Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 23:17:34 (2183)

1995-12-19 23:17:34# 120. lþ. 72.1 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[23:17]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan greiða fyrir þingstörfum og gjarnan ná góðri samstöðu við stjórnarandstöðuna.

Hv. þm. spyr nokkurra spurninga varðandi lífeyristryggingarnar. Hann spyr: Hverjir eru það nákvæmlega sem ekki hafa hirt um að greiða í lífeyrissjóði? Ég hef margsagt að það er áberandi að það eru atvinnurekendur. Húsmæðrum og öryrkjum hefur ekki verið gert að greiða í lífeyrissjóði. Við þurfum því ekki að ræða þetta frekar, þetta er spurning um jafnræðisreglu. Þetta er bara spurning um aðvörun til atvinnurekenda sem ekki greiða í lífeyrissjóði. Ég hélt að fólk væri sammála um þetta vegna þess að sú aðvörun er nauðsynleg.

Við tölum um ýmiss konar gjöld. Ég hef talað um að ég hafi áhuga á að koma á persónugjöldum, ég þori ekki að tala um nefskatt eftir umræðurnar í dag því þá fara menn að tala um nefbrot o.s.frv. Persónugjöld varðandi einstaklinga til að létta á sjúklingum hafa ekki náð fram að ganga. Þess vegna bendi ég á að við erum ekki leggja nein stórkostleg gjöld á einstaklinga, við erum að tala um 100 kr. hækkun til heilsugæslu og 200 kr. til sérfræðinga. Ég hef sagt það að mér er það ekki ljúft og við munum taka sérstakt tillit til þeirra sem minnst hafa. Er þetta ekki nægilegt til sátta? Ég spyr. Ég hef sagt það hér og það liggur fyrir að Þjóðhagsstofnun hefur sýnt fram á að þeim er hlíft sem minnst hafa. Menn eru að tala um fjármagnstekjutengingu og finnst það óeðlilegt þó svo að tvinnutekjur skerði lífeyri manna. Mér finnst réttlætismál að miklar tekjur af fjármagni skerði lífeyri. Ég held að í hjarta sínu séu menn sammála um það.