Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 13:09:32 (2203)

1995-12-20 13:09:32# 120. lþ. 73.1 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[13:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls gagnrýndum við mjög harðlega þá breytingu að afnema verðuppfærsluákvæði tekjuskattslaganna og draga þar með úr tengingu við verðlagsþróun sem verið hefur á bótaliðum og þáttum eins og persónufrádrætti og skattfrelsismörkum í skattalögum okkar. Við greiddum að sjálfsögðu atkvæði gegn þeim tillögum frv.

Á hinn bóginn eru í frv. einnig jákvæðir þættir sem ástæða er til að taka undir, t.d. skrefið sem stigið er í átt til þess að draga úr óhóflegri tekjutengingu barnabótaauka í skattkerfinu. Sömuleiðis má nefna upptöku fyrningarákvæða á einkabifreiðar og fleira í þeim dúr. Með vísan til þessarar afstöðu sitjum við hjá við endanlega afgreiðslu málsins og ítrekum gagnrýni okkar á kerfisbreytinguna sem í því felst. En auðvitað er ljóst að með einhverjum hætti þarf að leggja á tekjuskatt á næsta ári og því kannski ekki efni til að leggjast gegn málinu sem slíku við lokaafgreiðslu þess.