Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 23:07:32 (2178)

1995-12-19 23:07:32# 120. lþ. 72.1 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[23:07]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held það krefjist betri umræðu, við annað tækifæri þá, að fara nánar yfir gjöldin fyrir sérfræðiþjónustu og heilsugæslu. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt, þá ætlar hún að undanþiggja aldraða, öryrkja og börn frá þessari hækkun. Ef hún neitar því ekki þá lít ég svo á að það verði gert.

Varðandi fjármagnstekjuskattinn. Mér finnst ekkert óeðlilegt að þegar er kominn á fjármagnstekjuskattur skerði hann bætur almannatrygginga alveg eins og atvinnutekjur gera. Það sem okkur finnst óeðlilegt er að það skuli vera byrjað á þessum hópi. Hæstv. ráðherra sagðist vonast til að fjármagnstekjuskattur yrði almennt kominn á 1. september. Það er ekkert öruggt í því efni. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er hún ekki tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að þetta ákvæði varðandi almannatryggingabætur og fjármagnstekjurnar falli út og við tökum það upp á þinginu eftir jól samhliða því að við ræðum fjármagnstekjuskattinn? Finnst hæstv. ráðherra það ekki eðlilegra? Ég spyr: Ef hún er ekki tilbúin í það, er hún þá tilbúin að beita sér fyrir því að fallið verði frá þessu 1. september á næsta ári ef ekki verður kominn fjármagnsskattur á alla?