Þingstörf fram að jólahléi

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 10:22:58 (2192)

1995-12-20 10:22:58# 120. lþ. 73.91 fundur 151#B þingstörf fram að jólahléi# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[10:22]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að líta fram hjá því hve mikil alvara blasir við í störfum þingsins í dag. Þetta sem hér er að gerast og sú umræða sem hefur farið fram um störf þingsins undanfarna daga er ekki upphlaup. Þetta hefur verið sérstaklega málefnaleg umræða um stjórn þingsins. Fulltrúar í efh.- og viðskn. og heilbrn. hafa verið með réttmætar athugasemdir um vinnubrögð, hér hefur verið hringlað með stórmál fram og til baka, breytingartillögur á öllum sviðum og nýjar og nýjar niðurskurðartillögur verið lagðar fram hver annarri verri.

Virðulegi forseti. Það er þungi í þessum málflutningi sem verður að bregðast við. Lítið hefur verið rætt um stöðuna fyrr en í gærkvöld, svo seint að það er eiginlega kvöldið áður en á að ljúka þingi og umræður milli stjórnar og stjórnarandstöðu sigla strax í strand á fyrsta kvöldi eða inni í nóttinni.

Forsrh. hefur lýst því yfir að minni hluti á Alþingi geti ekki beitt meiri hlutann ofbeldi. Það er alveg rétt, það er meiri hlutinn sem ræður. En ríkjandi meiri hluti á Alþingi Íslendinga er að sýna Alþingi ofbeldi. Hvernig? Með því að misbjóða harkalega þingræðinu hér, með því að koma með varanlegar lagabreytingar í mjög mörgum af þeim 33 lögum sem fjallað er um í bandorminum. Þetta hefur ekki gerst og það hefur ekki hvarflað að mér nokkra einustu stund, virðulegi forseti, annað en það yrði orðið við því að bregðast við gagnrýni minni hlutans. Ég áfellist ríkjandi meiri hluta á Alþingi fyrir að misbjóða þingræðinu með þessum hætti og óska eftir því að forseti bregðist við.