Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 16:45:41 (2227)

1995-12-20 16:45:41# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[16:45]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. var að velta fyrir sér þeim breytingum sem boðaðar eru á lögum sem heyra undir landbrn. og hvers vegna þar væri ekki sami háttur á hafður hvað varðaði skerðingarákvæðin. Í tvennum lögum er talað um ,,þrátt-fyrir``-prinsippið sem er að öðru leyti ekki í frv. Skýringin á því er sú að ég hef boðað það í vetur að það verði farið í endurskoðun á báðum þessum lögum, þ.e. jarðræktarlögum og búfjárræktarlögum. Ég lagði þess vegna til að á þessu stigi væri ekki verið að setja inn breytingarákvæði sem væru varanleg, heldur ,,þrátt-fyrir``-ákvæði af hinum hefðbundna gamla stíl. Að öðru leyti gildir það sama með Stofnlánadeildina með lögum um flokkum og mat á gærum og ull, með lögum um skoðun og mat á sláturafurðum. Þetta er sú aðferð sem er almennt boðuð í frv. og hefur nú valdið nokkrum umræðum ef ekki deilum og ágreiningi milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég hygg að að öðru leyti sé samræmi í málinu nema hvað varðar þessi tvö frumvörp og skýringin er sem sagt sú að ég fór fram á að það yrði óbreytt.

Sama er að segja um lög sem heyra undir umhvrn. Þar er verið að gera varanlegar breytingar. Hvað snertir sveitarfélögin mun það hafa fjárhagslega lítil áhrif á þau. Þarna er verið að gæta samræmis í lagasetningunni. Það er gert ráð fyrir því að ákvæðin um framlög fari eftir fjárlögum hverju sinni og gera það til samræmis í þessum lögum öllum. Má minna á það að í frv. til fjárlaga segir í greinargerð um Skipulagsstjórn ríkisins, með leyfi forseta: ,,Skerðing var á endurgreiðslum til þessara sveitarfélaga á árinu 1995 sem er ekki ráðgerð á árinu 1996.`` Þetta á ekki að hafa teljandi áhrif. (Gripið fram í.) Mér er kunnugt um það, ég hef séð bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Það gerir athugasemdir við þessa lagabreytingu, en hún hefur ekki fjárhagsleg áhrif.