Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 15:02:36 (2220)

1995-12-20 15:02:36# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[15:15]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (frh.):

Herra forseti. Ég geri þá þriðju tilraunina til að flytja ræðu mína og vona að aðstæður verði hagstæðari en hingað til og hæstv. ráðherrar láti svo lítið að vera viðstaddir og þeir aðilar sem bera málið fram verði hér til svara. Það er spurning hvort ekki þarf að fara að taka upp einhvers konar viðveruskrá eða kladda fyrir hæstv. ráðherra til að halda reiður á því hvar þeir halda sig þannig að það þurfi ekki að tefja þingstörfin aftur og aftur að hæstv. ráðherrar eru út og suður jafnvel þótt þeir eigi hér mál á dagskrá.

Þar var komið sögu, herra forseti, að við vorum ræða 6. til og með 10. gr. frv. en þar er fjallað um mál sem eru á sviði landbúnaðar. Í fyrsta lagi breytingar á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins og þar er á ferðinni að koma á varanlegum ákvæðum sem skerði framlag ríkissjóðs til Stofnlánadeildar frá því kveðið er á um í gildandi lögum. Þar má fara fljótt yfir sögu því efnislega sambærileg skerðingarákvæði hafa verið á ferðinni undanfarin ár. Ríkissjóður hefur ekki greitt beint framlag til Stofnlánadeildar um nokkurt skeið, það er ég best veit. Hér er hins vegar á ferðinni ákvörðun um að gera þetta varanlega og á það bendum við í okkar nál. og gilda þá allar þær sömu athugasemdir og fyrr um þá hlið mála.

Í öðru lagi á sviði landbúnaðar eru í 7. gr. fjallað um breytingu á búfjárræktarlögum en þá bregður svo við að allt í einu er komið ,,þrátt-fyrir``-ákvæði. Þá á að skerða framlög ríkissjóðs einungis á árinu 1996 eða miða það við tiltekna upphæð. Það verður auðvitað fróðlegt að heyra rök hæstv. ríkisstjórnar fyrir því að þarna sé allt í einu í lagi að hafa sjálfvirkni og ekki ástæða til að vera að gera breytingar varanlegar úr því að það er lagt til víðast hvar annars staðar. Eða voru einhverjir sértakir menn sem pössuðu upp á þetta mál umfram önnur þannig að þarna er mönnum allt í einu hlíft við því að kippa varanlega burtu tekjustofninum.

Það sama á við í 8. gr. um breytingu á lögum um jarðrækt eða jarðræktarlögum. Þar er á ferðinni ,,þrátt-fyrir``-ákvæði sem einungis takmarkar framlög ríkissjóðs til launa og reksturskostnaðar héraðsráðunauta við tiltekna upphæð á árinu 1996. Síðan er fjallað um breytingu á lögum um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum í 9. gr. og um breytingu á lögum um flokkun og mat á gærum og ull með síðari breytingum í 10. gr. Þar eru á ferðinni ákvæði sem heimila ráðherra að taka tiltekin gjöld af viðkomandi aðilum til greiðslu þess kostnaðar sem ríkissjóður hefur af yfirmati sem af ákvæði laganna leiðir. Þessi ákvæði eru því býsna ósamstæð. Það er í fyrsta lagi varanleg breyting á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, í öðru lagi tvenn ,,þrátt-fyrir``-ákvæði um búfjárrækt og jarðræktarlög og svo þessi tvö síðustu ákvæði sem ég gerði grein fyrir.

Svo vil ég koma að því að í áliti sínu lagði hv. landbn. til breytingar á þessum ákvæðum sem að ég fæ ekki séð að neitt hafi verið gert með af hálfu hv. meiri hluta efh.- og viðskn. Ég sé ekki í breytingatillöguskjali að þar sé verið að gera neitt með þær athugsasemdir sem landbn. gerði í umsögn sinni og er þó ekki minni maður en hæstv. forseti sem ritar undir álit landbn. Hlýtur það að sæta mikilli undrun að álit undirritað af slíkum þungavigtarmanni hér í þinginu skuli ekki hafa meiri vigt en þetta gagnvart meiri hlutanum. Það er ekkert með það gert og aukast nú vandræðin enn. En í umsögn landbn., sem er fylgiskjal II með nál. minni hlutans og dags. er 14. desember 1995, eru lagðar til beinar breytingar á 9. og 10. gr., þ.e. á orðalagi efnismálsgreina þeirra greina.

Ég vek athygli á þessu, herra forseti, og væri hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, form. efh.- og viðskn. hér í salnum sem hann er ekki og er auðvitað ekki gagnrýnilaust þar sem hann er form. nefndarinnar og ber ábyrgð á starfinu, ekki síst meiri hlutans, hefði ég óskað eftir því að hann svaraði því hvort til stæði að gera eitthvað með þessar athugasemdir landbn.

(Forseti (GÁ): Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er í húsinu og á næstu grösum.)

Á næstu grösum, já. Það er mikið gott að vita að hann sé á grösum. (Gripið fram í: Er verið að ræða landbúnaðarmál?) Já. Ég hefði líka viljað heyra hvað hæstv. landbrh. hefur að segja um þennan mismun sem er á meðferð einstakra þátta sem heyra undir landbúnaðinn, af hverju Stofnlánadeildin er skert varanlega en ákvæði um búfjárrækt og jarðrækt ekki, án þess að ég sé að mæla með því eða óska eftir því að svo sé gert. En það vekur athygli að þarna er ekki eitt látið yfir alla ganga innan sama málaflokksins og mér sýnast röksemdir hæstv. ríkisstjórnar í krossferðinni miklu gegn sjálfvirkni verða pínulítið götóttar þegar betur er að gáð. Í einstökum tilvikum hafa fengið að læðast með óskert nema innan eins árs þau sjálfvirkniákvæði sem annars staðar eru mönnum svo mikill þyrnir í augum.

Herra forseti. Þá er í þriðja lagi komið að málefnum á sviði sjútvn. Það eru 11. til og með 16. gr. í frv. Ég tek það fram að ég óska eftir því að hæstv. sjútvrh. sé hér til skrafs og ráðagerðar við okkur. 11. gr. varðar breytingu á lögum um Fiskveiðasjóð Íslands, þ.e. að c- og d-liður 3. gr. laga um Fiskveiðasjóð falli brott. Þessi ákvæði munu lúta að framlagi ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs sem að vísu hefur ekki verið fyrir hendi á undanförnum árum og þar af leiðandi hefur sú lagagrein í reynd verið óvirk. Hér er hins vegar lagt til að þetta sé fellt niður með þessum hætti varanlega og við það gerum við athugasemdir. Hér er að vísu um lágt gjald að ræða sem er gamall arfur frá fyrri tíð þegar sjóðamálum sjávarútvegsins var skipað með öðrum hætti. Það er þess vegna ekki af þeim ástæðum þörf á að hafa um þetta mörg orð eða gera út af þessu mikið veður. En tilefni þess að við leggjumst sérstaklega gegn þessu og vekjum athygli á þessu ákvæði er líka það að varað hefur verið við því af aðilum sem komu til fundar við sjútvn., eins og fram kemur í nál. hennar, að óskynsamlegt kunni að vera að hrófla við ákvæðum laga um Fiskveiðasjóð einmitt eins og nú stendur á. Eins og hæstv. forseti veit hafa verið uppi umræður um að breyta stöðu þessara sjóða, jafnvel að gera þá að hlutafélögunum eða einkavæða þá. Það liggur í loftinu að verði slíkt gert með Fiskveiðasjóð getur komið upp deila um það hver sé hinn raunverulegi eigandi sjóðsins. Það er alveg ljóst að sjávarútvegurinn telur sig í reynd eiga sjóðsinn en sjóðurinn hefur verið ríkisfyrirbæri sem slíkt og var stofnað til hans sem slíks. Hann naut mjög lengi ríkisábyrgðar á lántökum sínum og inn í sjóðinn gengu þessi ákvæði um framlög ríkisins þannig að fyrir því eru auðvitað sögulega mörg sterk rök að ríkið geti átt þarna hagsmuna að gæta. Það má spyrja hvort að það sé þá skynsamlegt, ef þessar breytingar standa fyrir dyrum, að vera að hrófla við þessu lagaákvæði. Það hefur í sjálfu sér ekkert upp á sig. Hér er í fyrsta lagi svo lág upphæð á ferðinni að jafnvel þótt hún kæmi til greiðslu breytir það afar litlu. Í öðru lagi mætti ganga frá þessu með svipuðum hætti og gert hefur verið undanfarin ár ef menn vildu upphefja ákvæðið um framlag ríkissjóðs, þ.e. að gera það með ,,þrátt-fyrir``-ákvæði.

Í 12. til og með 14. gr. er fjallað um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Um það efni segir minni hlutinn í nál. sínu að hann sjái ekki ástæðu til að leggjast efnislega gegn þeim þáttum, það megi færa fyrir því ákveðin rök að þar sé um eðlilega samræmingu á gjaldtöku að ræða þar sem að veiðieftirlitsgjald er nú lagt á aðrar greinar í sjávarútvegi. Þess vegna má spyrja hvort ekki sé eðlilegt að smábátar sem stunda veiðar með línu og handfærum með dagtakmörkunum, þ.e. krókabátar, borgi slíkt gjald. Þar er einnig undir sá afli sem til kemur vegna tvöföldunar á línuveiðum yfir vetrarmánuðina, nóvember, desember, janúar og febrúar, en þá er bátum sem sækja með línu heimilt að tvöfalda afla sinn innan aflamarks. Hitt er svo annað mál að afgreiðsla þessara ákvæða nú skiptir í sjálfu sér engum sköpum um tekjur vegna þess að það á ekki að koma til gjaldtaka á grundvelli þessara ákvæða fyrr en við upphaf næsta fiskveiðiárs, 1. september á næsta ári. Þar af leiðandi nemur þessi innheimta afar óverulegum upphæðum fyrir fjárlagaárið sem í hönd fer. Nægur tími hefði verið til stefnu til að lögfesta slíkar breytingar á vorþinginu. En við í minni hluta sjútvn. leggjumst sem sagt ekki gegn þessum breytingum. Við teljum þær ekki skipta þeim sköpum og auk þess megi færa fyrir þeim ákveðin sanngirnisrök.

Það er hins vegar rétt að nefna, þar sem gjaldtöku af þessu tagi ber á annað borð á góma, að á það er minnt í nál. minni hluta sjútvn. að smábátar greiða uppistöðuna af því sem greitt er vegna vegna útgáfu veiðileyfa af þeirri einföldu ástæðu að þar er um fast gjald á hvert fiskiskip að ræða, 12.500 kr. ef ég man rétt vegna útgáfu hvers veiðileyfis. Og það er lagt jafnt á lítil skip sem stór og þegar fjöldinn er hafður í huga liggur í hlutarins eðli að uppistaðan af þeirri gjaldtekju lendir á smábátum og bátum. Um 75% af öllum tekjum sem ríkið fær vegna útgáfu veiðileyfa koma frá smábátaútveginum. Þannig mætti færa rök fyrir því að gjaldtakan þar væri nú þegar fyrir hendi og allríkuleg. Að því leyti væri ekki ósanngjarnt að hlífa smábátunum áfram við þessu veiðieftirlitsgjaldi.

Greinar 15 og 16 fjalla um breytingar á lögum um Fiskistofu og lögum um reikningaskrifstofu sjávarútvegsins. Um þetta mál hefur talsvert verið fjallað. Við áteljum það í minni hlutanum hvernig staðið er að þessum málum að það skuli vera án nokkurs samkomulags lagt til að breyta einhliða þeim samskiptum sem í gildi hafa verið milli Fiskifélags Íslands annars vegar og Fiskistofu og sjútvrn. hins vegar. Við teljum að eðlilegra hefði verið að þessir aðilar hefðu reynt að leysa sín mál með samkomulagi og síðan hefðu lagabreytingar, ef efni stæðu til, verið bornar inn í þingið í formi frumvarpa. Það er því okkar afstaða eins og fram kemur á breytingartillöguskjali að þessar greinar falli brott. Ég tek það fram, herra forseti, að minni hlutinn hefur flutt breytingartillögur á þskj. 444 og félagar mínir í efh.- og viðskn. munu gera nánari grein fyrir þeim síðar í umræðunni. Ég vil benda mönnum á að hafa þær til hliðsjónar eftir því sem ég fer í gegnum einstaka efnisþætti.

Herra forseti. Þá er komið að 17. gr., hvorki meira né minna en kirkjubyggingasjóði. Þar er það ákvæði á ferð að ríkissjóður skuli veita fé til kirkjubyggingasjóðs eftir því sem ákveðið er á fjárlögum hverju sinni. Þarna er sem sagt um varanlegt skerðingarákvæði að ræða en þetta framlag hefur verið skert eða fellt niður með sérstöku tímabundnu ákvæði nokkur undanfarin ár. Þar af leiðandi er ekki mjög mikið um það mál að segja fyrir utan þetta sem gildir um sambærilegar breytingar að við gagnrýnum formið sem hér er viðhaft. Að öðru leyti er ræðumaður tiltölulega ófróður um málefni kirkjubyggingasjóðs og treystir sér ekki í djúpar umræður um það mál hafandi ekki meiri gögn undir höndum en raun ber vitni. En að sjálfsögðu væri ástæða til þess að fyrir lægju efnislegar forsendur um það hvernig sjóðurinn er á vegi staddur og búinn undir það að mæta þessum skerðingum.

Þá er komið, herra forseti, að 18. gr. eða í raun og veru 18.--20. gr. sem er um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Hér er á ferðinni, eins og segir í nefndaráliti minni hlutans, fádæma lágkúra af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það er í raun og veru ekki hægt að gefa þessu nokkurt annað nafn en þetta, fádæma lágkúra. Á síðasta þingi tókst mjög góð samstaða um afgreiðslu laga sem fólu í sér ótvíræða og löngu tímabæra réttarbót að þessu leyti, þ.e. að ríkið gangist í ábyrgð fyrir greiðslum bóta til þolenda afbrota. Fólk sem orðið hefði fyrir líkamstjóni, líkamsárásum eða miska af ýmsum toga og fengi loksins eftir langa mæðu dæmdar bætur þyrfti þá ekki að sæta því að fá bætur ekki greiddar eins og raunin hefur verið undanfarin ár í mörgum eða jafnvel flestum tilvikum vegna þess að ekki hefur náðst til þess sem brotið fremur eða þá að hann er ekki borgunarmaður fyrir bótum.

Það þarf ekki að fjölyrða um það hvernig aðstæður slíkra þolenda eru oft og tíðum, hversu viðkvæm þau mál eru og erfið og sárt að þurfa að ýfa þau upp með því að standa í langvinnum málarekstri til að ná rétti sínum ef það bætist svo við að þær bætur sem mönnum eru loksins gert að greiða fást ekki greiddar. Ég tel því að það sé í fullu samræmi við þá samfélagslegu ábyrgð á velferð þegnanna, sem við viljum trúa að enn sé við lýði í landinu, að ríkissjóður gangist þarna í ábyrgð og um það varð að lokum gott samkomulag. Lög voru afgreidd um það mál á síðasta vetri og áttu að ganga í gildi nú um áramótin og verða afturvirk þannig að bætur frá síðustu þremur árum eða svo fengjust jafnframt greiddar.

Ég tek það fram að hér er þrátt fyrir allt ekki á ferðinni ýkjamkið stórmál hvað útgjöld snertir. Að vísu er það svo að vegna afturvirkni laganna er þar um nokkra uppsöfnun að ræða. Það mun kosta 60--80 millj. kr. að lögin gildi óskert á fyrsta ári en síðan mun lægri upphæð eftir það. Ég minni á, herra forseti, að þessi lög eru ekki einu sinni eins árs gömul.

Hvað gerist þá? Þarna finnur hæstv. ríkisstjórn allt í einu tilefni til að bregða niðurskurðarhnífnum á loft og rústa þessum lögum meira og minna áður en þau ná því að verða árs gömul og áður en þau komast til framkvæmda. Þetta er auðvitað sérlega harkalegt í ljósi þess að nú hafa fjölmargir einstaklingar frá og með því að lögin voru sett á Alþingi á síðasta vetri beðið þess með óþreyju að þau gengju í gildi þannig að það geti náð rétti sínum og fengið sínar bætur greiddar. Það gefur auga leið að þessi skerðingartillaga raskar mjög öllum forsendum fólks sem bundið hefur vonir við að sjá loksins úrlausn mála sinna nálgast í formi þessara laga.

Herra forseti. Það þarf heldur ekki að hafa mörg orð um það hversu aumingjalegt Alþingi er í raun og veru gagnvart þessu máli ef það lætur það yfir sig ganga. Eitt af dagblöðum landsins skrifar einmitt leiðara um það, annaðhvort í morgun eða gær. Er það virkilega svo að við getum látið bjóða okkur málsmeðferð af því tagi að lög um tilteknar réttarbætur og úrbætur í samfélagi okkar sem alger samstaða er um og eru afgreidd fyrir nokkrum mánuðum séu eyðilögð á sama ári og það áður en þau ná að koma til framkvæmda? Hvað er orðið um metnaðinn í þessari stofnun, Alþingi Íslendinga, ef menn láta þetta yfir sig ganga? Hvar eru einstakir hv. þm. meiri hlutans á vegi staddir ef þeir láta ráðherra sína og ríkisstjórn komast upp með slíka hluti? Ég trúi því ekki enn, herra forseti, að þetta nái svona fram að ganga. Ég tel að hér dugi í raun og veru engar minni háttar lagfæringar. Málið snýst um það að lögin fái að gilda óskert eða ekki. Það má segja að fyrir því séu ákveðin rök að fyrsta árið sem lögin gilda verði nokkuð útgjaldasamt borið saman við kostnað af þeim þegar frá líður vegna uppsöfnunar bóta frá undanförnum árum. Gera mætti áætlun um að jafna út með einhverjum tilteknum hætti útgjöld vegna laganna t.d. tvö eða þrjú fyrstu gildistímaárin. Það mætti hugsa sér ýmsar aðferðir í því sambandi og með því að vaxtareikna bætur og annað því um líkt mætti að mínu mati ná brúklegri lendingu í þeim efnum, a.m.k. mun skárri lendingu en þeirri að eyðileggja lögin strax í fæðingu. Af tvennu illu fyndist mér jafnvel skárra að gildistökunni yrði eitthvað frestað heldur en lögin sem slík væru gerð nánast ónýt til frambúðar áður en þau ganga í gildi. Ég skora því á menn að taka þessa hluti betur til skoðunar. Nú veit ég að vísu að þetta er eitt af þeim málum sem hv. efh.- og viðskn. hefur reiknað með að fjalla betur um milli 2. og 3. umr. Það stafar væntanlega af því að hv. stjórnarliðum er þrátt fyrir allt nokkuð órótt yfir því sem hér er að gerast. Mönnum sem m.a. áttu aðild að því að afgreiða málið á síðasta þingi eða hafa staðið að flutningi þingmála á undanförnum árum sem tengdust því að ná fram þessari réttarbót, er auðvitað svolítið ómótt vegna þessa máls, það skilur maður vel. Vonandi dugar það þá til þess að menn manni sig upp í að láta ekki þetta tiltölulega litla útgjaldamál verða að ásteytingarsteini.

Það er ömurlegt ef við Íslendingar erum orðnir svo fátækir að réttarbót af þessu tagi, sem á þó ekki að kosta meira en fáeina tugi milljóna þegar jafnvægi er komið á í kerfinu, nær ekki fram að ganga sökum þess að menn telja sig ekki hafa efni á því. Er þetta þolendahópur sem sanngjarnt er að svipta þeim rétti sem þarna er verið að koma til skila? Og er þá ekki horft fram hjá því að stærsta tjónið og mesta miskann er aldrei hægt að bæta? Þar á ég við það líkams- og heilsutjón og þau andlegu áföll sem oft tengjast afbrotunum þeim sem hér eiga í hlut. Ég læt lokið umfjöllun um 18.--20. gr., herra forseti. Mér býður líka í grun að fleiri geti lagt hönd á plóginn við að rökræða þetta mál.

Í 21. gr. er enn á ferðinni mál sem heyrir undir hæstv. dómsmrh. Hún fjallar um að fella niður eða leggja niður tvö sýslumannsembætti í landinu, þ.e. sýslumannsembættin í Bolungarvík og á Ólafsfirði. Þetta atriði hafði verið gagnrýnt. M.a. var spurt um rök fyrir því að tína út úr þessi tvö atriði sérstaklega og níðast á þeim en ekki taka þá þessi mál í heild sinni til einhverrar samfelldrar skoðunar. Nú hefur meiri hlutinn fallist á þessar röksemdir og er fallinn frá því að leggja niður þessi embætti. Gert er ráð fyrir því að lög um skipan landsins í sýslumannsumdæmi gildi óbreytt á næsta ári en boðuð er einhvers konar heildarendurskoðun á þeim málum. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert því að auðvitað er sjálfsagt að leita hagræðingar í þessum málaflokki eins og öðrum. En þá hlýtur að koma til greina að skoða málið í einhverju öðru samhengi en því að velja úr tvö tiltekin sýslumannsembætti og leggja þau niður en halda öllu öðru óbreyttu. Það er t.d. spurning hvort ekki mætti þá líta aðeins á kjördæmi hæstv. dómsmrh. þar sem aðstæður eru að ýmsu leyti þægilegar, samgöngur góðar og láglent og greiðfært yfirferðar. Þar gæti hugsanlega komið til mála að sameina einhver sýslumannsembætti ef menn eru að þessu á annað borð. En af einhverjum ástæðum hafði hæstv. ráðherra ekki séð neitt grand í því að hrófla við þessum hlutum á Suðurlandi þótt hann gæti hugsað sér að leggja til hagræðingu í fjarlægum landshlutum.

Ég vona sem sagt að þetta sé til marks um það að menn ætli að reyna að ná áttum í þessum efnum og vanda betur til vinnubragða verði á annað borð farið á flot með þetta aftur á nýju ári.

Herra forseti. Þá er komið að 22. og 23. gr. frv. Þar eru á ferðinni ákvæði úr tvennum lögum sem varða málefni fatlaðra. Það er í fyrra lagi breyting á lögum um málefni fatlaðra sem varðar meðferð ráðstöfunarfjár Framkvæmdasjóðs fatlaðra á árinu 1996 og í seinna tilvikinu er um að ræða ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila með síðari breytingum. Þá mun hæstv. félmrh. að sjálfsögðu vera hér viðstaddur. (Félmrh.: Hann er hér.)

[15:30]

Varðandi fyrra ákvæðið vekur það athygli að þar er ekki lögð til varanleg breyting á lögunum um Framkvæmdasjóð fatlaðra heldur gildir það tímabundið fyrir árið 1996, þrátt fyrir ákvæði gagnvart 40. gr. laganna um að verja megi allt að 40% ráðstöfunarfé til tiltekinna rekstrarverkefna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra á því ári. Þetta er kunnuglegt ákvæði og væri ekki út af fyrir sig tilefni af okkar hálfu í minni hlutanum til að gera við þetta miklar athugasemdir aðrar en þær að vara við þeirri þróun sem þarna er á ferðinni, að menn eru að taka sífellt meira af þessu fé til rekstrar og minna til uppbyggingar en það er því miður ekki því að heilsa að þeim málum sé alls staðar lokið eða þeim málum sé komið í gott horf.

Hitt er alveg sérstaklega ámælisvert sem lagt er til í 23. gr. frv. en það er, herra forseti, að þrátt fyrir ákvæði laganna um erfðafjárskatt, sem gerir ráð fyrir honum sem tekjustofni fyrir þennan málaflokk, skulu allar tekjur af erfðafé umfram 257 millj. kr. á næsta ári renna í ríkissjóð. Hér er um að ræða stórfellda upptöku ríkissjóðs á þessum tekjum málaflokksins Fatlaðir. Það munu vera um 133 millj. kr. sem renna í ríkissjóð á næsta ári samkvæmt tekjuáætlun Framkvæmdasjóð fatlaðra sem lögð var fram í efh.- og viðskn. og var ætlunin að yrði í fylgiskjölum. Við höfum ekki flett því nógu vandlega hvort svo er en ég get þó a.m.k. upplýst að sú tekjuáætlun er nokkuð sérkennileg.

Hún byggir á því að tvær upphæðir upp á 80 millj. kr. renni í sjóðinn á næsta ári og framlög erfðafjárskatts séu skert sem því nemur, þ.e. að inneign Framkvæmdasjóðs fatlaðra frá fyrra ári eða tekjur umfram áætlun upp á 80 millj. kr. verði notaðar á árinu 1996 til að lækka framlögin sem því nemur með skerðingu í ríkissjóð. Það sem er þó verra að mínu mati er það að það sama á að gera við söluhagnað af Sólborg, nokkurn veginn upp á krónu, þ.e. að 80 millj. kr. tekjur sem málaflokkurinn fær vegna sölu eignanna á Sólborg verði látnar standa undir rekstri og framkvæmdum hjá sjóðnum á næsta ári en ríkisframlagið eða tekjustofn sjóðsins skertur í ríkissjóð um sömu upphæð. Ég spyr hæstv. félmrh. hvort hann sé ekki með neitt samviskubit út af þessari málsmeðferð og satt best að segja ætlaði ég ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég sá hvernig hér væri í pottinn búið, hvernig fjárhagsáætlun framkvæmdasjóðins var sett upp á næsta ári vegna þess, herra forseti, að Sólborg var sjálfseignarstofnun í byrjun og reist að mestu leyti fyrir gjafafé, áheitafé, safnanir og sjálfsaflafé. Ég er ekki viss um að það fólk sem gaf jafnvel heilu íbúðirnar á sínum tíma til þess að byggja upp þessa aðstöðu fyrir fatlaða á Norðurlandi hafi ætlast til þess að í fyllingu tímans yrði henni stolið af ríkinu með þessum hætti. Ég held ekki, herra forseti. Úr því að fallist var á það á annað borð að afhenda eignir Sólborgar með þeim hætti sem gert var er algert lágmark að þær renni saman við rekstur svæðisskrifstofu málefna fatlaðra og inn í málaflokkinn sem slíkan. Þegar að því kemur að þær ganga undan þessum málaflokki og eru seldar á það fé að renna til einhverrar nýrrar viðbótaruppbyggingar á þessu málefnasviði. Það liggur alveg í hlutarins eðli að ef það er ekki gert þá er verið að gera þetta gjafafé upptækt og það er að mínu mati mjög ámælisvert siðferðislega að standa þannig að málum. Með þessari skerðingu er ríkissjóður að hirða þessa eign sem var eins og ég sagði áðan að miklu leyti byggð upp fyrir samskot, gjafir og áheit. Ég veit ekki hver verður málsvörn hæstv. félmrh. í þessum efnum. Maður þekkir auðvitað hið hefðbundna, klassíska hugarfar fjmrh. sem er á höttum eftir peningum alls staðar og skiptir yfirleitt ekki máli hvaðan er tekið í hvert eitt skiptið. Ég þekki nokkuð til mála í þessu tilviki og verð að segja eins og er að mér þykir ákaflega sárt að sjá þetta meðhöndlað svona og dapurlegt og ég hefði einhvern tíma ekki trúað því að mönnum dytti þetta í hug eins og í pottinn er búið með þessi mál.

Herra forseti. Ég held að ég láti þetta að mestu leyti duga um þann málaflokk sem snýr að málefnum fatlaðra. Þessi hópur fær glaðninginn frá hæstv. ríkisstjórn á fjölmörgum stöðum í frv. fyrir utan þetta sem hér er á ferðinni. Umfjöllun um málefni Framkvæmdasjóðs fatlaðra er sérlega ósanngjörn og skerðingar af ýmsu tagi bitna á öryrkjum og öðrum slíkum hópum í þessu frv.

Herra forseti. Næst verða fyrir okkur ákvæði um Bjargráðasjóð í 24. gr. Þar er á ferðinni að gera tiltölulega hefðbundið ,,þrátt-fyrir``-ákvæði varanlegt og vísast til þess sem áður hefur verið sagt í sambærilegum tilvikum um þau mál.

Herra forseti. Næst koma breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar með síðari breytingum í 25.--29. gr. Þetta er stórmál og grundvallarbreyting og hefði að sjálfsögðu átt að meðhöndla það í sjálfstæðu frv. sem nægur tími hefði gefist til að fjalla um á Alþingi. Það sem hér er á ferðinni er að annars vegar eru tekin út í 25. og 27. gr. ákvæðin um bein framlög ríkissjóðs inn í Atvinnuleysistryggingasjóð og hins vegar er í 28. gr. aftengd eða afnumin sú viðmiðun atvinnuleysisbóta við launaþróun sem verið hefur í gildi um langt árabil.

Þá er komið að þeirri grundvallarkerfisbreytingu sem einna mestur ágreiningur er um í tengslum við þetta mál og á það bæði við um efnið sjálft, innihaldið í þessu, sem við erum ósammála en þó ekki síður formið og aðferðina sem hér á að viðhafa við að gera róttæka grundvallarbreytingu á einni af máttarstoðum og undirstöðum velferðarkerfisins í landinu.

Herra forseti. Þau rök sem hæstv. ríkisstjórn hefur fært fram í þessum efnum að verið sé að afnema skaðlega vísitölutengingu eða sjálfvirkni sem sé til óþurftar í málum af þessu tagi standast ekki þegar betur er að gáð nema það sé orðin sjálfvirkni í hugum hæstv. ríkisstjórnar að menn skuli yfirleitt fá að semja um kaup og kjör og bæta kjör sín. Auðvitað má segja að það sé ákveðið form af sjálfvirkni að verkalýðshreyfingin skuli hafa samningsrétt og hún skuli þar af leiðandi geta barist fyrir því að launin þróist í takt í grófum dráttum við verðmætasköpun í landinu. Það er þá ákveðin sjálfvirkni en það er þá um slíka sjálfvirkni að ræða því að auðvitað er það ekki sjálfvirkni eða einhver ósanngjörn tilhögun í þjóðfélaginu að lífskjör ákveðins hóps sem þarf á stuðningi að halda vegna tímabundinna erfiðleika, sem er sá að missa atvinnu sína, taki mið af öðrum lífskjörum í landinu. Vilja menn hafa þetta einhvern veginn öðruvísi? Vilja menn hafa einhverjar reglur í gangi sem tryggja það að þegar t.d. lífskjör batna í landinu fái sumir hópar ekki að njóta þess bata? Það er það sem menn eru að segja. Við viljum ekki að lífskjör atvinnulausra, ellilífeyrisþega eða öryrkja þróist í takt við annarra í landinu. Við viljum a.m.k. hafa frelsi til þess að láta þetta vera einhvern veginn öðruvísi. Væri svo sem í lagi að fyrir lægi yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar um að þeir vildu losa um þessi tengsl og þessa viðmiðun til þess að hækka atvinnuleysisbætur og ellilífeyri vegna þess að þeir teldu þá hópa búa við of slök kjör svo að ekki sé minnst á öryrkja sem eiga að mörgu leyti einna erfiðast í þessu sambandi. En því er ekki aldeilis að heilsa, herra forseti, vegna þess að yfirlýstur tilgangur strax á fyrsta ári þessara breytinga samkvæmt fjárlagafrv. var sá að skerða bæturnar og það þurfti að berja ríkisstjórnina til þess í tengslum við framlengingu kjarasamninga að hækka þessa liði þannig að lífskjör þessara hópa þróuðust í takt við kjör annarra launamanna í landinu á næsta ári. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það hvað vakti fyrir hæstv. ríkisstjórn. Hún ætlaði að afnema þessa tenginu, þetta öryggisnet undir velferðarkerfinu til þess að skerða lífskjör þessara hópa sérstaklega. Eru menn eitthvað hissa á því þó að þetta verði að pólitísku átakamáli? Það væri eitthvað illa komið ef enginn nennti að vakna til meðvitundar út af málum af þessu tagi, segi ég bara og kosti það það sem það kosta vill.

Málið verður enn sérkennilegra þegar það liggur alveg fyrir að vegna þess að það tókst að knýja ríkisstjórnina til að hækka grunnfjárhæðir atvinnuleysisbóta og ellilífeyris þannig að þær taki tilteknum breytingum og tiltekin viðmiðunarlaun um áramótin skiptir þetta atriði ekki lengur máli í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Það er í raun orðið þeim óviðkomandi vegna þess að þær bótafjárhæðir sem nú hafa verið ákveðnar yrðu í grófum dráttum eins þó að viðmiðunarákvæðin héldust í lögum. Hver er þá orðin réttlætingin fyrir því að vera með þetta inn í þessu frv.? Hún er engin. Hér er í fyrsta lagi um varanlega breytingu að ræða sem hefur ekki verið venjan að hafa í bandormum eða lánsfjárlögum og hér er í öðru lagi um að ræða pólitíska breytingu sem er ekki tengd afgreiðslu fjárlaga. Það eru ekki heldur þau rök þannig að í tvöföldum skilningi er mjög óeðlilegt að hæstv. ríkisstjórn sé að halda því til streitu að hafa þessi ákvæði þarna inni.

Herra forseti. Ég vil svo að síðustu um þennan þátt málsins gera eitt enn að umtalsefni og það er að ég óttast það mjög að menn séu að halda út á mjög ógæfulega braut í samskiptum þessara aðila í þjóðfélaginu, að þetta kalli á árviss illindi og átök um ákvörðun þessara bótaliða. Í staðinn fyrir að um þetta hefur ríkt þokkaleg sátt undanfarin ár vegna þess að ákvæði laganna hafa sjálfkrafa tryggt að lífskjör þessara hópa þróuðust í takt við það sem gerist í þjóðfélaginu. Þá hefur verið um þetta sæmilegur friður og það hefur ekki þurft að standa í deilum við afgreiðslu fjárlaga í hvert skipti um það hverjar atvinnuleysisbætur skyldu verða á næsta ári eða elli- og örorkulífeyrir vegna þess að það mál hefur verið leitt til lykta sjálfkrafa með tiltekinni viðmiðun. Eru menn virkilega að biðja um það ástand að um þetta verði átök á hverju einasta ári, að það verði núningur og deilur um þetta í hvert einasta skipti eða hvað eru menn að fara fram á? Sumir segja að það sem er hér að gerast sé það að hæstv. forsrh. vilji fá gildari skiptimynt í sambandi við kjarasamningagerð í þjóðfélaginu á komandi árum. Hæstv. ráðherra hafi áttað sig á því að stundum er hægt að kaupa framlengingu á kjarasamningum með því að bæta aðeins í atvinnuleysisbætur, ellilífeyri o.s.frv. og þess vegna þyki mönnum þægilegra af tæknilegum átæðum að hafa þetta þannig að þeir hafi þetta í hendinni í hvert skipti og geti þá notað það sem gulrót að skammta lífskjör þessara hópa í þjóðfélaginu í tengslum við einhverjar slíkar æfingar á vinnumarkaði eða í ríkisfjármálum.

[15:45]

Þetta finnst mér, herra forseti, heldur ógeðfelldur hugsunarháttur svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þetta er ógeðfelldur hugsunarháttur og ógæfuleg breyting sem hér er farið út í. Ég spái illa fyrir þessum breytingum. Ég spái því að þær geti ekki haft annað í för með sér en það að þeir hópar sem hér eigi í hlut reyni að þétta raðirnar og reyni að mynda hagsmunasamtök til að berjast fyrir sínum kjörum. Þeir eiga í raun og veru engan annan kost ef þessi breyting verður gerð. Finnst okkur það þá líka æskileg þróun að samtök fatlaðra og félög aldraðra þurfi að breytast í hálfgerð stéttarfélög, úr þeim tiltölulega faglegu baráttusamtökum sem þau hafa verið sem fyrst og fremst hafa staðið vaktina í sambandi við ýmis réttindamál og umbótamál varðandi aðstæður síns fólks. Það hlýtur að vera það sem gerist vegna þess að það sem blasir við þessum hópum er þá bara grímulaus hagsmunabarátta, launabarátta, lífskjarabarátta á hverju einasta ári. Það kemur auðvitað að því að lokum að menn spyrja: Verða þá ekki þessir aðilar bara að fá samningsrétt gagnvart ríkinu hvernig sem hann yrði útfærður? Nei, herra forseti. Ég held að þetta sé heldur ógæfulegt og ég blæs á einhver málamyndarök um að með þessu vinnist eitthvað í sambandi við afnám einhverrar sjálfvirkni. Sjálfvirkni hvað? Hvaða sjálfvirkni er það að þegar búið er að semja um kjarabætur á almennum vinnumarkaði, þá þróist lífskjör þessara hópa í takt við það? Það er bara rugl. Ef forsendur eru fyrir þessum kjarabótum í þjóðfélaginu eða breytingum á launasummunni, hljóta að vera sams konar forsendur fyrir því að þessir hópar njóti þess.

Að síðustu vil ég líka segja það, herra forseti, að ef menn telja vandann í sambandi við atvinnuleysisbæturnar vera að viðmiðunin sé óheppileg, er hægt að breyta því sem sjálfstæðu máli án þess að rjúfa þessa tengingu eða þetta samhengi hlutanna. Sumir segja að það sé ekki skynsamlegt að atvinnuleysisbætur taki mið af einum tilteknum launataxta fiskvinnslufólks eins og þetta mun vera. Það geti leitt til þess t.d. að í kjarasamningum komi upp sú tilhneiging að reyna að halda akkúrat þessum taxta niðri vegna þess að í takt við hann verða mikil útgjöld í samfélaginu. Þá segi ég einfaldlega: Þá skulum við breyta því. Þá skulum við finna aðra og breiðari viðmiðun, t.d. taka meðaltal af mörgum kauptöxtum eða gera það með einhverjum öðrum hætti meira í takt við það sem er með elli- og örorkulífeyrinn þannig að það sé í grófum dráttum einhver almenn launavísitala sem miðað sé við. Þetta er tæknilegt mál, útfærsluatriði sem engin vandi er að leysa með öðrum hætti en þeim að fórna þessu samhengi hlutanna.

Herra forseti. Ég ítreka enn og aftur mótmæli okkar við því hvernig hæstv. ríkisstjórn er að standa að málum. Það er alveg ömurlegt ef það er rétt að hæstv. forsrh. sé meira og minna einn sem minni hluti að kúga þingið í þessum efnum því að sú saga flýgur fyrir að hv. stjórnarliðum mörgum þyki mjög slæmt að þurfa að standa að þessum breytingum. En þeir reisa ekki rönd við ofurefli hæstv. forsrh. sem heimtar að þetta verði svona og standi svona í frv. hvað sem tautar og raular jafnvel þó að það sé hætt að hafa nokkurt útgjaldagildi eða nein praktísk áhrif í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Þar er sko sannarlega minni hluti að kúga meiri hlutann ef hæstv. forsrh. einn sem er einn sextugasti og þriðji af þinginu kúgar alla hina sextíu og tvo. Að vísu flaug sú saga fyrir í nótt að hæstv. utanrrh. hefði að einhverju leytið hlaupið undir bagga með hæstv. forsrh. og kemur svo sem ekki á óvart þó að Framsókn birtist í því gervi hér en hún er eins og kunnugt er í einu allsherjarhjálparkokkshlutverki með íhaldinu um þessar mundir.

Þá, herra forseti, næst að breytingu á lögum um almannatryggingar, greinum 30 til og með 36. Þar get ég mjög stytt mál mitt vegna þess að flestar þær röksemdir sem ég hef fært gegn breytingu á viðmiðunum atvinnuleysisbóta eiga hér einnig við og í raun og veru allar að því undanskildu að það er rétt að hafa í huga að viðmiðunin er nokkuð önnur samkvæmt almannatryggingalögunum heldur en í lögunum um atvinnuleysistryggingar. Við erum að sjálfsögðu algerlega andvíg þessari breytingu á högum elli- og örorkulífeyrisþega. Það má segja að hún sé enn þá víðtækari árás á mikilvæga undirstöðu velferðarkerfisins en breytingin á atvinnuleysisbótunum því að vonandi verður það svo í framtíðinni að atvinnulausir verða færri en þessi stóri hópur sem þarna á réttindi samkvæmt lögum um almannatryggingar í heild sinni. Þar af leiðandi er þetta breyting sem snertir enn þá fleiri. Þegar talsmenn Samtaka aldraðra á höfuðborgarsvæðinu komu til efh.- og viðskn. lögðu þeir áherslu á eitt í sambandi við þetta mál sem ástæða er til að minna á. Það er öryggisleysið sem þessum breytingum fylgir fyrir gamalt fólk. Við þekkjum það væntanlega að eitt af því sem getur verið erfitt í sambandi við ellina er það að menn geta farið að kvíða hlutum sem áður hefðu kannski ekki vaxið mönnum mjög í augum. Öryggið, m.a. um afkomu, skiptir menn æ meira máli til þess að geta eytt ævikvöldinu áhyggjulaust. Og það má segja að þrátt fyrir deilur um það hvort lífskjör þessa hóps, ellilífeyririnn sem slíkur sé fullnægjandi, þá hafa menn a.m.k. búið við öryggi að því leyti til að þeir vissu að þeir fengju hann og hann mundi þróast í grófum dráttum í takt við verðlagsbreytingar og launabreytingar. Þetta öryggi á nú að svipta þennan fjölmenna hóp. Ég skil mjög vel og ég held að það sé alveg hárrétt mat hjá forustumönnum aldraðra að þetta sé ekki hvað síst áhyggjuefni í sambandi við þessa breytingu, til viðbótar áhyggjum af því að þetta verði síðan notað til þess að skerða lífskjör með beinum hætti á næstu árum eins og til stóð með fjárlagafrv.

Þá er líka rétt að hafa í huga að ríkið og almannatryggingakerfi þess er ekki eyland í þessum efnum. Það eru líka til hlutir sem heita sveitarfélög og framfærsluskylda þeirra og útgjöld til félagsmála. Hvað segir hæstv. félmrh. um samskipti sveitarfélaganna við ríkið í þessu sambandi? Veit hæstv. félmrh., sem gæti hugsanlega vitað það af ýmsum ástæðum, að útgjöld Reykjavíkurborgar til að mynda hafa þrefaldast á örskömmu árabili vegna félagsmálastofnunar? Þau stefna í að verða ef ég man rétt um 700 millj. kr. á þessu ári og skjólstæðingar félagsmálastofnunar hátt á fimmta þúsund. (Gripið fram í: Þar á meðal fullvinnandi fólk.) Þar á meðal að vísu fullvinnandi fólk. En einn stór hópur skjólstæðinga félagsmálastofnunar, hver er hann? Hann eru aldraðir í leiguhúsnæði. Það er óumdeilt að þeir öldruðu einstaklingar eða öldruð hjón sem ekki eiga sitt húsnæði af einhverjum ástæðum, eru ofurseld leigumarkaðnum og hafa ekki annað sér til framfærslu en bætur úr almannatryggingakerfinu, búa við mjög kröpp kjör. Úr þeim hópi er býsna algengt að fólk leiti til félagsmálastofnunar ósköp einfaldlega vegna þess að endar nái ekki saman. Þá er borgin oft að reyna að leysa vanda slíks fólks með því að útvega því ódýrara leiguhúsnæði o.s.frv.

Hvað er þá líklegt að gerist þegar ríkið með margvíslegum hætti skerðir kjör aldraðra eins og til stendur að gera nú með þessu frv. og fleirum? Hvað er líklegt að gerist með þennan hóp? Jú, hann lendir í auknum erfiðleikum og byrðarnar sem leggjast á sveitarfélögin í staðinn vaxa. Ég fullyrði það, herra forseti, að ríkið er meðvitað með skerðingum sínum í velferðarkerfinu að velta byrðunum yfir á sveitarfélögin. Hæstv. félmrh. ætti að verða maður til að koma upp og reyna að verja sveitarfélögin, a.m.k. mótmæla því að samskiptin gerist þannig að ríkið velti þarna byrðunum einhliða yfir á sveitarfélögin án nokkurs samráðs við þau. Það verður fróðlegt að vita hvort hæstv. félmrh. leggur það á sig og sinn skrokk að fara í ræðustólinn og gera grein fyrir viðhorfum sínum til þessara mála.

Eitt að lokum, herra forseti, vil ég segja við hæstv. heilbr.- og trmrh. Það er það að hæstv. ráðherra hefur mikið talað um endurskoðun almannatryggingalaga. Hæstv. ráðherra grípur oft til þess í erfiðleikum sínum t.d. í ræðustólnum en þeir eru nokkuð umtalsverðir. (ÁRJ: Til að stoppa góð mál.) Jafnvel til að stoppa góð mál grátbiður hún menn um að hafa skilning á því að þetta eða hitt eigi betur heima í endurskoðun almannatryggingalaganna og það sé betra að halda áfram að veita bílakaupalán á hæpnum lagagrundvelli og lagfæra svo það mál í endurskoðun almannatryggingalaganna. Og það sé ekki rétt að hrófla við þessu eða hinu af því að það eigi að endurskoða almannatryggingalögin. En hvar er endurskoðunin, hæstv. ráðherra, þegar kemur að þessari grundvallarbreytingu á almannatryggingalöggjöfinni, þeirri langviðamestu sem við höfum séð um langt árabil? Nei, þá er engin endurskoðun. Þá er ekki ástæða til þess að ónáða hina virðulegu endurskoðunarmenn með því að fjalla um þetta af því að þetta skiptir væntanlega engu máli eða hvað. Auðvitað er þetta alveg ótrúlegur málflutningur, herra forseti. Ef það er eitthvað sem ástæða er til að endurskoðunarnefndin taki til skoðunar, er það auðvitað grundvallarmál af þessu tagi. Hvernig á viðmiðunin að vera til frambúðar litið? Og ég leyfi mér að spyrja, herra forseti, er líklegt að fólk nenni að sitja í þessari endurskoðunarnefnd hjá hæstv. ráðherra? Ég segi fyrir mitt leyti, ekki mundi ég nenna því. Ef mér væri sýnd þvílík lítilsvirðing að ég sæti í stjórnskipaðri nefnd til að endurskoða löggjöf í einhverjum heildarmálaflokki af þessu tagi og svo tækju menn sig upp og gerðu grundvallarbreytingar á kerfinu sem kipptu að verulegu leyti öryggisnetinu undan þeim hópum sem þar eiga hlut að máli, held ég að ég nennti nú ekki að sitja þar yfir einhverju fokki. Það segi ég alveg eins og er. Þannig að ég spái illa, því miður, fyrir afrakstrinum af þessu endurskoðunarstarfi hæstv. ráðherra ef þessir hlutir eiga að birtast manni svona. Ég tel að það sé algert lágmark að þessum ákvæðum, 35. gr. sérstaklega, verði kippt út úr frv. og vísað til endurskoðunarnefndarinnar til umfjöllunar. Það er algjört lágmark. (ÁRJ: Algjört skilyrði.) Algjört skilyrði. Auðvitað á að fella þessar greinar í heild sinni niður. Þær þjóna engum tilgangi og eru fyrst og fremst mjög tortryggilegar, herra forseti, í ljósi þess sem á undan er rakið.

Það er rétt að minnast á 30. gr. sem felur í sér að taka á upp sérstaka fjármagnstekjutengingu við lífeyri fólks. Með því er óbeint verið að taka upp ígildi fjármagnstekjuskatts á aldraða sérstaklega. Það er auðvitað afar sérkennileg aðferð að byrja þar áður en nokkuð gerist í sambandi við skattlagningu fjármagnstekna almennt. Það er einkennileg röð á hlutunum að ríkisstjórnin skuli hafa fundið breiðu bökin þar sem fjármagnstekjur aldraðra eru. (JóhS: Brot á stjórnarskránni.) Þetta er auðvitað alveg púra mismunun og varðar við jafnræðis- og jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar um að þegnarnir skuli jafnt settir.

Auðvitað er það svo að hér er ekki um algerlega hliðstæða hluti að ræða. Það skulum við viðurkenna því að við viljum halda okkur við staðreyndir málsins (Gripið fram í: Sanngjarnt fólk.) hér í minni hlutanum. Við erum sanngjörn og réttsýn og viðurkennum það að tenging fjármagnstekna við bætur eru ekki alveg sambærilegur hlutur og skattlagning þeirra, en þó mjög hliðstæður. Og það hlýtur að koma til skoðunar að ef fjármagnstekjuskatti yrði komið á, yrðu aldraðir ekki látnir gera hvort tveggja, borga skatta af sínum fjármagnstekjum og missa svo bætur. Ég gef mér ekki að menn hafi hugarflug til þess. Til hvers er þá verið að þessu áður en fjármagnstekjuskatturinn kemst á sem almenn aðgerð í þjóðfélaginu? Það er engin sýnileg ástæða önnur en sú að ríkisstjórnin hefur ákveðið að krukka aðeins í kjör aldraðra. Það er engin önnur ástæða og ekkert ,,aðeins`` því að þetta er býsna veigamikið atriði.

[16:00]

Nú hefur meiri hlutinn í efh.- og viðskn. að vísu fallist á að þarna sé nokkuð langt gengið að tekjur samkvæmt þessum lið skuli metnar að 70% til skerðingar og leggur til í brtt. að þetta hlutfall verði lækkað í 50. Það gæti verið að það hafi verið vegna þess, herra forseti, að við óskuðum eftir að sérfróðir aðilar reiknuðu út dæmi um jaðaráhrif í þessu kerfi, ef tekjutengdri skerðingu yrði skellt ofan á allt annað. Niðurstöðuna höfum við hér í allþykku skjali sem sjálfsagt er að ljósrita og dreifa til þingmanna, ef þess er óskað. Við höfum undir höndum í efh.- og viðskn. að jaðaráhrifin í þessu kerfi eru frá bilinu 100% niður í 70--73% á algengu tekjubili. Það segir allt sem segja þarf um hvað þarna er að gerast. Verið er að frysta alveg gjörsamlega lífskjör þessara hópa við einhverja tiltekna tölu vegna þess að jaðaráhrifin eru orðin það nærri 100% að fyrir hverja krónu sem menn hafa í tekjur, vegna annarra launa eða af fjármagnstekjum, skerðast bætur nokkurn veginn sem því nemur. Það er algjörlega vonlaus staða. Menn eru dæmdir til að sitja þarna, frystir á einhverjum tilteknum lífskjörum, þegar jaðaráhrif í bóta- eða skattkerfinu eru komin þetta nálægt 100%. Þetta þurfa menn að hafa í huga. (Gripið fram í: Fólk í fyrirrúmi.) Já, þetta er sennilega að hafa fólk í fyrirrúmi à la Framsókn. Gamalt fólk í fyrirrúmi að hætti Framsóknar.

Herra forseti. Ég læt þá staðar numið umfjöllun um þann þátt sem snýr að almannatryggingunum. Þetta er sennilega þyngsta ágreiningsatriðið sem hér er til umfjöllunar af öllum, líka vegna samhengisins sem það er í. Hæstv. ríkisstjórn ræðst að öldruðum úr nánast öllum áttum í senn. Þetta er machiavellísk aðferð, að koma óvininum að óvörum og ráðast að honum úr öllum áttum í senn, þá verði varnirnar minnstar. Það er líklegt að einhver af herfræðingum ríkisstjórnarinnar hafi lesið Machiavelli sáluga og kynnt sér bardagalistina sem þar er upplögð. (JBH: ... enginn nema menntmrh.) Það kann að vera að það sé þá helst menntmrh. sem kunni eitthvað í þeim fræðum. (Gripið fram í: ... riddaraliðið.) Þetta er akkúrat sú herstjórnarlist: Koma óvininum að óvörum, segja honum alls ekki frá því fyrir fram hvað ætlast er fyrir, þ.e. að tala sem minnst um það fyrir kosningar hvað standi til, og ráðast síðan á hann úr öllum áttum í senn, þegar áhlaupið er gert. Það er nákvæmlega þetta sem á við um aldraða. Þeir eru sá einstaki hópur sem fær mestar skerðingar og íþyngjandi ráðstafanir eru gagnvart honum á fjölmörgum sviðum.

Í 37.--39. gr. er fjallað um eftirlaun aldraðra. Þar, herra forseti, eru á ferðinni breytingar sem tengjast nýsettum lögum um tryggingagjald og er ekki ástæða til að fara mörgum orðum um. Það leiðir af sjálfu að breyta þarf með vissum hætti uppsetningu þeirra mála hvað varðar greiðslur eftirlaunanna. Ég vísa til þess sem þar er sagt.

Í tólfta lagi í nál. minni hlutans, 12. tölusetti liðurinn, þá erum við rúmlega hálfnaðir, herra forseti, svo að ég upplýsi það, er fjallað um félagslega aðstoð. Ég er hálfnaður með hina tölsettu liði, þeir eru 19. Þar er í 40.--44. gr. fjallað um breytingu á lögunum um félagslega aðstoð. Þar er sú snilldin uppi að felld eru niður mæðra- og feðralaun með einu barni og lækkuð með tveimur og þremur börnum. Sú kostulega röksemdafærsla hefur heyrst af hálfu hv. stjórnarliða að best sé að fella niður þessar bætur því að þær séu hvort sem er svo lágar, best að fella þær bara niður. Með öðrum orðum ef einhver er farinn að fá nógu lítið er best að taka það sem eftir er af honum. Þetta er röksemdafærslan. Þetta er alveg satt. Þetta er það sem ríkisstjórnin segir, af því að þetta sé orðið svo lítið sem fólk, sem er að reyna að ala upp börn, fái sé best að taka það sem eftir er af þeim. (KÁ: Einstæðir foreldrar.) Einstæðir foreldrar. Þetta er sem sagt umhyggjan fyrir þeim. Það er rétt að vekja athygli á því að þessi breyting, sem var lymskulega kynnt sem ákvörðun um það eingöngu að fella niður bæturnar með einu barni, felur í sér skerðingu á bótum með öðru og þriðja barni. Sú upphæð sem fyrir hendi var gagnvart fyrsta barni lagðist ofan á bætur með hinum. En nú er hún tekin af yfir línuna. (LB: Hvaða fólk var í fyrirrúmi?) Þetta eru einstæðir foreldrar í fyrirrúmi à la Framsókn. Þetta er útfærslan á kosningaloforðunum ,,fólk í fyrirrúmi`` þegar einstæðar mæður og feður eiga í hlut. (Gripið fram í.) Það hefur orðið mikill fellir á ráðherrum, herra forseti, þunnskipaðir bekkirnir.

(Forseti (GÁ): Forseti vill upplýsa að hann hefur orðið við beiðni hv. þingmanna sem óskuðu þess að ráðherrar væru við umræðuna. Níu hæstv. ráðherrar eru staddir í húsi. Það er einungis hæstv. iðn.- og viðskrh. sem verður fjarverandi fram eftir deginum.

Forseti vill enn fremur upplýsa hv. þm. sem hefur talað frá því kl. tíu mín. fyrir tvö ...)

Það er rangt.

(Forseti (GÁ): ... að vísu með hléum, að það eru níu hv. þingmenn á mælendaskrá sem óska eftir að halda stuttar og snarpar ræður.)

(JóhS: Langar, langar.) (KÁ: Þetta er misskilningur hæstv. forseta.) (ÓRG: Hvað kom þetta fyrirspurn ræðumanns við, hæstv. forseti?)

Ég þakka forseta kærlega fyrir þessa gagnmerku athugasemd eða skýrslu, ef ég má leyfa mér að kalla svo. Ég mun að sjálfsögðu hafa þetta til hliðsjónar í máli mínu í framhaldinu. Ég skildi þetta sem svo að forseti væri óbeint að beina til mín því að ég skyldi taka mér allan þann tíma sem ég þyrfti þar sem aðrir ræðumenn ætluðu að tala mjög stutt. (Gripið fram í: ... hlýtur að skilja þetta þannig.) Ég gat ekki skilið þetta öðruvísi. (Gripið fram í.) Forseti var sérstaklega að koma þeim skilaboðum til mín að það væri í góðu lagi þar sem hann hefur upplýsingar um að aðrir ræðumenn ...

(Forseti (GÁ): Hljóð í sal. Ræðumaður heldur áfram ræðu sinni.)

Ég þarf þá líka að fá frið fyrir bjöllunni, herra forseti, (Gripið fram í.) ef ég á að geta haldið áfram. (JóhS: Og hæstv. ráðherra inn í salinn. )

Herra forseti. Það er sem sagt þannig að ég var að reyna að komast af stað við að fjalla um ákvæðin næst á eftir breytingum á lögum um félagslega aðstoð. Ég tel þau dæmi sig nú þannig sjálf að ekki þurfi að hafa mörg orð um þau. Þetta eru 40.--44. gr. Við leggjum einfaldlega til að þær falli brott og það gildi óbreytt ákvæði um þetta efni í lögum.

Þá er komið að 45. gr. sem fjallar um lög um málefni aldraðra og þar er komið að sambærilegri viðmiðunargrein og við höfum áður verið að ræða um. Þarna er lagt til að ríkissjóður muni hér eftir ákveða einhliða með fjárlögum hverju sinni hvaða fé Framkvæmdasjóður aldraðra hefur á hverju ári. Það skuli orðast þannig að hlutverk sjóðsins sé að veita rekstrarfé til stofnana fyrir aldraða í samræmi við ákvæði fjárlaga.

Nú er það þannig, herra forseti, að Framkvæmdasjóður aldraðra er fjármagnaður með nokkuð sérstökum hætti. Lagður er á svokallaður nefskattur sem er afar sérstakt fyrirbæri og hann rennur til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Fyrir þann tekjustofn átti að og hefur í verulegu mæli verið byggt upp í þágu málefna aldraðra. Nú var umdeilt mál á sínum tíma að leggja á nefskattinn. Ég veit ekki hversu gott minni, herra forseti, --- nú, nú er kominn nýr forseti. Þá versnar í því. Ég er búinn að eiga mjög hlýleg orðaskipti við forsetann sem áður sat á forsetastóli en honum var orðið órótt undir lokin, þeim hæstv. forseta. Ég sé að hann hefur látið leysa sig af og ég óska nýjum forseta (Gripið fram í: Gæfu og gengis.) gæfu og gengis í störfum og velfarnaðar. (Gripið fram í: Gleðilegs árs.) Það er hugsanlegt að ég eigi fleiri tækifæri til að koma því á framfæri við forseta undir lok ræðunnar (KÁ: ... lýkur ræðunni þá?) þegar nær dregur áramótum.

Ég var þar staddur, herra forseti, að nefskatturinn var á sínum tíma auðvitað mjög umdeilt mál. Menn hefðu, held ég, aldrei unað því að hann yrði lagður á og væri við lýði sem slíkur með þeim hætti sem raun ber vitni nema vegna þess að þessi fjáröflun var í þágu mjög sérstaks málefnis, þ.e. uppbyggingar fyrir aldraða. Nefskattur er skattur sem lagður er á hvern og einn skattskyldan landsmann án tillits til tekna eða aðstæðna að mestu leyti og er þar með sem slíkur afar hæpinn tekjustofn, a.m.k. ef hann er lagður á í einhverjum umtalsverðum mæli. Ef þar er umtalsverð fjárhæð á ferðinni. En þessu hafa menn unað bærilega fyrst og fremst vegna þess að málefnið er gott. Nú ætlar hæstv. ríkisstjórn að skerða þetta. Sjálfstæði tekjustofnsins eða málaflokksins sé afnumið og málin sett í þennan farveg.

Næst eru það 47.--50. gr., herra forseti, um lög á sviði heilbrigðismála. Þar er verið að troða inn í þennan bandorm ákvæðum um alls óskyld mál, öllu sem varðar útgjöld ríkisins, þ.e. hvernig stjórnir heilsugæslustöðva skuli skipaðar og hvert skuli vera kjörtímabil þeirra o.s.frv. Hér eru á ferðinni 100% fagleg mál innan heilbrigðisgeirans. Maður spyr sig náttúrlega að því: Hvað dettur mönnum næst í hug? Af hverju skutla menn ekki breytingum á stjórnarskránni með í næsta bandorm eða ákveða að leggja niður Grænlandsverslunina eða eitthvað svoleiðis? Menn geta alveg eins tekið slíka hluti inn í hann. Þetta á bókstaflega ekkert skylt við neitt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum ríkisins, með hvaða hætti stjórnum heilsugæslustöðva er skipað. Það segir sína sögu um það út á hvaða braut menn eru að lenda, hvert þessi þróun mun leiða ef hún heldur áfram sem horfir nokkur ár í viðbót. Þá verður þetta þannig, eins og ég sagði fyrr í ræðu minni, herra forseti, að bráðum verður bara lagður fram einn bandormur að hausti og annar að vori. Öll löggjafarstörf vera komin í það far.

15. liðurinn lýtur að 51. gr. frv. um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Það á að leggja niður ákvæðin um gæsluvistarsjóð. Er þar vísað til þess að í tengslum við afgreiðslu laga um áfengismál á síðasta vori voru sett inn ákvæði um sérstakan forvarnasjóð og honum tryggðar ákveðnar tekjur. Þarna verður endingarstutt í hinum fögru fyrirheitum eins og víðar. Auðvitað var hugsunin sú að sjóðurinn yrði til viðbótar því sem fyrir var í þeim efnum og að ekki yrði ekki farið að leggja niður forvarnir eða forvarnatæki sem fyrir voru. Að vísu er það svo að gæsluvistarsjóður mun ekki hafa sinnt mikilvægu verkefni upp á síðkastið en hann hefur þó verið þarna til. Rétt að minna á þetta í samhengi við afgreiðslu málsins.

Þá, herra forseti er komið að 52.--55. gr. um samgöngumál. Nú var upplýst að hæstv. samgrh. hefði fallið frá fjarvist sinni í dag og væri kominn í húsið. Ég óska eindregið eftir því að hæstv. ráðherra verði gert viðvart um að nærveru hans sé óskað. Til upplýsingar sígur nú mjög á seinni hluta frv. því að það er ekki nema 62 greinar eins og kunnugt er.

[16:15]

Fyrst undir liðnum samgöngumál er að nefna 52. og 53. gr. Þær fjalla um skipulag ferðamála. Þar er lagt til að með varanlegum hætti verði horfið frá því að tekjustofn Ferðamálaráðs skuli taka mið af umsvifum í ferðaþjónustu, nánar tiltekið sölutekjum Fríhafnarinnar í Keflavík. Þannig hefur sú viðmiðun verið undanfarin ár. Að vísu hefur hún verið skert í verulegum mæli og sérstaklega á síðustu árum í tíð núv. hæstv. samgrh. hefur óbreytt krónutala runnið til þessa málaflokks nú fimm ár í röð. Það er öll frammistaðan af því sem hæstv. samgrh. hefur af að státa í því efni. (JóhS: Hvar er ráðherrann?)

(Forseti (GÁS): Forseti vill geta þess að ráðherrans er leitað í húsinu og kemur hann væntanlega að vörmu spori.)

Það hlýtur að takast að finna hæstv. ráðherra úr því að hann er í húsinu. Það eru ekki svo margar vistarverur í þessu litla þinghúsi okkar að svo stór maður eins og hæstv. samgrh. geti leynst lengi.

Herra forseti. Ég þarf svo sem ekki að bíða eftir samgrh. varðandi þessa þætti því að þeir eru nokkuð gamalkunnir. Ég læt nægja að undirstrika að frammistaðan er að þessu leyti til mjög slök hjá hæstv. ráðherra. Málaflokkurinn ferðamál og ferðaþjónusta hefur vaxið mikið að umfangi á síðustu árum. Sem betur fer eru menn að uppskera þar uppbyggingarstarf frá umliðnum árum og mikla landkynningu af ýmsum toga en kannski fyrst og fremst það að Ísland er einstakt land og selur sig að miklu leyti sjálft. (KÁ: Þetta er kolröng forgangsröð hjá ríkisstjórninni.) Að skerða þetta svona? Að sjálfsögðu og ég ætlaði reyndar að koma að því að það er ömurlegt að á þessum lið skuli frammistaðan vera eins og raun ber vitni vegna þess að það er ekki búið að halda svo fáar ræðurnar um það að eitt af því sem einmitt geti gefið af sér aukin verðmæti, tekjur og störf í framtíðinni séu ferðamálin. Ég hygg að það alvarlegasta í þeim efnum sé vanræksla gagnvart viðbúnaði og móttöku ferðamanna á mörgum fjölsóttum og vinsælum ferðamannastöðum, ekki síst inni á hálendinu. Ferðamálaráð hefur verið nánast máttlaust gagnvart því að sinna þeim verkefnum sökum fjárskorts og ekki batnar ástandið ef hér eru í bígerð enn meiri skerðingar á komandi árum.

Í 54. gr. er fjallað um hafnalög. Þar eru á ferðinni ákvæði um að tekjur til Hafnabótasjóðs skuli frá og með breytingu þessari ráðast af niðurstöðu fjárlaga hverju sinni en ekki vera einhver tiltekin föst fjárhæð í sjóðinn. Að vísu hafa verið skerðingarákvæði í gangi á tekjustofnum Hafnabótasjóðs undanfarin ár en hér gilda þó a.m.k. sömu athugasemdir og annars staðar gagnvart formi málsins.

Þessi þrenn lög um ferðamál eru hér undir og er þá það langmest að í 51. gr. er sett inn skerðingarákvæði gagnvart flugmálaáætlun. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að hæstv. samgrh. komi hér. Og er hann þá staddur í dyrunum í þeim töluðum orðum. Hæstv. ráðherra er að taka sjálfum sér mikla gröf með þessari útreið sem hann ætlar að láta yfir sig ganga í samgöngumálum. Sennilega er þar útkoma verst hvað flugmálin snertir. Flugmálaáætlun á í grófum dráttum að skera niður um helming. Það á að slátra flugmálaáætluninni og það liggja fyrir upplýsingar um að það hlýtur að hafa í för með sér gríðarlega mikla erfiðleika og mikla röskun á öllum framkvæmdum og öllum áætlunum á þessu sviði.

Ég held að það séu, herra forseti, engin dæmi um einn einstakan málaflokk á framkvæmdasviðinu sem fær jafnhrikalega útreið og flugmálin og er það þó þannig að það er oft til þess vitnað að fáar þjóðir ef nokkrar séu jafnháðar flugi eins og Íslendingar, bæði innan lands og milli landa. Það fljúga mjög fáar þjóðir í heiminum neitt í líkingu við það hvort sem heldur er mælt í ferðatíðni á íbúa eða flugkílómetrum eins og Íslendingar gera. Ég hugsa að það sé enginn einn hópur í heiminum sem flýgur yfirleitt meira en Íslendingar gera að meðaltali nema atvinnuflugmenn og geimfarar. Það stafar ósköp einfaldlega af því að landið er eyja úti í miðju Atlantshafinu og landið er stórt og miklar flugsamgöngur eru innan lands þannig að flugmálin eru afar mikilvægur málaflokkur og þær eru hluti af því að hér séu nútímalegar samgöngur, greiðar og skjótar, þannig að menn komist milli áfangastaða og geti verið fullgildir þátttakendur í nútímasamfélagi. Þetta hafa hugsandi menn fyrir löngu uppgötvað og framsýnir menn börðust fyrir því á sínum tíma fyrir tæpum 10 árum að sett var af stað myndarleg áætlun um uppbyggingu í flugmálum og til þess að komast eitthvað áleiðis í þeim efnum var tekinn upp markaður tekjustofn til að standa undir framkvæmdunum. Hann er þannig úr garði gerður að í raun og veru fól hann í sér hreinar viðbótarálögur á flugrekstur og flugfarþega. Menn létu það yfir sig ganga vegna þess að það var svarið og sárt við lagt að þessum tekjum yrði öllum varið til uppbyggingar í flugmálum.

Herra forseti. Hefur forseti nokkra hugmynd um hvaða bók hæstv. samgrh. er að lesa? Það er alltaf gaman að vita hvaða jólabækur eru mest í tísku, en kannski eru þetta fornrit sem hæstv. ráðherra er að rýna í? Alla vega er hæstv. ráðherra djúpt hugsi. En það er í samræmi við þá virðingu sem hæstv. ráðherra sýnir málaflokkum sínum að hann nennir að sjálfsögðu ekki að hlusta á umræður um þá á Alþingi, enda lélegur ráðherra eins og ég er hér að sýna fram á með máli mínu.

Herra forseti. Ég held að í ljósi þessarar forsögu málsins og hvernig tekna er aflað til flugmálaáætlunar, hvernig pólitískar kringumstæður þess máls voru á sínum tíma og hafa hingað til verið, þá sé þetta alveg óvenjulega löðurmannleg atlaga sem þarna er á ferðinni gagnvart flugmálunum. Ég minni enn á að í þessu sambandi er verið að gera t.d. flugfarseðlana í innanlandsfluginu að skattstofni. Það er verið að gera það vegna þess að álögur á flugrekendur hljóta að enda úti í verðlaginu og þar með er verið að segja að það sé réttlætanlegt að gera flugfar, t.d. frá Vopnafirði til Reykjavíkur sem ég hef stundum leyft mér að taka sem dæmi um eina lengstu og dýrastu áætlunarflugleið innan lands þar sem farseðillinn kostar líklega tæpar 20 þús. kr., að skattstofni. Ef íbúi á Vopnafirði þarf að leita sér lækninga til Reykjavíkur og á ekki annars kost en að taka flug kostar það 20 þús. kr. tæpar, svipað og helgarferð til útlanda. Ofan á það ætlar ríkið að leggja sérstakan skatt með því að skerða hinn markaða tekjustofn í ríkissjóð.

Flugmálastjóri kom fyrir efh.- og viðskn. og gerði grein fyrir því í grófum dráttum hvaða áhrif þetta hefði á framkvæmdastöðuna í flugmálunum og þau gögn eru birt með nefndaráliti minni hlutans. Það kom margt mjög athyglisvert fram í máli flugmálastjóra. Til að mynda hefur á vegum Flugmálastjórnar verið unnin 10 ára áætlun um það að koma flugsamgöngumannvirkjum og flugmálum okkar Íslendinga í það horf á 10 árum að við fullnægjum alþjóðastöðlum, stöðlum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Það kostar 5 milljarða kr. Inni í þeirri tölu eru að vísu framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli upp á á annan milljarð. Þetta mundi þýða að til þess að menn næðu þessu takmarki á 10 árum þyrftu fjárveitingarnar að vera 500 millj. á ári. Tekjustofnarnir skila um 400 millj. kr. þannig að menn væru þá ekki lengra frá því takmarki en þetta og væru með um fjóra fimmtu af tekjunum sem til þess þyrfti að standa straum af svona útgjöldum. En nú á að skerða þetta um helming, niður í 200 milljónir. Í stað rúmra 10 ára tæki þetta því rúm 20 ár með þessu áframhaldi. Það er von að menn séu stoltir af afrekum sínum á þessu sviði.

Það er líka rétt að minna menn á að þegar svona tölur eru nefndar eru það ekki bara einhverjar tölur á blaði. Það er ekki svo gott að menn geti bara látið óánægju sína í ljós út af því að það standi einhverjar tölur um niðurskurð á blaði og síðan gerist ekkert meir. Það sem gerist á næsta ári er að framkvæmdir sem átti að ráðast í verða slegnar af. Það er t.d. alveg morgunljóst að miklar framkvæmdir á næsta ári á stöðum eins og Akureyri, Egilsstöðum, Vestmannaeyjum, Ísafirði og Reykjavík verða meira og minna skornar niður. Sá staður sem samkvæmt flugmálaáætlun átti að fá mest framkvæmdafé á næsta ári var Akureyri vegna mjög brýnna framkvæmda sem þar þarf að ráðast í, þ.e. breikkun á malbiki út af ljósum þannig að stærri flugvélar geti athafnað sig þar á vellinum án þess að liggja undir skemmdum. Það á t.d. við stærri gerð flugvéla sem Flugleiðir nota, 757-vélar Flugleiða. Þær geta mjög illa notað Akureyrarflugvöll vegna þess að bundna slitlagið, malbikið, er svo mjótt að þar má ekkert út af bera. Þá lenda hreyflar vélanna út af slitlaginu og geta þá sogið upp í sig sand og möl og legið undir stórskemmdum. Er þá ekki lítið í húfi því að hvert slíkt stykki kostar eins og kunnugt er fleiri hundruð millj. kr. ef ekki milljarða.

Eitt enn að lokum um flugmálin. Það er alveg ljóst að þessi niðurskurður er dæmdur til að koma niður á flugöryggi á Íslandi vegna þess að margar af þeim framkvæmdum sem gert hefur verið ráð fyrir á síðari hluta flugmálaáætlunarinnar lúta að öryggisþáttunum. Þær lúta að ýmsum öryggisbúnaði á flugvöllum, svo sem slökkvibúnaði. Þær lúta að brautartækjum, aðflugstækjum og öðru slíku sem eru mjög mikilvægir öryggisþættir í sambandi við flugsamgöngurnar. Það er því rétt að menn hafi í huga að með þessum hætti er auðvitað verið að taka ákvarðanir sem geta komið stórkostlega illa við þann þátt mála.

Í 56.--58. gr., herra forseti, eru lagðar til breytingar á skipulagslögum sem minni hlutinn leggur til að verði felldar út af þeirri einföldu ástæðu að það hefur verið þannig að þeim málum staðið að það er satt best að segja heldur ógæfulegt. Í þessu tilviki eins og fleirum er vaðið yfir sveitarfélögin án nokkurs samráðs við þau og ríkisstjórnin hendir inn einhliða breytingartillögum um mál sem varða sameiginlega hagsmuni ríkis og sveitarfélaga. Það er satt best að segja að verða frekar regla en undantekning að ríkisstjórnin standi þannig að hlutunum þegar sveitarfélögin eiga í hlut að það sé komið fram við þau af fullkomnu skeytingarleysi og með einhliða aðgerðum. --- Ég ætla að biðja hæstv. samgrh. að fara ekki langt því að vegamálin eru eftir, þau eru aðeins aftar í frv.

Í 56. og 60. gr. er fjallað um lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og heyrir undir hæstv. umhvrh. Þar er á ferðinni krukk í þau lög sem er nokkuð gamalkunnugt. Það hefur með einum og öðrum hætti verið hringlað í þeim málum undanfarin ár. Oft hafa skerðingarákvæði verið sett inn í litlu samhengi við raunveruleikann og raunverulegar þarfir á þessu sviði og ýmsir hafa af því áhyggjur að menn séu farnir að sýna mikið andvaraleysi gagnvart eyðingu vargs, bæði dýra og fugla og þó sérstaklega kannski minknum vegna þess að það leiðir af sjálfu að þegar ríkið dregur úr sínu framlagi á þessu sviði aukast byrðar sveitarfélaganna og/eða málunum er einfaldlega ekki sinnt og ég held að það sé rétt að hafa það í huga. Að öðru leyti tekur minni hlutinn undir athugasemdir minni hluta umhvn. og vísar til þeirra og bendir á mótmæli Sambands ísl. sveitarfélaga sem liggja fyrir um þessi mál.

[16:30]

Herra forseti. Þá er komið að einni merkri grein í þessu frv. sem er 61. gr. Hún er afar sérkennileg skepna svo ekki sé meira sagt. Þegar menn lásu fyrirsögn þessarar lagabreytingar bjuggust menn satt best að segja ekki við neinum stórtíðindum því að þarna er á ferðinni breyting á lögum nr. 97/1974, um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana, og ekki áttu menn held ég von á því að til neinna stórtíðinda mundi draga í sambandi við húsnæðismál ríkisstofnana. En bíðum við. Þarna er allt í einu laumað inn í frv. afar sérkennilegu ákvæði sem hefur gengið illa að fá nokkrar skýringar á en í greininni segir, með leyfi forseta:

,,Ekki má setja á fót nýja ríkisstofnun nema með lögum.`` Þetta er það ákvæði sem staðið hefur í greininni og er óbreytt. En svo kemur: ,,Hlutaðeigandi ráðherra er þó heimilt, telji hann það hagkvæmt, að sameina þjónustusvæði og semja við sveitarfélög eða einkaaðila um að þeir taki að sér að veita þjónustu sem tiltekinni ríkisstofnun er ætlað að veita,`` og þá væntanlega ætlað að veita alveg samkvæmt lögum ,,svo og að heimila einni ríkisstofnun að taka að sér þjónustu sem er á ábyrgð annarrar ríkisstofnunar. Flutningur verkefna og fjárheimilda samkvæmt þessari málsgrein skal vera tímabundinn.``

Þetta er satt best að segja, herra forseti, afar sérkennilegt. Ef þessi frumvarpsgrein er tekin alvarlega verður ekki annað séð að í reynd sé ætlunin að veita ráðherrum fullt sjálfdæmi um það hvernig þeir standa að ríkisrekstri á sínu sviði að öllu öðru leyti en því að það þurfi að heita svo að breytingarnar séu tímabundnar. Það virðist nokkuð augljóst mál að það er t.d. hægt að taka öll verkefni af einni ríkisstofnun og fela annarri þau, það er alveg augljóst samkvæmt textanum. Það er hægt að taka einhver tiltekin verkefni ríkisins og fela þau einkaaðilum, það er ljóst og það er hægt að taka einhver verkefni ríkisins og fela þau sveitarfélögum o.s.frv. Það eina sem virðist þurfa að gera til að fullnægja forminu er að láta það heita svo að viðkomandi breytingar séu tímabundnar. Ekki er nánar skilgreint hvað er átt við, hvort þar er talað um ár, áratugi eða hvað.

Það er fróðlegt að lesa umsögnina um þessa grein, herra forseti, til þess að menn átti sig á því hvers konar aðstæður við lagasetninguna eru hér á ferðinni. Maður skyldi ætla að málið væri útskýrt og það afmarkað hvað menn hefðu í huga. Hvað vakir fyrir mönnum? Hvaða heimildir eru menn að biðja um og hverjar halda menn að útskýringarnar séu? Þær eru eftirfarandi, með leyfi forseta, tvær línur:

,,Ekki er gert ráð fyrir að breytingin hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs árið 1996 en lagagreinin eykur sveigjanleika í ríkisrekstrinum sem gefur möguleika á hagræðingu síðar.``

Þetta er öll útlistunin, þetta er lögskýringin. Ef menn ætla að spyrja, taka einhver dæmi og segja: Veitir þetta menntmrh. t.d. leyfi til að fela Bylgjunni að reka Rás 2 og fara svo í lögskýringuna þá yrðu menn ekki mikils vísari. Ég leyfi mér að spyrja, herra forseti: Veitir þessi heimild menntmrh. leyfi til þess að fela einkaaðila að reka Rás 2? Það er ekkert í greininni sem gefur annað til kynna.

Rás 2 er önnur af tveimur hljóðvarpsrásum sem Ríkisútvarpinu ber samkvæmt lögum að starfrækja allt árið um allt land en að öðru leyti er ekki nánar kveðið á um það. Greinin verður varla skilin öðruvísi en þannig að heimilt sé að færa til starfsemi milli ríkisstofnana, frá ríkisstofnun til einkaaðila þó að kveðið sé á um þá starfsemi í lögum því að greinin er ekki takmörkuð. Svo annað dæmi sé tekið má spyrja sig að því, hvort heilbr.- og trmrh. geti í vandræðum sínum ákveðið að fela t.d. einhverjum einkaaðilum að reka lyfjabúrin á Landspítalanum. Því ekki? Gæti ekki bara Delta og Pharmaco tekið það að sér? Það er ekkert í lagagreininni sem takmarkar það á nokkurn hátt. (Gripið fram í: Einstakar deildir á spítölum.) Þess vegna einstakar deildir á spítölum. Það verður ekki í raun og veru annað séð en að greinin heimili ráðherrunum í grófum dráttum að gera það sem þeim sýnist. Hvers konar lagasetning er það þá eiginlega orðin að fyrst baksa menn við að setja lög um Ríkisútvarpið og það skuli gera þetta og þetta og þetta, halda úti menningarstarfsemi, senda út tvær hljóðvarpsrásir um allt land o.s.frv. En svo búa menn til í einni einustu lagagein í bandormi heimild til handa menntmrh. til þess að vaða yfir það þvers og kruss, gera það sem honum sýnist og sama mundi þá eiga við um öll önnur lög. Auðvitað munu stjórnarliðar koma og segja: Þetta stendur ekki til, þetta er bara rugl í stjórnarandstöðunni því það stendur ekkert svona til o.s.frv. Þetta er bara til að auka sveigjanleika o.s.frv. og það getur vel verið að það sé. Það skiptir ekki máli hér. Hvernig er gengið frá lagaákvæðunum í prinsippinu? Hvað er verið að gera? Ég leyfi mér að segja, herra forseti, ég held að það sé langt síðan menn hafa séð aðra eins lagagrein á prenti, langt síðan hugkvæmni manna hefur orðið jafnstórkostleg að henda inn ákvæði af þessu tagi, útskýra það ekki nokkurn skapaðan hlut, því fylgja engin lögskýringargögn, ekki nokkur sem hægt væri að styðjast við ef deilur mundu rísa síðar og verður það þá væntanlga fyrst og fermst háð mati viðkomandi ráðherra hverju sinni og geðþótta hans til hvers hann kynni að kjósa að nota greinina. Það er auðvitað ekki hægt að hafa þetta svona, það er ekki nokkur leið. Þessi grein á að fara út úr frv., herra forseti. Það er að mínu mati reginhneisa fyrir alla viðkomandi ef þetta verður samþykkt, fyrir hæstv. forsrh. sem ber málið fram og hlýtur að roðna sem löglærður maður að standa ábyrgur fyrir annarri eins vitleysu, fyrir ríkisstjórnina og meiri hluta hennar, fyrir þingið sem stofnun ef maður lætur þessi ósköp yfir sig ganga og alla viðkomandi og auðvitað alla þjóðina fyrir að eiga slíkt yfir sér ef þetta gerist.

Herra forseti. Þá er komið að rúsínunni í pylsuendanum, næstsíðustu greininni í frv. Það er 62. gr. um framlög til vegamála. Við höfum áður átt orðaskipti um þá hluti, ég og hæstv. samgrh., og það liggur flest fyrir um þau mál sem upplýsa þarf um. Það er alveg ljóst að það stefnir í gífurlegan niðurskurð á framkvæmdum á næsta ári frá gildandi vegáætlun eða nærfellt einn milljarð kr. Það má deila um samkvæmt skilgreiningum hvar á bilinu 920--1.050 millj. það eru en það breytir ekki öllu. Staðreyndin er sú að þarna er á ferðinni fjórðungsniðurskurður í almennri vegagerð. Það þýðir auðvitað að fjölmörgum framkvæmdum, sem búið var að setja á áætlun og jafnvel undirbúa að ráðast í á næstu árum, hlýtur að þurfa að fresta eða slá þær af.

Vegamálastjóri kom á fund efh.- og viðskn. út af þessu máli og reiddi fram greinargóð gögn um það hvað þetta þýðir nákvæmlega í tölum talið. Það er í grófum dráttum þannig að framreiknuð á núgildandi verðlagi ættu framlög til vegamála á næsta ári að vera 7.618 millj. en stefna í að verða 6.663 millj. eða 955 millj. kr. lægri. Þetta segir allt sem segja þarf um málið. Hér er á ferðinni mjög harkalegur niðurskurður og þegar þetta er lagt saman sem er að gerast í flugmálum, í hafnamálum, þar sem líka er á ferðinni niðurskurður samkvæmt fjárlagafrv. og svo í vegamálum, þá er verið að skerða framkvæmdir í samgöngumálum um nærfellt 1.300 millj. kr. og það er auðvitað gífurleg skerðing.

Herra forseti. Þá er ekki eftir að gera grein fyrir öðru en því að í breytingartillögum sínum leggur meiri hluti efh.- og viðskn. til enn nýja íþyngjandi hluti sem rétt er að nefna og vara við. Þar er fyrst og fremst tvennt á ferðinni. Það sem lýtur að almannatryggingalöggjöfinni er að utanaðkomandi tekjur ellilífeyrisþega yfir tilteknum mörkum skuli skerða lífeyrinn um 35% í staðinn fyrir 25% áður. Þarna er verið að hækka skerðingarhlutfall annarra tekna gagnvart grunnlífeyri verulega og er að sjálfsögðu skerðing á kjörum þessa hóps aldraðra á þessu tekjubili sem á í hlut og talið að þetta muni skila ríkissjóði um 30 millj. kr. á næsta ári. Þetta er einn af mörgum liðum hjá hæstv. ríkisstjórn sem heggur í þennan þjóðfélagshóp sérstaklega.

Hitt atriðið sem þarna er á ferðinni og er sérstaklega gagnrýnivert er sú snilld að hæstv. ráðherra hefur dottið í hug að leggja það til að allar greiðslur almannatrygginga og greiðslur samkvæmt lögunum um félagslega aðstoð á bótum til einstaklinga þar sem fjárhæðir eru lægri en 600 kr. á mánuði skuli falla niður. Þetta er væntanlega samkvæmt röksemdafærslunni að ef einhverjir eru farnir að fá nógu lítið er best að taka allt af þeim, það sé þá einfaldast. En það er þannig samt að 600 kr. eða 599 kr. ef við segðum að það væri í 12 mánuði á ári hverju gera 7.200 kr. og það munar um minna hjá þessum hópum. Mér er kunnugt um að Öryrkjabandalaginu er þetta ákvæði sérstakur þyrnir í augum því að það telur að býsna mikill fjöldi félagsmanna sinna sé að fá litlar upphæðir af þessu tagi í hverjum mánuði sem safnast þegar saman kemur og skipta auðvitað verulegu máli. Menn verða að hafa í huga hver lífksjör og hverjar tekjur þessa hóps eru sem líklegur er til þess að fá slíkar greiðslur. Þær eru þannig að upphæð af þessu tagi, 7.000 þús. kr. á ári hverju, skiptir miklu máli. Það er a.m.k. 7.000 kr. minna til að spila úr eða kannski er því miður réttara að orða það þannig að í mörgum tilvikum vanti 7.000 kr. meira upp á að endar nái saman.

Þessar breytingar komu fyrir efh.- og viðskn. þegar stóð til að ljúka umfjöllun um málið, á sama fundi og hv. formaður ætlaði að afgreiða málið út. Mig minnir að það hafi verið í fyrrakvöld. Þannig voru vinnubrögðin hvað það snertir. Daginn eftir komu svo fréttirnar af gjaldskrárhækkunum hæstv. heilbrrh. varðandi komugjöld á heilsugæslustöðvar og hækkun á gjöldum vegna komu til sérfræðings o.s.frv. Hver glaðningurinn hefur komið á fætur öðrum og nú er svo komið að ræðumaður sem telur sig þó vera alveg þokkalega talnaglöggan hefur ekki lengur tölu á því. Mér er kunnugt um að hér á þingi er manneskja sem hefur sett þetta skipulega niður og tölusett þessar einstöku árásir á aldraða og vonandi kemur það fram í umræðunni síðar í einni af þeim stuttu og snörpu ræðum sem samkvæmt upplýsingum fyrrverandi forseta hér á stóli verða fluttar á eftir.

Herra forseti. Ég hef þrælast í gegnum þetta nefndarálit og allar 63 greinar frv. í grófum dráttum (Gripið fram í: 33 lagabálka.) 33 lagabálka og ég leyfi mér að halda því fram að það sé langt síðan fluttar hafa verið að meðaltali styttri framsöguræður fyrir nefndarálitum minni hluta í 33 frumvörpum. Ég bið menn að fletta upp á því í þingsögunni hvort það sé að meðaltali svo að framsöguræður fyrir 33 málum hafi ekki staðið nema í rúma tvo tíma eða liðlega það því að þegar dregin eru frá ítrekuð hlé sem ég varð að gera á ræðu minni vegna þess að hæstv. ráðherrar voru að slóðast einhvers staðar annars staðar en þeir áttu að vera, þ.e. hér í vinnunni sinni á þingi mun þetta vera um það bil ræðutími.

Herra forseti. Þetta er hið versta mál. Þetta er sennilega eitthvert ljótasta mál sem komið hefur fyrir þingið í háa herrans tíð, bæði að innihaldi og formi og er þá mikið sagt og við leggjum auðvitað til að það verði sent þangað sem það er best komið, þ.e. til föðurhúsanna.