Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 23:11:38 (2182)

1995-12-19 23:11:38# 120. lþ. 72.1 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[23:11]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Nóttin er ung og málið sem við höfum hér til umræðu afskaplega mikilvægt. Ég tel því henta núna þegar við höfum hæstv. heilbrrh. til andsvara að nota tækifærið og spyrja hana út í nokkur atriði sem tengjast málunum sem hér eru undir. Raunar eru það einungis örfá atriði sem mig langar til þess að hún hnykki frekar á í ræðum sínum.

Það kom fram í andsvari hennar við ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að hún hafði örlítið breytt svari sínu við afskaplega mikilvægri spurningu. Hún er svohljóðandi: Hvaða menn eru það sem hún á við í þeirri grein bandormsins sem fjallar um að tekið skuli tillit til manna sem hafa forsómað að greiða í lífeyrissjóði eins og þeir hefðu gert það. Þetta hefur komið til umræðu áður í þessum þingsölum og þá sagði hæstv. heilbrrh. að hún ætti einungis við atvinnurekendur. Það var sérstaklega gengið eftir því á fundi heilbr.- og trn. hvort þessi túlkun hennar stæðist og ráðuneytisstjóri hennar, Davíð Á. Gunnarsson, staðfesti að svo væri. Undir það tóku tveir fulltrúar Framsfl. í nefndinni. Nú kemur hins vegar hæstv. heilbrrh. og segir í svari sínu, þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir innir hana eftir þessu, að það væru ,,til dæmis`` atvinnurekendur. Það er allt annað en að segja það fortakslaust að það séu bara atvinnurekendur. Hægt er að sýna fram á það í ræðum hæstv. ráðherra að hún tvítók, fyrir örfáum dögum, að hún ætti einungis við atvinnurekendur. Þannig að það er nauðsynlegt, til þess að greiða fyrir umræðunni, að fá þetta alveg á hreint.

Herra forseti, það er annað atriði sem mig langar til að hnykkja á. Ég er eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ekki á móti því að tekinn verði upp fjármagnstekjuskattur. Ég er ekki á móti því að þegar reiknaðar eru út bætur aldraðra eða öryrkja sem eiga mikið fjármagn og hafa miklar tekjur af fjármagni sínu sé tekið tillit til þeirra tekna. En ég er hins vegar algerlega á móti því að það verði fyrst tekið upp á þann hóp. Ég spyr því hæstv. ráðherra, vegna þess að ég veit að hún er í hjarta sínu sanngjörn manneskja: Í fyrsta lagi, finnst henni eðlilegt að það sé fyrst tekið upp á þessum hópi? Ég veit svar hennar. Hún mun segja: Ég mun beita mér fyrir því að það verði tekið upp á alla. En getur hún þá ekki fallist á, til þess að greiða fyrir þingstörfum, sem við öll erum jú að gera, að inn í þetta verði skotið ákvæði þess efnis að þetta verði tekið upp á þennan hóp sem hún hefur lagt til, enda verði tekinn upp fjármagnstekjuskattur á alla aðra landsmenn. Tengja þetta tvennt, það er réttlæti. Þá gætum við, stjórnarandstaðan fylgt þessu ákvæði, ef þetta tvennt væri tengt.

Ég vil nú ekki hafa ræðu mína mikið lengri að þessu sinni en vegna þess að hæstv. heilbrrh. talaði um að rifja upp að þau í ráðuneytinu hefðu fallið frá innritunargjöldum eins og það væri eitthvað sérstaklega þakkarvert. Nú er það svo að ég er auðvitað á móti innritunargjöldum en til skamms tíma þá var hæstv. heilbrrh. líka á móti þeim. Hæstv. heilbrrh. hélt merka ræðu í eldhúsdagsumræðum þar sem að hún lagðist harkalega gegn innritunargjöldum í skólum og á sjúkrahúsum. Svo kemur hún hingað og segir: Vegna þess að við féllum frá því að setja upp innritunargjöld þá þarf að hækka komugjöld á heilsugæslustöðvar. Það er merkilegt. Hún hætti við það sem hún var á móti og vegna þess þarf að taka upp gjöld eða aukagjöld á heilsugæslustöðvar. Þá er rétt að það komi líka fram, herra forseti, að fyrir tveimur árum sagði hæstv. heilbrrh., en þá var hún vaskur stjórnarandstöðuþingmaður, að komugjöld á heisluverndarstöðvar væru ekkert annað en sjúklingaskattar og hún væri á móti sjúklingasköttum. En núna hefur hún velt því fyrir sér að koma á innritunargjöldum og hefur formlega lagt það til. Henni hefur að vísu verið hnikað til þess að hætta við það en í staðinn tekur hún upp þann sið að auka komugjöldin á heilsugæslustöðvar sem hún sjálf kallaði óásættanlegan sjúklingaskatt.

[23:15]

Herra forseti. Ég gæti haldið langar ræður um þetta efni en ég ætla að bíða með það til morguns. En til þess að greiða fyrir þingstörfum vænti ég þess að hæstv. heilbrrh. svari þeim tveim spurningum sem ég beindi til hennar í upphafi máls míns, önnur varðaði fjármagnstekjuskattinn og hin þá sem eiga að sæta einhvers konar skerðingu á lífeyri sínum vegna þess að þeir hafa forsómað að greiða í lífeyrissjóð. Mér þætti afskaplega vænt um ef hún svaraði því nákvæmlega hvort hún á þar bara við atvinnurekendur eða ekki? Hér er líka um frv. að ræða sem varðar ráðstafanir í ríkisfjármálum og hún benti á það sjálf, hæstv. heiblrrh., að það væri engin upphæð sett á þetta tiltekna ákvæði. Það er hárrétt hjá henni. Úr því að það er ekki gert og jafnframt tekið fram í greinargerðinni að það sé ekki gert ráð fyrir að þetta skili miklum tekjum á næstu árum, hvers vegna er hún þá að þvælast með þetta og spilla því góða samstarfi sem ella hefði getað náðst a.m.k. um þennan örlitla þátt frv.?