Þingstörf fram að jólahléi

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 10:18:16 (2190)

1995-12-20 10:18:16# 120. lþ. 73.91 fundur 151#B þingstörf fram að jólahléi# (aths. um störf þingsins), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[10:18]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hefur komið fram hjá öðrum stjórnarandstöðuþingmönnum. Þetta er fyrsta reynsla mín af jólaönnum á Alþingi. Víst er óhætt að segja að margt hefur komið á óvart en fyrst og fremst er það hvað ríkisstjórnin kemur seint fram með sín mál. Það er á henni sem stendur en ekki stjórnarandstöðunni.

Þessi reynsla hefur líka sýnt mér hvað það er mikið heljartak sem framkvæmdarvaldið hefur á störfum þingsins. Mér finnst það til háborinnar skammar að við alþingismenn sitjum hér allt að því aðgerðarlausir dag eftir dag og bíðum eftir því að ríkisstjórnin komi málum í það horf að það sé hægt að afgreiða þau hér á Alþingi.

Það að 40% af fjárlögunum sé ekki í endanlegu formi fyrr en í 3. umr. og að koma með ráðstafanir í ríkisfjármálum núna inn í bandorminn alveg undir það síðasta er hreinlega ekki boðlegt að mínu mati. Því tek ég undir með þeim sem gera þær kröfur til stjórnarflokkanna að þeir ljúki málum sínum af og semji við stjórnarandstöðuna um eðlilega meðferð á þeim lagabreytingum sem fyrirhugaðar eru í bandorminum.