Þingstörf fram að jólahléi

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 10:16:08 (2189)

1995-12-20 10:16:08# 120. lþ. 73.91 fundur 151#B þingstörf fram að jólahléi# (aths. um störf þingsins), SF
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[10:16]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Mig langar aðeins að koma fram með leiðréttingu í tilefni af orðum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, sem er formaður heilbrn. Það var nokkur misskilningur í máli hans áðan þegar hann ræddi um tillögu sem væri til umfjöllunar í heilbrn. um að farið væri yfir málefni sjúkrahúsanna og skilað áliti til fjárln. áður en fjárlög verða afgreidd. Það er a.m.k. ekki sá skilningur sem ég hef sjálf á því máli. Sami misskilningur kom einnig fram í gær í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar og ég ræddi í gær við hv. þm. Össur Skarphéðinsson um. Því kemur það mér á óvart að hann skuli koma upp núna í dag með sama misskilning. Minn skilningur er sá að það átti að ræða um heilbrigðismálin vítt og skynsamlega að sjálfsögðu í heilbrn. og átti að taka þarna upp mál að frumkvæði nefndarinnar eins og hægt er samkvæmt nýjum reglum. Það var ekkert ákveðið hvort ætti að senda það til fjárln. eða hvert ætti að senda slíkt álit, hvort það kæmist bara yfirleitt á leiðarenda eða mundi klofna upp í meiri hluta eða minni hluta. Það kemur mér því mjög á óvart að þessi tillaga skuli vera túlkuð með þessum hætti því hún var alls ekki lögð svona fram í heilbrn. í gær. (ÖS: Jú.) Það er rangt. Eftir fundinn fór ég í þingflokk minn og útskýrði þetta fyrir þingflokknum. Það var reyndar ekki tekin afstaða til málsins þar enda mörg mál voru þar á dagskrá. Það kemur mér því á óvart nú að formaður heilbrn., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sé að taka undir þennan misskilning eftir að ég hafði útskýrt fyrir honum í gær hver skilningur okkar væri á málinu. Að sjálfsögðu mundum við ekki samþykkja tillögu í heilbrn. ef hún væri sérstaklega til þess að tefja fjárlög.