í stað þess að skýra viðkomandi þingnefndum frá því. Það er ekki síður umhugsunarvert að hæstv. ráðherra skuli hafa valið þessa leið því í þingtíðindum eru þráfaldlega prentaðar umsagnir hennar um það að með svona ákvörðunum hafi verið ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur. Það er ekki lengra síðan en rétt rúm vika að hún réðist sérstaklega á Alþfl. í umræðum í þinginu fyrir að hafa lagt á sjúklinga þessi gjöld og lýsti því yfir að þá væri nær að fara þær leiðir sem hún hefði valið, hæstv. ráðherra. Það er hins vegar staðreynd að hæstv. heilbrrh. hefur engu breytt í öllum þeim aðgerðum sem Alþfl. stóð að á síðasta kjörtímabili og hún gagnrýndi þá manna mest. Hún hefur ekki breytt stafkrók í neinu þessu jafnvel þó svo að það væri á hennar valdi, hæstv. ráðherra, að gera það með einfaldri breytingu á reglugerð.

Þessi hæstv. ráðherra lætur þar ekki staðar numið. Hún gerir sér lítið fyrir og lætur tilkynna Alþingi það í gegnum sjónvarpsfréttir á Stöð 2 að hún hyggist hækka um allt að 50% hluta af þessum gjöldum. Þetta gerir það að verkum, þar sem verið er að krukka í málin víða, ekki bara í einu þingmáli heldur mörgum, að það er nokkuð erfitt að fá yfirsýn yfir það sem hæstv. ríkisstjórn er að gera. Mun sjaldan hafa verið jafntorvelt að rata í frumskógi slíkra lagasetninga eins og nú.

Ég veit ekki hvort menn gera sér grein almennt fyrir því hvaða áhrif svona flóknar aðgerðir hafa haft á raunverulega tekjuskattsgreiðslu landsmanna. Það er haft við orð að hæsti jaðartekjuskattur hér á landi sé rúmlega 46% en með hugtakinu jaðartekjuskattur er átt við það hlutfall sem menn borga af hverri krónu sem þeir vinna sér inn til viðbótar þegar tilteknu tekjubili er náð. Býst ég við að mörgum mundi þykja nægilegt að þurfa að greiða í tekjuskatt eins og flestir landsmenn þurfa að gera nema þeir allra tekjulægstu, 46 aura af hverri krónu sem þeir vinna sér inn. En ef betur er að gáð kemur í ljós að umrætt skattahlutfall er miklu meira og þá ekki fyrir hátekjufólkið heldur lágtekjufólkið. Ef við lítum t.d. á hag aldraðra og ellilífeyrisþega verða menn jafnhliða tekjuskattshlutfallinu að skoða hvernig atvinnutekjur eru látnar skerða þær bætur sem þetta fólk hlýtur. Það að nota tekjutengingu til að skerða bætur verkar nefnilega nákvæmlega eins og ef tekjuskattur á þennan hóp er hækkaður. Af hverri krónu sem þetta fólk vinnur sér inn skilast því sem skerðingunni nemur ásamt tekjuskattinum það sem viðkomandi fær til ráðstöfunar.

[22:00]

Tekjur elli- og örorkulífeyrisþega skerðast og greiðslur þeirra úr tryggingakerfinu skerðast með þrennum hætti. Í fyrsta lagi ef um atvinnutekjur er að ræða ganga atvinnutekjurnar að fullu til skerðingar á lífeyri eins og skerðingarhlutföllin framast leyfa. Ef um tekjur af lífeyrissjóðsgreiðslum er að ræða, þ.e. hinn aldraði eða öryrkinn á aðild að lífeyrissjóði, og fær þaðan einhverjar tekjur til viðbótar við tekjur sínar úr tryggingakerfinu, er skerðingin til muna minni heldur ef viðkomandi einstaklingur hlýtur atvinnutekjur. Þannig er fyrsta mismununin sem gerð er gagnvart öldruðu fólki og öryrkjum. Það er ekki sama hvaðan það fær tekjur sínar. Ef aldraður eða öryrki hefur aldrei átt tækifæri á því að greiða í lífeyrissjóð en vinnur sér í staðinn inn einhverja smápeninga með atvinnu sinni þá er full skerðing gerð á lífeyrisbótum hans sem því nemur. Ef hann hins vegar hefur greitt í lífeyrissjóð á ævi sinni og hlýtur tekjur úr honum þá ganga þær tekjur ekki til eins mikilla skerðingar og atvinnutekjurnar. Þannig er öldruðu fólki og öryrkjum mismunað eftir því hvers eðlis tekjurnar eru. En það er ekki aðeins að þeim sé mismunað ef menn bera saman hvort um lífeyristekjur er að ræða eða atvinnutekjur. Þriðji tekjumöguleikinn eru fjármagnstekjur. Ef hinn aldraði hefur tekjur af fjármagni ganga þær tekjur ekki til skerðingar á lífeyrisgreiðslum úr almannatryggingakerfinu, eins og bæði atvinnutekjurnar og lífeyrissjóðstekjurnar gera. Þannig eru dæmi þess að stóreignamenn sem hafa mjög miklar tekjur af fjármagnseign sinni séu á fullum lífeyri frá almannatryggingum, eins og hann getur mestur orðið. Álíka miklum lífeyri og bláfátækur ellilífeyrisþegi eða öryrki sem ekkert annað hefur fyrir sig að leggja en tekjur úr almannatryggingakerfinu. Það er einhver mesta mismunun sem hægt er að hugsa sér þegar auðugustu menn þjóðarinnar geta með þessum hætti fengið fullar tekjur úr tryggingakerfinu óskertar, með öllum uppbótum sem þar þekkjast, til jafns við fátækling sem ekkert á og ekkert þénar. Það er vegna þess, virðulegi forseti, að tregða hefur verið á að taka upp fjármagnstekjuskatt, þ.e. meðhöndla fjármagnstekjur eins og hverjar aðrar tekjur. Ef það væri gert mundi ekki aðeins fjármagnstekjuskatturinn koma á þá sem hafa miklar tekjur af eignum sínum en litlar atvinnutekjur heldur mundi sú breyting að sjálfsögðu jafnframt gera að verkum að í almannatryggingakerfinu yrðu fjármagnstekjur meðhöndlaðar með sama hætti og aðrar atvinnutekjur.

Þar sem nú er rætt um að auka skerðingarhlutfallið frá því sem verið hefur á tekjum gamals fólks og öryrkja þá vil ég ekki láta hjá líða að reyna að varpa nokkru ljósi á hvernig raunveruleg tekjuskattsálagning er á þetta fólk sem yfirleitt heyrir ekki til auðugasta fólkinu í okkar samfélagi. Grunnlífeyrir er nú fyrir einstakling rúmar 12 þús. kr. á mánuði ef ég man rétt. Hann er tengdur atvinnutekjum þannig að hann skerðist með tilteknum hætti með þeim atvinnutekjum sem einstaklingur hefur og grunnlífeyririnn er uppurinn ef viðkomandi einstaklingur hefur um eða yfir 120 þús. kr. á mánuði. Þetta þýðir einfaldlega að jaðarskatturinn á slíkan einstakling er sá jaðarskattur sem við þekkjum, þ.e. 41% rúmlega upp í 46% rúmlega, eins og almenningur þarf að sætta sig við. Þar á ofan skerða atvinnutekjur hans grunnlífeyrinn sem kemur eins út fyrir einstaklinginn, þennan aldraða eða öryrkjann, eins og ef tekjuskatturinn hefði verið hækkaður á honum sem því svarar. Þannig er nú þegar búið að tekjutengja grunnlífeyrinn sem veldur því að aldrað fólk og öryrkjar sem njóta grunnlífeyris þurfa í reynd að borga hærra tekjuskattshlutfall en aðrir þegnar þjóðfélagsins. Þetta er sérstaklega áberandi þegar um er að ræða svokallaðar heimilisuppbætur eða sérstakar heimilisuppbætur. Heimilisuppbæturnar voru á síðasta ári 845 millj. kr. og sérstakar heimilisuppbætur 177 millj. kr. til bótaþega sem þeirra nutu. Þar er skerðingin miklu meiri en gagnvart grunnlífeyrinum. Hún er gagnvart hinum aldraða eða öryrkjanum, sem t.d. nýtur sérstakrar heimilisuppbótar, króna fyrir krónu. Öryrkjar eða ellilífeyrisþegar sem njóta slíkra uppbóta eru aðeins þeir sem hafa fulla tekjutryggingu, engar tekjur utan lífeyriskerfisins og búa við mjög alvarlegar og erfiðar heimilisaðstæður. Þetta fólk þarf að una því að ef það vinnur sér inn eina krónu í atvinnutekjur þá skerðist sérstaka heimilisuppbótin um sömu fjárhæð, þ.e. eina krónu á móti einni. Þannig sér viðkomandi öryrki eða ellilífeyrisþegi ekki eina krónu af afrakstri vinnu sinnar fyrr en atvinnutekjurnar eru komnar talsvert á 5 þús. kr. á mánuði, ef ég man rétt. Fyrir þetta fólk þýðir þetta að það er látið greiða 100% tekjuskatt. Jaðartekjuskatturinn gagnvart þessu fólki er 100%, virðulegi fjmrh. Þetta er það fólk í þjóðfélaginu sem hefur nánast engar tekjur og hefur ekkert fyrir sig að leggja annað en óverulegan lífeyri frá almannatryggingakerfinu. Ef um er að ræða aldraða konu sem reynir að bæta eitthvað við ráðstöfunarfé sitt, t.d. með því að prjóna sokka eða vinna eitthvert slíkt handverk og selja það, þá verður það ekki fyrr en hún er búin að vinna fyrir á milli 4 og 5 þús. kr. á mánuði sem hún fer að sjá einhvern afrakstur vinnu sinnar. Fram að því hverfur allt hennar aflafé til baka til ríkissjóðs, eins og hún greiddi 100% skatt til ríkisins.

Þetta hefur gerst m.a. vegna þess að á Alþingi hafa menn verið að afgreiða þessi mál án þess að hafa heildaryfirsýn yfir hvað þeir eru að gera. Menn hafa verið að afgreiða skerðingar á lífeyri aldraðra og öryrkja án þess að hugleiða hvernig lífeyriskerfið og skattkerfið spila saman. Enn þá flóknara er þetta þegar við bætist að skerðingin er mismunandi eftir því hvers eðlis tekjurnar eru, hvort um er að ræða atvinnutekjur, þar sem skerðingin er mest, lífeyristekjur, þar sem skerðingin er minni, eða fjármagnstekjur, þar sem skerðingin er engin. Nú kemur hæstv. ríkisstjórn og ætlar sér að auka enn skerðingarhlutfallið. Ég gæti trúað því að jaðarskattsígildi gamla fólksins og öryrkjanna sé einhvers staðar á bilinu frá 75--76%, herra forseti, til 100%. Á sama tíma og aðrir landsmenn, utan barnafjölskyldur, borga 41--46% jaðarskatta þá er gamalt fólk og öryrkjar sem hefur einhverjar óverulegar atvinnutekjur að greiða jaðarskatta að upphæð 76--100%.

Ég hef veitt því athygli að hæstv. fjmrh. hefur aðeins vikið sér úr sal og ég vildi biðja hæstv. forseta að gera ráðstafanir til að hann komi aftur því ég hef ákveðnar spurningar um málið fyrir hann að leggja.

(Forseti (GÁ): Óskar hv. þm. eftir að hæstv. fjmrh. komi?)

Já, ég óska eftir því.

(Forseti (GÁ): Forseti mun gera ráðstafanir til að hann komi sem fyrst í salinn en hann gekk út héðan fyrir augnabliki síðan.)

Það er rétt. En ég er kominn, herra forseti, á þann stað í ræðu minni að ég ætlaði að spyrja hæstv. fjmrh. örfárra spurninga. Það get ég ekki gert, virðulegi forseti, nema hann heyri mál mitt.

(Forseti (GÁ): Það er rétt.)

[22:15]

Virðulegi forseti. Sá forseti sem nú sest í stólinn hefur verið fjármálaráðherra en hann er ekki sá sem ég hef verið að bíða eftir.

(Forseti (RA): Hæstv. fjmrh. hefur fengið skilaboðin og er væntanlegur innan tíðar.)

Ég þakka hæstv. fyrrv. fjmrh. fyrir. En þá er best að víkja að nokkrum öðrum málum sem tilheyra þessu. Mér sást yfir það að vekja athygli á því að það er fleira sem tengist skerðingu á kjörum elli- og örorkulífeyrisþega en eingöngu það sem hér hefur verið nefnt. Sá elli- og örorkulífeyrisþegi sem nýtur fullra bóta og þar á meðal sérstakra heimilisuppbóta hefur möguleika á því að fá þar að auki fellt niður fastagjald á síma og útvarpi. En einnig það er tekjutengt eins og ég sagði áðan. Örfárra hundruða króna atvinnutekjur á mánuði geta kostað þennan einstakling ekki bara að hann missi jafnháa upphæð í bótakerfi almannatrygginga, borgi sem sé 100% skatt af atvinnutekjum sínum, heldur geta þessar örfárra hundruða króna atvinnutekjur á mánuði kostað viðkomandi einstakling missi fríðinda þar að auki. Missi hann önnur fríðindi sem hann hefur haft, svo sem niðurfellingu á afnotagjaldi af síma og niðurfellingu á afnotagjaldi af útvarpi þá samsvarar þetta því að viðkomandi einstaklingur sé farinn að borga meira en 100% tekjuskatt. Hann sé farinn að borga meira en 100% af aflafé sínu til baka í ríkissjóð. Ég veit ekki nokkur dæmi þess að jaðarskattsígildi geti verið af þessum toga. Það er því mesti misskilningur þegar menn halda því fram og horfa bara á jaðarskattinn einan og sjálfan sem samkvæmt opinberum tölum á Íslandi getur hæstur verið 41--46%, 46% og rúmlega það fyrir þá sem þurfa að borga svokallaðan hátekjuskatt til viðbótar almennum tekjum sínum en 41% til hinna. Það er ekki rétt þegar menn bera saman í alþjóðlegum samanburði skattbyrði og nefna til sögunnar að á Íslandi séu jaðarskattar á þessu bili. Ef menn ætluðu að bera saman raunverulega skattbyrði yrðu menn að bera saman ekki eingöngu hvaða almennu prósentu launþegar þurfa að greiða af tekjum sínum til hins opinbera heldur líka með hvaða hætti tekjutengingin spilar inn í tryggingakerfið, þ.e. með hvaða hætti bætur trygginga eru tengdar atvinnutekjum manna eins og gert er í allt of ríkum mæli hér á Íslandi en allt lífeyristryggingakerfið er tekjutengt með þessum hætti. Ekki bara heimilisuppbætur og sérstakar heimilisuppbætur á grunnlífeyri heldur einnig ýmis önnur fríðindi eins og ég hef þegar nefnt auk að sjálfsögðu tekjutryggingar í lífeyriskerfinu. Þannig er allt íslenska lífeyristryggingakerfið tekjutengt og tekjutengt langt niður eftir tekjubilinu og framkvæmdin er þannig að þeir sem hafa allra minnstar atvinnutekjur en tilheyra þessu kerfi þurfa að borga jafnvel yfir 100% tekjuskattsígildi og væri nær að nota slíkan samanburð á skattbyrði Íslendinga eins og hún getur orðið hér á landi þegar borið er saman við aðrar þjóðir fremur en þau 41--46% sem svo oft eru nefnd.

Ég vil aðeins í þessu sambandi minna á að það eru ekki bara lífeyristryggingarnar, þ.e. framfærslueyrir aldraðra og öryrkja, sem tekjutengdur er með þessum hætti. Ef við komum að öðrum stórum hópi sem er barnafólkið þá er velferðarkerfið gagnvart barnafjölskyldum einnig tekjutengt með mjög sambærilegum hætti. Þá á ég að sjálfsögðu við barnabóta- og vaxtabótakerfin sem eru tekjutengd eins og allir vita. Mér hefur ekki gefist tími til að skoða hvaða breytingar verða á því eftir samþykkt tillögu ríkisstjórnarflokkanna en ef menn skoða barnabótakerfið eins og það var má segja að ígildi jaðarskattsálagningar á barnafólk þegar saman spila jaðarskattur í tekjuskatti og tekjutenging kerfisins sé fyrir barnafólk með tvö börn á framfæri sínu 61--67% og barnafólk með þrjú börn á framfæri sínu nokkuð yfir 70%. Ég veit að þetta eru háar tölur en ef menn skoða samspil jaðarskattlagningarinnar í atvinnutekjunum samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt og barnabótakerfisins, þá er þetta svona. Þá er vaxtabótakerfið eftir. Þá má segja að almennur jaðarskattur fólks með börn á framfæri sínu, tvö eða fleiri, hafi verið á bilinu 60--70%. Ég veit að nú hefur þetta breyst eilítið með þeim breytingum sem hafa verið gerðar. En mér hefur ekki gefist tími til að skoða með hvaða hætti sú breyting virkar inn á þennan samanburð sem ég er hér að gera. (Viðskrh.: 58% hámark.) 58% hámark, segir hæstv. iðnrh. og þá væntanlega án tillits til barnafjölda. Þá er vaxtabótakerfið eftir. Væri forvitnilegt að sjá hver niðurstaðan yrði af samanburðinum ef það yrði tekið líka. Þá býst ég nú við að jaðartekjuskattsígildið sé ekki langt frá því að vera milli 60--65% að minnsta kosti fyrir þennan hóp.

Ég bið hv. alþm. að hugsa aðeins um þetta. Við erum hér með tvo hópa fólks þar sem er að finna sennilega þá einstaklinga sem erfiðast eiga á Íslandi. Það er annars vegar hópur elli- og örorkulífeyrisþega og hins vegar hópur barnafólks sem yfirleitt er ungt fólk sem m.a. er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það er búið að tekjutengja velferðarkerfi þessara hópa svo grimmt að annar hópurinn, aldraða fólkið, er að greiða 76--100% ígildi skatts með samspili þessa kerfis, tekjutengingarkerfis lífeyristrygginga og tekju- og eignarskattskerfisins, og hinn hópurinn, unga fólkið, sem er að reisa sér þak yfir höfuðið og framfleyta börnum sínum, er sennilega að greiða eitthvað á bilinu 60--70% í skattígildi þegar saman vinna tekjutengingin í velferðarkerfinu og áhrif tekjuskatts- og eignarskattsálagningarinnar. Ég efast um að finna megi þjóð þar sem jaðarskattsígildi eru jafnmikil og hér. Að minnsta kosti veit ég að Svíar eru þar orðnir miklir eftirbátar okkar Íslendinga. Er því ekki vanþörf á að skoða í heild samspil velferðarkerfisins og skattkerfisins en á því hefur verið mikill meinbugur á undanförnum árum og er það m.a. vegna þess að þessi kerfi hafa fallið undir tvö eða jafnvel þrjú ráðuneyti, fjmrn., heilbr.- og trmrn. og að nokkru félmrn. Menn hafa því miður lagt meira kapp á að verja hver sinn túngarð en taka samspil þessara kerfa til heildarskoðunar með þeim hætti sem ég hef hér lýst.

Virðulegi forseti. Mér er engin launung á því að ég sem heilbrrh. gerði á síðasta kjörtímabili ítarlegar tilraunir til þess, og ég get fúslega vottað að þær tilraunir voru rækilega studdar af þáv. hæstv. félmrh., núv. hv. alþm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að samspil þessara kerfa yrðu tekin til skoðunar og reynt að gera breytingar á til að fá yfirsýn yfir það hvernig skattkerfið, velferðarkerfið og tryggingakerfið spiluðu saman. Þær tilraunir báru því miður ekki árangur vegna þess að þær strönduðu yfirleitt á því sem ég nefndi áðan, og þá á ég ekki við félmrh. í þessu samhengi heldur miklu frekar fjmrn. Það ráðuneyti hafði ef til vill meiri áhuga á því að gæta síns túngarðs og sjá til þess að ókunnugt fé væri ekki að ryðjast þar yfir mörkin fremur en að leggja slíkri athugun lið.

Að minnsta kosti hvað varðar gamla fólkið og öryrkjana gengur hæstv. ríkisstjórn að sumu leyti enn lengra í þessa skerðingarátt en gengið hefur verið áður. Það er ekki aðeins verið að auka álagningu á gamalt fólk og öryrkja í velferðarkerfinu með því að hækka á því um 50% komugjöld á heilsugæslustöðvar og ætla því að greiða auk þess ýmsan annan viðbótarkostnað umfram það sem það hefur þegar gert. Það er ekki aðeins verið að íþyngja aldraða fólkinu á þessum sviðum sem gengur þvert gegn því sem hæstv. heilbrrh. sagði að væri sinn vilji á Alþingi fyrir aðeins 10 dögum og margendurtók á síðasta kjörtímabili, að hún og flokkur hennar berðust gegn, þ.e. sjúklingasköttunum. Ekki aðeins að það gangi þvert gegn því með þessar hækkanir á þjónustugjöldum heldur er nú einnig verið að auka enn skerðingu í tryggingakerfinu gagnvart þessu sama fólki. Það má því segja að það sé við því snert á öllum vígstöðvum. Hæstv. ríkisstjórn hefur haldið því fram að rök fyrir þessu séu þau að hagvöxtur sé að aukast á Íslandi. Hann verði nú meiri en hann hefur verið á undanförnum árum og meiri en í okkar helstu nágrannalöndum. Þetta er m.a. vegna þess að náðst hefur lofsverður árangur í samningum við erlenda aðila um stóriðjuframkvæmdir á Íslandi.

Nú leikur mér forvitni á að vita, af því hæstv. iðnrh. er hér í salnum, hvað hann býst við að margir öryrkjar og 67 og eldri karlar og konur fái vinnu við álversframkvæmdir á Íslandi. Er honum kunnugt um að það séu mjög margir öryrkjar og mjög margir aldraðir, konur og karlar, sem muni fá tækifæri til að stórauka við tekjur sínar við byggingu álvers? Virðulegi forseti, skyldi hæstv. samgrh. halda að margir öryrkjar muni vinna við að bora göng undir Hvalfjörð og þar muni þeir fá verulega bætt sín kjör? Hvaða líkur eru á því að aldrað fólk og öryrkjar sem hafa ekkert annað fyrir sig að leggja en lífeyri úr tryggingakerfinu njóti hagvaxtar, sem vissulega eru vonir til að verði á næsta ári, þegar menn ætla að tilkynna það og tilkynna það eins og hæstv. ríkisstjórn gerir að nú ætli menn að skera á tengsl almannatryggingabóta við launabreytingu lægstu launa. Með hvaða hætti á þá gamla fólkið að njóta þess hagvaxtarbata sem spáður er að verði á næsta ári? Ekki fær þetta fólk vinnu við byggingaframkvæmdir í Straumsvík eða við að bora göng undir Hvalfjörð.

[22:30]

Ekki á að tengja bótagreiðslur þess við þær launahækkanir sem væntanlega munu koma í kjölfar hagvaxtaraukningar á Íslandi. Þar sem launþegar ætla sér sjálfsagt sinn hlut, hvernig á þetta fólk þá að njóta hagvaxtaraukningarinnar sem spáð er að verði á næsta ári? Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera það? Þegar hæstv. ríkisstjórn kemur í veg fyrir það með aðgerðum sínum að aldrað fólk og öryrkjar geti gert sér nokkrar vonir um að fá í sinn skerf sambærilegar aukningar á lífeyrisgreiðslum eins og það fólk getur ef til vill fengið sem er á lægsta vikukaupi í landinu eins og hún hugsar sér að gera með því að rjúfa tengingu tryggingabóta við lægstu laun hvernig getur hún þá komið og réttlætt það að nú vegna þess að hagvöxtur sá að aukast þá séu rök fyrir því að auka skerðingar á lágar atvinnutekjur gamals fólks og láta það borga meira en það hefur þurft að gera á mestu þrengingartímum í sögu þjóðarinnar fyrir heilbrigðisþjónustu. Ég sé ekki rökin í þessu. Ef það lægi fyrir að þetta gamla fólk og öryrkjarnir væru að bæta hag sinn á næsta ári þá gætu menn auðvitað skoðað hvort ekki væri rétt að þetta fólk tæki aukinn þátt í þjónustu þeirri sem samfélagið veitir því en þá til jafns við aðra. En að ætla sér, herra forseti, að koma í veg fyrir að þetta gamla fólk og öryrkjar geti í nokkru notið þess hagvaxtar sem menn eru að vonast til að verði á næsta ári, koma í veg fyrir það að það geti í nokkru notið hans. Ætla sér á sama tíma að hækka greiðslur þess fyrir almenna læknisaðstoð um 50% og auka svo enn skerðingu lífeyrisgreiðslna til þessa fólks sem nú veldur því að jaðarskattsígildið sem þetta fólk þarf að greiða af atvinnutekjum sínum er á bilinu 76--100% og fer í sumum tilvikum yfir 100%. Það er fyrir ofan minn skilning.

Virðulegi forseti. Var það þetta sem Framsfl. lofaði fyrir kosningar? Var það þetta sem hann meinti þegar hann sagði ,,fólk í fyrirrúmi``? Er það þetta sem er í fyrirrúmi hjá Framsfl.? Hvernig skyldi þeir þá vera sem flokkurinn telur að eigi ekki að vera í fyrirrúmi fyrst svona er farið með þá sem minnst mega sín í samfélaginu?

Virðulegi forseti. Eins og öllum er ljóst fór sá sem hér stendur ekki varhluta af því að þurfa að taka við ýmsum skömmum vegna aðgerða sem fyrrv. ríkisstjórn beitti sér fyrir á þeim tíma í sögu þjóðarinnar sem hún hefur orðið fyrir einna mestum áföllum. Áfallið eftir 1987 miðað við þá sókn sem þjóðin var í fram að þeim tíma var fyrir þjóðina meira en áfallið sem varð á svokölluðu kreppuárunum milli stríða. Þá er ég auðvitað að miða við aðstæðurnar eins og þær voru í þjóðfélaginu áður en áföllin dundu yfir. Það urðu meiri umskipti eftir árið 1987 og fram til ársins 1994 í efnahagslífi þjóðarinnar, meiri umskipti til ills, en á kreppuárunum miklu á milli styrjaldanna miðað við aðstæður eins og þær voru áður en sú kreppa dundi yfir. Vissulega þurfti að grípa til ýmissa harkalegra og alvarlegra aðgerða á þeim árum. Vissulega var það réttmætt að vera gagnrýndur fyrir það sem við þurftum þá að gera. Framsfl. var mjög harður í þeirri gagnrýni.

Hvernig stendur á því, virðulegi forseti, að loksins þegar fer að birta til, loksins þegar hæstv. iðnrh., eins og hann sagði í dag við okkur með réttu, spáir því og hefur mikið til síns máls, að hagvöxtur hér á Íslandi á næsta ári geti orðið 3,5% og mun meiri en í viðskiptalöndunum, hvernig stendur á því að þá fyrst kastar tólfunum? Að þá fyrst þegar allt er á uppleið í samfélaginu finnur ríkisstjórnin sig knúna til að grípa til miklu harkalegri aðgerða gagnvart þeim sem minnst mega sín en nokkur dæmi eru um að þurft hafi að gera á krepputíma? Ég fæ það ekki saman, virðulegi forseti, hvernig menn geta fundið góðæri sem rök fyrir slíkum aðgerðum. Hvernig stendur á því að það á að hækka gjöld í heilsugæslu um 50% á gömlu fólki? 50% meira en þessi gjöld voru þegar hagvöxtur var neikvæður á Íslandi? Hvernig stendur á því að umskiptin til hins betra valda því að þá þarf að hækka gjöldin á gamla fólkinu um 50%? Þá þarf að auka enn frekar hvernig atvinnutekjur skerða lífeyri þessa gamla fólks. Ætlar Framsfl. að efna kosningaloforð sín með þessum hætti? Þetta eru furðuleg rök enda verð ég að segja að ég hef ekki heyrt nein viðhlítandi rök úr munni hæstv. heilbrrh. um þessi mál um margra vikna skeið og á ekki von á því að heyra þau frekar hér eftir en hingað til.

En þennan mikla þingstyrk sinn, virðulegi forseti, ætlar hæstv. núv. ríkisstjórn að nota til að senda þau skilaboð frá sér að nú sé í vændum betri tíð með blóm í haga. Nú sé í vændum meiri hagvöxtur heldur en sé í nágrannalöndunum. Meiri hagvöxtur en við höfum þekkt í tíu ár. Vegna þess að horfurnar séu svona góðar ætli hún að ráðast með þessum hætti að öldruðum og öryrkjum. Mætti ég þá frekar biðja um meiri kreppu en meiri efnahagsbata ef rök efnahagsbatans á að nota svona.