Bjargráðasjóður

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 10:31:54 (2196)

1995-12-20 10:31:54# 120. lþ. 73.7 fundur 125. mál: #A Bjargráðasjóður# (heildarlög) frv., Frsm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[10:31]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 441 frá félmn. um frv. til laga um Bjargráðasjóð.

,,Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund Berglindi Ásgeirsdóttur ráðuneytisstjóra frá félagsmálaráðuneytinu.

Skriflegar umsagnir um málið bárust nefndinni frá Bændasamtökum Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Félagi hrossabænda.

Með frumvarpinu er m.a. lagt til að stjórn Bjargráðasjóðs, sem skipuð skal fimm mönnum, verði ekki bundin við tiltekin embætti eins og nú er heldur velji hlutaðeigandi samtök sjálf sína fulltrúa. Þá er lagt til að sjóðurinn hafi ekki heimild til styrk- og lánveitinga heldur er einungis talað um afgreiðslur. Meginbreytingin er hins vegar sú að framlag af söluvörum landbúnaðarins getur verið allt að 1% í stað 0,6% eins og nú er.

Þar sem frumvarpið kveður mun skýrar á um bótareglur og bótasvið sjóðsins en gert er í núgildandi lögum leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Svanfríður Jónasdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.``

Undir þetta nál. skrifa auk mín Arnbjörg Sveinsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Magnús Stefánsson, Siv Friðleifsdóttir, Kristján Pálsson, Einar K. Guðfinnsson, Pétur H. Blöndal og Rannveig Guðmundsdóttir.

Hæstv. forseti. Því er við þetta að bæta að við ræddum þetta mál við fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og það er alveg ljóst að það er sátt um þetta mál. Ég vil láta það koma fram að í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er ákveðin hvatning til stjórnvalda um að fara yfir þessi mál í heild, þ.e. það sem snýr að Bjargráðasjóði og Viðlagatryggingu og ofanflóðasjóði. Það kemur fram í athugasemdum við lagafrv. að nefndin sem þáv. hæstv. félmrh. setti á fót 2. mars 1993 velti því fyrir sér hvort rétt væri að leggja Bjargráðasjóð niður. En það kom í ljós í könnun nefndarinnar að til þess var ekki vilji og eins og menn vita þá hefur mikið vatn til sjávar runnið síðan og hér hafa orðið atburðir sem snerta þessi mál verulega, m.a. urðu bændur fyrir verulegu tjóni nú síðast í haust.

Þegar þeir atburðir áttu sér stað, en þá urðu m.a. hrossabændur fyrir tjóni, kom það fram að hrossabændur höfðu sagt sig frá Bjargráðasjóði. Því fannst okkur í félmn. rétt að leita sérstaklega álits þeirra ef þeirra afstaða hefði eitthvað breyst. Þeir sendu okkur álit þar sem þeir taka undir þessar breytingar en það er auðvitað þeirra að ákveða hvernig þeir svo síðar standa að aðild að sjóðnum.

Hæstv. forseti. Hér hefur verið farið yfir lögin í heild. Það hafa engar athugasemdir komið fram við þetta frv. og eftir þá könnun sem fram fór í félmn. leggur nefndin til að frv. verði samþykkt óbreytt.