Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 14:47:53 (2225)

1995-12-20 14:47:53# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., JBH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[14:47]

Jón Baldvin Hannibalsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Leyfist mér nú öllu náðarsamlegast að vekja athygli forseta á því að hér er verið að ræða í hæsta máta óvenjulegt frv. Hann gæti jafnvel fært rök fyrir því að þetta sé einsdæmi í þingsögunni. Það er ekki aðeins að þetta mál er viðamikið heldur tekur það til breytinga á 33 lagabálkum eða svo. Þar er um að ræða bæði tímabundnar og varanlegar breytingar og það er óhjákvæmilegt að vekja athygli forseta á því að þessar breytingar taka á málasviðum allra ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Hér eru auðvitað mál sem heyra undir forsrh., sem er flm. málsins. Hér eru mál sem heyra undir fjmrh. Hér eru mál sem heyra undir félmrh., landbrh., samgrh., menntmrh., dómsmrh., landbrh., sjútvrh. og þannig mætti lengi telja. (Gripið fram í: Alla nema ráðherra Hagstofu Íslands.) Sennilega alla nema ráðherra Hagstofu Íslands. Það sem hér er á dagskrá er einfaldlega stærsta mál þingsins.

Þessi ríkisstjórn, virðulegi forseti, hefur ekki íþyngt Alþingi með mörgum eða stórum umbótamálum. Satt að segja hefur þessi ríkisstjórn flutt tiltölulega fá mál sem skipta verulegum sköpum pólitískt. Það vill svo til að í þessum bandormi og meðfylgjandi hringormum og skröltormum er allur málabúnaðurinn sem ríkisstjórninni liggur á hjarta að koma fyrir Alþingi og til afgreiðslu á Alþingi nú fyrir jól. Eigi að ræða þessi mál á forsendum ríkisstjórnarinnar sjálfrar er hin einfalda krafa sú að ráðherrarnir séu viðstaddir.

(Forseti (GÁ): Forseti getur tekið undir skoðun hv. þm. í meginatriðum. Hann mun gera hlé á þessum fundi til kl. þrjú og kanna stöðu mála. Nú verður gert hlé á fundinum til kl. 15.00.)