Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 11:21:14 (2200)

1995-12-20 11:21:14# 120. lþ. 73.9 fundur 241. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur krókabáta) frv., Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[11:21]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta sjútvn. í fjarveru hv. 4. þm. Vestf. Nál. er á þskj. 442. Frv. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins er annað tveggja frv. sem óskað var eftir að flutt yrðu og lögfest á Alþingi fyrir áramót og tengjast málefnum smábátaútgerðarinnar. Eins og fram hefur komið standa yfir viðræður milli Landssambands smábátaeigenda og sjútvrn. um ýmis mál sem ástæða er til eða áhugi er á að taka á af hálfu smábátasjómanna. Þær viðræður standa yfir þannig að ekki er ljóst hvernig þeim lyktar í einstökum atriðum. Samkomulag varð milli þessara aðila um að leggja til að gerðar yrðu tvær breytingar á lögum sem vörðuðu málefni eða hagsmuni smábátaútgerðarinnar. Sú fyrri varðar lagfæringu á lögum um stjórn fiskveiða sem þegar hefur verið rædd á fundinum og fullt samkomulag var um að gera. Það lá reyndar alltaf fyrir, frá því þau mistök uppgötvuðust sem þar á að leiðrétta, að nauðsynlegt og sanngjarnt væri að breyta þar um dagsetningar eða ártöl, sem höfðu farið rangt inn í lagatextann á sl. vori.

Þetta mál hins vegar tengist öðrum þætti þessara hluta, þ.e. úreldingarmálum smábáta eða krókabáta og endurnýjunarreglum, sem vissulega eru samhangandi. Teknar voru upp, í tengslum við breytingu á lögum um stjórn fiskveiða á sl. vori, úreldingarkröfur í krókabátaflotanum og jafnframt lögfest að Þróunarsjóður, sem svo heitir nú, tæki upp tilboð til eigenda krókaveiðibáta um að úrelda báta af því tagi. Þá varð niðurstaðan að styrkur til úreldingar skyldi að hámarki nema 45% af húftryggingaverðmæti fiskiskipa eða krókabáta. En komið hefur á daginn að þetta tilboð var nú satt best að segja ekki mjög vel hugsað og sýnir sig að menn renna nokkuð blint í sjóinn stundum með hlutina, jafnvel þótt þeir séu til meðferðar á hinu háa Alþingi. Þegar betur var að gáð kom í ljós að í gangi voru tilboð til manna um kaup á þessum bátum sem atvinnuleyfið eitt, ef svo má að orði komast, krókaveiðileyfið eitt var verðmætara en tilboð Þróunarsjóðs. Það leiðir því af sjálfu að ekki var mikið um viðskipti á þessum grundvelli og samkvæmt upplýsingum frá stjórn Þróunarsjóðs hafði aðeins einn bátur fengið útgreiddan sinn styrk á grundvelli þessara nýju ákvæða.

Aðalástæða þess að sjútvn. er ekki samferða í áliti um þetta mál á sér aðdraganda og skýringar í meðferð þessara mála á þingi á undanförnum árum og þá sérstaklega því að sjútvn. klofnaði á sl. vori í afstöðu sinni, m.a. til þessa hluta málefna smábátanna. En eins og kunnugt er urðu miklar og langar umræður um þau mál. Þá lýstu ýmsir efasemdum um að rétt væri að hafa reglur um úreldingu og/eða endurnýjun smábáta með þeim hætti og miklu strangari hætti en á við um önnur fiskiskip eins og lögfest var.

Nú er ljóst að miklir erfiðleikar eru fram undan í þessum hluta útgerðarinnar, þ.e. hjá krókaveiðibátum. Fyrir þann hluta hópsins sem velur áframhaldandi stýringu með banndögum eða róðrardögum en ekki veiðar á grundvelli þorskaflahámarks eru fram undan miklar þrengingar að óbreyttu og veruleg fækkun sóknardaga strax á næsta fiskveiðiári. Þess vegna er ekkert óeðlilegt þó að menn segi sem svo að mikil þörf sé á að fækka í þessum hópi og auka þá olnbogarými þeirra sem eftir verða. Engu að síður vakna ýmsar spurningar þegar mismunun af þessu tagi er innleidd og hvort fyrir því liggi einhver sérstök rök að hafa mun strangari kröfur um endurnýjun og í gangi mjög há tilboð um úreldingu í þessum hluta flotans. Annars vegar þarf að kaupa út tvöfalt stærri rúmlestatölu ef menn velja þá leið að endurnýja en hins vegar eru í gangi há tilboð til eigenda báta sem vilja úrelda þá. 80% af húftryggingaverðmæti eru mun hærri tilboð en nokkurn tíma hafa verið greidd til annarra skipa en þá, ef ég man rétt, fór prósentan hæst í 50%, gagnvart aflamarksskipum, og sérstakt þak sett á upphæðina. Þannig að hér gengið mun lengra til þess að hvetja menn til úreldingar og til að draga saman í þessari tegund útgerðar. Það vekur svo aftur ýmsar spurningar um þau byggðarlög og svæði sem einkum og sér í lagi eru háð þessari tegund atvinnustarfsemi. Alveg er ljóst að fjölmörg byggðarlög hafa bjargað sér á undanförnum árum fyrst og fremst á smábátaútgerð í kjölfar þess að stærri fiskiskip með veiðiheimildir hafa horfið á braut. Um þetta má nefna mörg dæmi og það er alveg ljóst að byggðin hefur fyrst og fremst þrifist á smábátaútvegi á mörgum stöðum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi undanfarin ár. Það er til að mynda svo komið, eins og mörgum er kunnugt, að ekkert stórt togskip er gert út sunnanverðum Vestfjörðum og smábátaútvegur skiptir þar orðið sköpum, t.d. á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal. Á Suðureyri hefur þetta verið undirstaðan í sjósókn og atvinnu á staðnum nokkurt árabil. Fleiri dæmi mætti nefna. Þannig að mikill samdráttur í greininni hlýtur að koma víða við.

Ég vil líka nefna, herra forseti, í samhengi við þetta mál að þrátt fyrir miklar umræður á undanförnum árum hefur því miður ekki náðst fram heildstæð stefnumótun um úreldingar- eða þróunarsjóðsmálefni. Hér er rekin einhver stefna sem enginn botn er í í þeim skilningi að aldrei hefur fengist upp gefið hvaða markmið eru lögð til grundvallar, hversu mikið menn hyggist þá draga saman í íslenska fiskiskipaflotanum og hve lengi menn ætli að halda þessari tilhögun áfram. Það hafa komið fram raddir um að réttast væri að hverfa með öllu frá því að stjórnvöld væru að skipta sér af stærð fiskiskipastólsins og þegar hér er búið að vera við lýði kvótakerfi sem byggir á aflamarki á annan áratug þá séu það miklar ofstjórnartilhneigingar að vera jafnframt með í gangi takmarkanir á flotastærðinni af þessu tagi. Auðvitað er það svo að fiskveiðistjórnunarkerfið er ekki bara einfalt og ekki bara tvöfalt, heldur þrefalt eða fjórfalt eða margfalt því að margs konar reglur um veiðarfæri og friðun svæða, úthaldsdaga og annað því um líkt, leggjast þarna að sjálfsögðu til viðbótar sem hluti af fiskveiðistjórnuninni.

[11:30]

Það er svo að þegar eitthvert fyrirkomulag af þessu tagi hefur verið lengi við lýði er ekki við því að búast að menn hendi því fyrirvaralaust og það er ekki verið að biðja um slíkt eða lýsa eftir því hér. En mér hefur gengið illa, satt best að segja, að toga það upp úr mönnum hvaða vísindi liggja að baki hugsuninni í heild sinni um úreldingu eða starfsemi Þróunarsjóðsins. Í mín eyru hefur aldrei verið nefnd nein tala um það hversu mikið menn teldu æskilegt að draga úr afköstum íslenska fiskiskipastólsins. Ég hef gerst svo djarfur á undanförnum árum að færa fram þau sjónarmið að það væri beinlínis stórhættulegt að reka þessa stefnu blinda áfram án nokkurra skilgreindra markmiða.

Ég leyfi mér að draga stórlega í efa að ef menn hefðu jafnharðan með rekstri úreldingarkerfis af þessu tagi úrelt alla umframafkastagetu, sem er löggilt stofnanamál yfir það sem hér er á ferðinni, út úr flotanum jafnóðum og hún kom til þá hefði til að mynda orðið lítið um sókn okkar á fjarlæg fiskimið. Þá hefði ekki verið sami hvati fyrir hendi í kerfinu að leita nýrra verkefna, auka sókn í vannýttar tegundir o.s.frv. eins og þrátt fyrir allt hefur gerst á undanförnum árum. Það er það sem hefur haldið íslenskum þjóðarbúskap á floti undanfarin ár og fleytt okkur yfir langt samdráttarskeið. Það er fyrst og fremst öflug viðleitni sjávarútvegsins til að bregðast við minni afla á heimamiðum og samdrætti í veiðum á hefðbundnum tegundum, ekki síst þorski, með því að sækja á fjarlæg mið og nýta betur aðrar tegundir. Það er þess vegna í raun alveg ljóst að kerfi af þessu tagi er í mótsögn við slíka viðleitni. Það býður upp á þann valkost að í stað þess að leita nýrra verkefna og sækja á ný mið þá eigi menn þann kost að selja ríkinu draslið og hætta og gefast upp. Og ég held þess vegna að hvað sem mönnum sýnist í sjálfu sér um þetta þá hljóti menn a.m.k. að geta viðurkennt að kerfi af þessu tagi eigi ekki að starfrækja um árabil án þess að fyrir liggi einhver mótuð stefna um tilganginn og yfirlýst markmið um það hvað menn ætli sér. Ætla menn að draga úr stærð fiskiskipastólsins eða afköstum um 5%, 10%, 15%? Hve lengi hyggjast menn halda þessu áfram? Ætla menn að starfrækja þetta kerfi áfram þannig að enginn greinarmunur verði gerður á tegundum fiskiskipa, á því hvaða hluta flotans er verið að úrelda? Þetta held ég að verði mjög brennandi spurning á næstunni ekki síst vegna ástandsins í nótaskipaflotanum en eins og kunnugt er liggur þar fyrir gífurleg endurnýjunarþörf. Flotinn er meira og minna úreltur og þær reglur sem í gildi eru að þessu leyti verka mjög hamlandi, mjög hamlandi á endurnýjun í þessum hluta flotans, ekki bara kostnaðarins vegna sem er auðvitað ærinn því þarna þarf að kaupa hvert tonn sem endurnýjað er um dýrum dómum, heldur líka vegna þess að það stendur þannig á að vilji menn endurnýja nótaskip í dag og innleiða nýjustu tækni með einangruðum lestum og kælikerfi þýðir það um 20% afkastaminnkun miðað við sömu stærð hjá flotanum. Þar af leiðandi er verið að mismuna ef eitthvað er með öfugum formerkjum þessum hluta flotans þar sem þetta liggur alveg fyrir. Eftir sem áður er keyrt áfram með óbreyttar reglur.

Herra forseti. Mér finnst satt best að segja að það sé ekki vansalaust að þrátt fyrir umræður um þetta og að mönnum hafi verið ljóst nú um margra missira skeið hver staðan er í þessum efnum að þá gerist ekki neitt. Ef eitthvað er þá er það svona heldur til að trufla menn og gera ástandið enn ruglaðra að t.d. á sl. hausti urðu miklar umræður um það á þingi Landssambands íslenskra útvegsmanna að það bæri að fella þetta kerfi niður. Hæstv. sjútvrh. tók að nokkru leyti undir þau sjónarmið í ræðu á þinginu eða í viðtölum við fjölmiðla um svipað leyti. Þetta hefur skapað óvissu og óróleika um þessi mál sem mikil nauðsyn er að eyða. Ég hafði óskað eftir því að hæstv. sjútvrh. gæfi einhverja yfirlýsingu um stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum fyrr en síðar til að menn vissu a.m.k. svona til næstu framtíðar litið að hverju þeir gengju í þessum efnum. En slíkt hefur ekki komið fram þannig að málin eru hálfpartinn í lausu lofti og við þær aðstæður eru stjórnendur einstakra útgerða eða sjávarútvegsfyrirtækja að taka ákvarðanir um fjárfestingu þar sem þessi tiltekni kostnaður getur hlaupið á tugum eða jafnvel upp undir hundruðum milljóna króna. Það munar um minna þegar menn eru að gangast undir slíkar skuldbindingar.

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að taka þetta upp í tengslum við umræður um þetta mál og lýsa inn í þetta samhengi þessara endurnýjunar- og úreldingarmála í heild sinni. Að sjálfsögðu er það tengt þessu frv. í þeim skilningi að menn hljóta að reyna eftir því sem kostur er að hafa samræmdar reglur í gildi um mál af þessu tagi gagnvart öllum sem í einni atvinnugrein starfa þó það sé að vísu ljóst á grundvelli þeirrar niðurstöðu sem varð hér um úreldingarmál krókabáta á sl. vori, að í reynd er umtalsverð mismunun á ferðinni. Það má segja að endurnýjunarreglurnar séu harðastar gagnvart krókabátunum og þá næststífastar gagnvart nótaskipum eins og á stendur í þeim hluta flotans.

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að benda á það sem nefnt er í nál. minni hlutans, að það virðist einhver misbrestur hafa orðið á um eðlilegt samráð við undirbúning þessa frv. Það kom t.d. í ljós að þegar fulltrúar Þróunarsjóðs sjávarútvegsins komu á fund sjútvn. að við þá hafði ekkert samráð verið haft um undirbúning málsins og stjórn sjóðsins hafði ekki fregnað af frv. fyrr en sama dag og því var útbýtt á Alþingi. Þar af leiðandi gafst þeim ekki tækifæri á að segja álit sitt á efni þess eða vera með í ráðum áður en frv. var lagt fram. Þegar talsmenn sjóðsins voru spurðir um rökstuðninginn sem að baki lægi prósentutölunni sem þarna er sett inn, þ.e. 80%, varð eðlilega fátt um svör því það mál hafði aldrei verið við þá rætt. Í nefndarálitinu er hvatt til þess að sjútvrn. standi öðruvísi að undirbúningi mála af þessu tagi, bæði hvað varðar samskiptin við framkvæmdaaðila eins og Þróunarsjóð og reyndar einnig sjútvn. sem fékk ýmis skilaboð um nauðsynlegar breytingar á málinu með öðrum hætti en æskilegt var.

Ég vil líka aðeins koma að brtt. frá meiri hluta sjútvn., sem út af fyrir sig er full samstaða um í nefndinni, þ.e. að verði sú breyting gerð og lögfest að undanþáguákvæðið gagnvart 7. gr. um að fram til ársloka 1996 skuli styrkur til úreldingar krókabáta mega vera hærri en almenna ákvæðið gerir ráð fyrir, þá sé óhjákvæmilegt að það ákvæði verði afturvirkt gagnvart þeim bátum eða það má nú víst segja þeim eina báti sem þegar hefur fengið útgreiddan styrkinn. Það leiðir þá af sjálfu sér að þetta á jafnframt við um þá innan við tíu báta sem sótt hafa um og fengið samþykkta úreldingu án þess að til útgreiðslu hafi komið. Auðvitað hefði ekki gengið að mismuna mönnum eins og í pottinn er búið þannig að nauðsynlegt er að verði þetta mál afgreitt þá verði það gert með þeirri breytingu sem lögð er til á þskj. 427.

Herra forseti. Þá vil ég að lokum hvetja til þess að þeim viðræðum sem yfir standa milli sjútvrn. og Landsambands smábátaeigenda um lausn á ýmsum vandamálum og erfiðleikum sem menn horfast þar í augu við í þessari grein útvegsins, verði hraðað og reynt verði að ná í þær niðurstöður sem allra fyrst. Það er ljóst að það líður á fiskveiðiárið og sóknin þyngist með vorinu þegar banntímabilinu lýkur. Margir munu nýta sína róðrardaga með þeim hætti að færa þá yfir á vor- og sumarmánuðina og flest bendir til að það stefni í umtalsverða erfiðleika gagnvart þessum hluta flotans strax á næsta hausti þegar ljóst verður hver sóknardagafjöldinn verður á næsta fiskveiðiári. Nú horfir sem betur fer kannski til þess að eitthvað bjartara sé fram undan varðandi þorskveiðar og þá hlýtur að koma til álita með hvaða hætti hlutdeild þessa hóps sem eftir stendur og ekki byggir á aflahámarki með sína sókn verður frágengin í heildarskiptunum. Það er alveg ljóst og ekki síst ef kemur nú til enn frekari fækkunar í þessum hópi að þarna er ekki lengur á ferðinni sú sóknargeta sem skiptir miklum sköpum um þann afla sem tekinn er af Íslandsmiðum þegar aflahæstu bátarnir frá undanförnum árum eru komnir út úr pottinum og hafa í flestum tilvikum valið sér sókn samkvæmt aflahámarki. Endurnýjunarreglur eru orðnar mjög stífar þannig að í raun verður helmings minnkun í flotanum við hvern nýjan bát sem kemur til sögunnar. Þessir hlutir munu gerast því mjög hratt á næstu missirum ef eitthvað gerist á annað borð. Þar af leiðandi er ekki lengur fyrir hendi sú hætta að mínu mati að einhver stórkostleg viðbótarafkastaaukning eða sprenging verði þarna á ferðinni. Eftir stendur að mikilvægi þessarar útgerðar er gífurlegt fyrir ákveðin landsvæði og ákveðin byggðarlög og með hliðsjón af því verður að taka á þeim vandamálum sem þarna eru uppi. Í ljósi þess að viðræður standa yfir milli sjútvrn. og Landsambands smábáta og með von um að þær leiði til jákvæðrar niðurstöðu og menn nái þar einhverri lendingu um úrlausn ýmissa vandamála sem við blasa, þá viljum við í minni hlutanum ekki leggjast gegn afgreiðslu þessa frv. En í samræmi við þá afstöðu sem við höfðum til sambærilegra hluta á sl. vori treystum við okkur ekki til að greiða málinu atkvæði, a.m.k. ekki sá sem hér talar. Efasemdir mínar um að þessi mál séu nægjanlega vel grunduð og í réttu samhengi eru of miklar til þess, herra forseti. En úr því að þetta er sameiginleg ósk viðræðuaðilanna er sjálfsagt að greiða fyrir því að það nái fram að ganga. Við leggjumst sem sagt ekki gegn því að þetta ákvæði verði lögfest fyrir jólin.