Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 11:45:02 (2201)

1995-12-20 11:45:02# 120. lþ. 73.9 fundur 241. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur krókabáta) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[11:45]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á lögum nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Það ákvæði sem hér er til efnislegrar umfjöllunar lýtur að krókabátum og hefur hlotið umfjöllun í hv. sjútvn.

Það háttar þannig til nú síðustu daga fyrir jól að hér eru alls átta lagabreytingar í gangi sem um hefur verið fjallað í hv. nefnd með einum eða öðrum hætti. Og svo sérkennilegt sem það má virðast koma tvær þeirra fram með eðlilegum hætti. Annars vegar liggur fyrir og hefur verið rætt við 2. umr. í morgun frv. til laga um stjórnun fiskveiða og hins vegar frv. það sem við fjöllum nú um. Hinar, virðulegur forseti, eru hluti af bandormi, þar af þrjár sem einnig eru til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Það má vissulega spyrja sig þeirrar spurningar af hverju ekki var hægt að bera þau mál að hér með sama hætti og málið sem við fjöllum nú um og það mál sem kom hér sjálfstætt inn til breytinga á sömu lögum. En það er svo sérkennilegt að sumar lagabreytingar koma á sama tíma fyrir þingið og hv. nefnd í bandormsforminu en aðrar aftur sem sjálfstæð frv. til breytinga á lögum. Það verður ekki í fljótu bragði séð að ýkjamikill munur sé á efni þessara frv. eða eðli þeirra. En eitt eiga þau öll sameiginlegt og það er að vera mjög seint fram komin. Við hljótum að álykta sem svo þegar við lítum á efni þessara frv. að flest þessara mála hafi legið fyrir nokkuð lengi þannig að menn hafi átt að sjá að þarna þurfti breytinga við.

Eins og fram kom í morgun þarf m.a. atbeina þingsins vegna mistaka við lagasetningu í vor þegar menn flýttu sér um of. Reyndar óttast ég að það sama gildi varðandi ýmsar lagabreytingar að þessu sinni. Annars má kannski segja að þá hafi ekki frekar en nú gefist nægjanlegt ráðrúm til að ígrunda það sem menn voru að fara að lögfesta. Það sem hér liggur fyrir varðandi Þróunarsjóðinn er framlenging á ákvæðum til bráðabirgða. Þar á að heimila áfram að miða styrk vegna úreldingar krókabáta við hærra hlutfall af húftryggingarverðmæti en gildir um önnur skip.

Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar kom í ljós að tilboðið sem fólst í bráðabirgðaákvæði því sem samþykkt var í vor til úreldingar krókabáta hafði ekki uppfyllt þær væntingar sem menn höfðu til þess varðandi flýtiúreldingu fjölda báta. Einungis nokkrir bátar höfðu meldað sig, ef svo má að orði komast, í úreldingu og einungis hafði verið gengið frá úreldingu eins. Það sem er á ferðinni þegar við fjöllum um krókabáta er auðvitað ákveðin tegund stjórnar fiskveiða. Hv. þm. sem hér talaði á undan mér lét þess getið að við værum með nokkur kerfi í gangi þó svo að í meginatriðum sé byggt á aflahlutdeildarkerfi eða svokölluðu kvótakerfi. Hvað varðar krókabátana erum við hins vegar með smáæfingu í gangi í því sem menn hafa kallað sóknar- og flotastýringarkerfi. Það hefur margoft komið fram, bæði hér í þinginu og utan þings, að býsna mörgum í þessu samfélagi, bæði þeim sem sækja sjóinn og hinum sem eru áhorfendur, er nokkuð í mun að því kerfi sé viðhaldið á þessum hluta flotans. Af þeim ástæðum er það svo að við erum ekki með heildstætt kerfi, ekki einu sinni í sinni grófustu mynd, hvað varðar fiskveiðistjórnunina. Virðulegur forseti, þar sem við erum hér að fjalla um sóknar- og flotastýringarkerfi má telja afar eðlilegt að menn reyni við flotastýringuna eftir að hafa komið á banndagakerfi og sóknardagakerfi í einhverju skötulíki. Það er gert þannig, eins og menn vita og ákvarðað var með lögunum frá í vor, að endurnýjunarreglur krókabáta eru helmingi strangari en endurnýjunarreglur annars hluta flotans. En þar er ekki látið við sitja, mun hærra hlutfall af húftryggingarverðmæti er einnig tekið gilt þegar slíkir bátar eru úreltir. Og um það erum við einmitt að fjalla. Þannig má segja að lagst sé með tvöföldum þunga á það að stýra afkastagetu þessa hluta flotans.

Í samfélagi okkar hafa mjög lengi staðið miklar deilur um stjórn fiskveiða. Þeim deilum er ekki lokið. Þær eiga sér ýmsar hliðar og um þær er fjallað af býsna mörgum. Enda þykir mörgum sem þeim komi málið við sem eðlilegt er þar sem hér er um það að ræða hvernig við nýtum okkar undirstöðuauðlind. En það verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, að hluti af þeirri gagnrýni sem fram kemur er vegna þess að hér er á ferðinni að hluta til mikil ofstjórn sem er fullkomlega út í hött og raunar hlægileg ef við horfum á hversu hátt við skrifum okkar sjávarútveg, bæði hérlendis og erlendis. Þar vil ég nefna sem dæmi þá ofstjórn sem ríkir gagnvart aflahlutdeildarskipunum sem eru hér á kvótakerfinu og vali þeirra á því með hvers slags skipum þeir sækja þann afla sem þeim er úthlutaður. Það er, virðulegi forseti, afskaplega sérkennilegt að menn skuli ekki ráða því sjálfir með hvers slags skipum þeir sækja þann afla sem þeim er úthlutaður. Menn tala gjarnan um það hér í þinginu að þeir treysti sjávarútvegsmönnum afskaplega vel til að ráða sjálfir sínum málum. Engum sé betur treystandi en útvegsmönnum og útgerðarmönnum til að taka ákvarðanir um það hvernig þeir hagi sínum málum. Undir þessu sitjum við en hljótum ávallt að velta því fyrir okkur hvort ekki væri þá í ljósi þessara sömu orða eðlilegt að líta á þau ákvæði núgildandi laga um stjórn fiskveiða sem einmitt lúta að ofstjórn sem tekur fram fyrir hendurnar á útvegsmönnum t.d. með þeim hætti að menn ráða því ekki sjálfir hvers slags skip þeir nýta til veiða sinna. Menn mega ekki stækka við sig eða breyta skipum sínum þannig að þeir geti með hugsanlega hagkvæmari hætti sótt þann kvóta sem þeim er úthlutaður eða búið betur að skipverjum sínum. Menn verða sem sagt að lúta þar afskaplega ströngum og í rauninni hlægilegum reglum. Ég held, virðulegi forseti, að þá fyrst getum við tekið mark á þeim sem segjast treysta útvegsmönnum best sjálfum til að ráða sínum málum þegar þeir eru tilbúnir til að líta á ofstjórnarreglur sem þessar.

Í upphafi ræðu minnar vék ég að því að þessa dagana eru alls tíu lagabreytingar á ferðinni í þinginu sem snúa að sjávarútveginum. Ég tel því rétt að við veltum örlítið fyrir okkur því samhengi sem er í löggjöf okkar hvað varðar þessi mál. Menn tala gjarnan um að þessi atvinnugrein þurfi ákveðinn stöðugleika í umgjörð sinni. Hún þarf þess áreiðanlega engu síður en aðrar atvinnugreinar hér á landi. Þótt segja megi að í sjávarútvegi sem og landbúnaði séu menn vanari því en kannski víða annars staðar að taka við ýmis konar áföllum, er auðvitað eðlilegt að löggjafinn geri sitt til að skapa eins mikinn stöðugleika og hægt er. Ég er nokkuð viss um það, virðulegi forseti, að ef okkur gæfist betri tími til að fjalla um þá löggjöf sem lýtur að sjávarútveginum hér á hinu háa Alþingi þá tækist okkur að hafa betra samhengi í þessari löggjöf. Það væri meira samræmi og minni þörf á að vera ýmist með bandormsákvæði eða sjálfstæð frv. til laga til breytinga á öðrum lögum í önnum fyrir jól og að vori og þar með minni hætta á mistökum við lagasetninguna. Það er sem sé hluti af þeim vanda sem sjávarútvegurinn á við að glíma hversu seint fram komin mál eru hér alla jafna og því miður þess vegna oft á tíðum alls ekki nægjanlega vel efnislega unnin. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim vanda, virðulegi forseti, ég held að hann sé því miður of mikill.

Ég vil aðeins til undirstrikunar á máli mínu, virðulegi forseti, víkja að öðrum þeim málum sem hér liggja fyrir sem hefðu þurft mun betri umfjöllunar við hér í þinginu, engu síður en mál sem eiga eftir að koma hér aftur fyrir þingið til betri og ítarlegri efnislegrar umfjöllunar.

Eitt af þeim málum sem liggja fyrir þinginu er lagabreyting sem felur í sér að þau fiskiskip sem stunda veiðar með línu og handfærum með dagatakmörkunum --- krókabátarnir eru auðvitað hluti af því --- greiði sambærilegt veiðieftirlitsgjald og önnur fiskiskip greiða við úthlutun aflamarks. Það er ekkert óeðlilegt við það að fram komi lagabreyting af þessu tagi því að hér er verið að leita ákveðins samræmis í flotanum. En maður veltir því auðvitað fyrir sér af hverju þetta er að koma fram núna. Var þetta ekki eitt af því sem menn hefðu getað séð fyrir í vor ef þeir hefðu haft betri tíma til umfjöllunar? Og þá kannski líka það, virðulegi forseti, sem ég tel óhjákvæmilegt að verði skoðað hér nánar. Smábátarnir greiða u.þ.b. 75% af þeirri upphæð sem innheimt er í formi gjalda vegna útgáfu veiðileyfa. Það er greitt fyrir veiðileyfi í dag. Menn greiða líka fyrir sérveiðileyfi og það hefur komið í ljós að það eru smábátarnir sem standa að stærstum hluta undir þessum veiðileyfum. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að þessi staðreynd verði tekin upp þegar betra tóm gefst til að fjalla um þessi mál hér í þinginu og á vettvangi nefndarinnar og m.a. verði skoðað hvernig hægt verði að ná betra samræmi, af því að við erum að tala um samræmi, það verði hægt að ná betra samræmi í flotanum. Ég tel einnig að það geti varla talist sanngjarnt að smábátaflotinn standi undir 75% af þeirri upphæð sem innheimt er vegna veiðileyfa.

[12:00]

Minni hluti sjútvn. skilar ekki sjálfstæðu nefndaráliti vegna þess að hann sé efnislega á móti þeirri lagabreytingu sem hér er lögð til. Það er ekki vegna þess að minni hluti nefndarinnar átti sig ekki á því að ef menn ætla að vera með sóknar- og flotastýringarkerfi, þarf auðvitað að beita þeim tiltæku ráðum sem það kerfi færir mönnum upp í hendurnar til að stýra sókninni. Mönnum finnst hins vegar að það hefði þurft að skoða þessi mál í ögn stærra samhengi, að menn hefðu aðeins þurft að velta því fyrir sér hvernig þeir ætla að enda þetta mál. Hvert er markmiðið? Ætla menn sér að ná einhverjum tilteknum árangri og munum við framlengja hugsanlega heimildina til að úrelda krókabátana við hærra hlutfall af húftryggingaverðmæti eða ætlum við að láta staðar numið í lok næsta árs? Hversu lengi ætlum við að krefjast þess að krókabátarnir séu úreltir þannig að fyrir eitt tonn þurfi að koma tvö? Erum við með einhver ákveðin mörk þar sem við ætlum að stoppa við eða hversu langt á þetta að ganga? Er einhver pólitísk samstaða um það hér eða úti í samfélaginu? Má kannski vænta þess að einhver svona ,,um það bil`` mörk verði fundin á þetta mál í viðræðum sjútvrn. við Landssamband smábátaeigenda? Það eru sem sagt ýmsar spurningar sem minni hlutinn hlýtur að spyrja áður en hann án fyrirvara samþykkir breytingar sem framlengja ástand sem þótti ekki nógu gott þegar því var komið á. Það hefur komið í ljós eins og fram kemur í nefndaráliti minni hlutans að viðræður eru í gangi á milli ráðuneytisins og Landssambands smábátaeigenda og það hefur jafnframt komið fram að þess er að vænta að niðurstöður þeirra viðræðna liggi fyrir einhvern tíma fljótlega. Það hefði e.t.v. verið eðlilegra að menn reyndu að ná þessari heildarsýn sem ég vék að áðan, áður en farið var af stað með breytingar á þessum lögum.

Ég vildi, virðulegi forseti, fyrst og fremst vekja athygli á þessum atriðum, þ.e. þeim atriðum að menn gæta ekki alltaf samræmis hlutanna þegar hér er verið að setja lög. Mál eru seint fram komin og e.t.v. er það hluti af vanda sjávarútvegsins hversu seint mál koma fram og hversu illa þau eru oft og tíðum undirbúin. Það sannaðist reyndar á þessu frv. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins þar sem ekki hafði gefist ráðrúm til þess svo mikið sem að ráðgast við stjórn sjóðsins áður en frv. var lagt fram í þinginu og brtt. við frv. barst með sérkennilegum ef ekki fullkomlega óvenjulegum hætti inn í nefndina á síðustu stundu.

Ég taldi líka eðlilegt að menn veltu aðeins vöngum yfir þeim stjórnunaraðferðum og oft og tíðum ofstjórnaraðferðum sem notaðar eru við sjávarútveginn. Ég held, virðulegi forseti, að við þurfum að hafa þetta allt undir þegar við erum að ræða málefni sjávarútvegsins. Ugglaust verður það svo þegar við tökum til umræðu þær átta greinar bandormsins sem snúa að sjávarútveginum með einum eða öðrum hætti og hafa verið ræddar að svo miklu leyti sem bandormurinn hefur verið til umfjöllunar í hv. sjútvn. Vissulega voru þar á ferðinni önnur atriði en nákvæmlega þau sem tengjast beint þessu frv. svo sem umfjöllun um stöðu Fiskistofu og einnig Fiskveiðasjóð. Við hljótum að þurfa að ræða þau atriði mun betur í dag eða á morgun eða milli jóla og nýárs eða jafnvel eftir áramót eftir því hvenær bandormurinn kemst á dagskrá vegna þess að þar eru á ferðinni hlutir sem hreint ekki fengust útræddir í nefndinni. Svör lágu ekki fyrir en hugsanlegt er að menn viti ögn meira eða ættu kannski að vita meira þegar tími hefur gefist til þess að skoða þessa hluti. Líka brenna spurningar á mönnum varðandi það hvers vegna ábendingar minni hluta sjútvn. varðandi Fiskveiðasjóð voru ekki teknar til greina af hálfu meiri hluta efh.- og viðskn. þegar sú nefnd skilaði af sér nefndaráliti og breytingartillögum varðandi bandorminn.

Virðulegi forseti. Ég á sem sagt von á því að málefni sjávarútvegsins komi til umfjöllunar eins og ég sagði áðan kannski seinna í dag, kannski á morgun, kannsi milli jóla og nýárs og kannski eftir áramótin í bandorminum. En ég held að það sé alveg ljóst að hér hafa líka verið vakin upp atriði sem gera það að verkum að hv. nefnd hlýtur að taka tíma í að skoða hvort ekki sé rétt að hún hafi uppi sjálfstæðan málatilbúnað, eins og ég gat um áðan, varðandi það hversu stóran hluta veiðileyfanna smábátarnir greiða nú og með hvaða hætti eðlilegt þætti að samræma það.