Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 22:21:03 (2234)

1995-12-20 22:21:03# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[22:21]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að hv. þm. geti lesið sér til um að þær staðreyndir sem ég fór með eru réttar. Það þýðir ekkert að hafa umræðuna með þessum hætti, hún verður að vera rétt og hún verður að vera rökum samkvæmt. Það þýðir ekkert að gera fólk skelfingu lostið.

Framsfl. stendur með öldruðum og ver málstað fatlaðra. En Framsfl. stendur frammi fyrir því að eitt alvarlegasta vandamálið er hvernig við komum að ríkisfjármálunum eftir samstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. sl. fjögur ár. Á því þarf að taka. Gagnvart ungu kynslóðinni sem á að erfa landið er ekkert mikilvægara en að ná hallalausum fjárlögum. Við verðum því víða að setja mörk þannig að þeir sem minnst mega sín fái að njóta þess sem þeir höfðu og fá í sumum tilfellum meira.

Ég hef hlustað á málflutning hv. þm. Ég hef hvergi séð hana benda á tekjur. Það eru útgjaldaliðirnir sem eru hv. þingmanni efstir í huga. Ég hef áhyggjur af unga fólkinu ef við náum ekki tökum á ríkisfjármálunum á næstu árum og getum lækkað vexti og náð árangri. Samstarf Framsfl. og Sjálfstfl. í þessari ríkisstjórn hefur þegar borið árangur. Betri tíð blasir við. Hagvöxtur sem fylgir framkvæmdum í landinu gefur okkur vonir um að geta á síðari hluta þessa kjörtímabils staðið við öll okkar góðu fyrirheit til þjóðarinnar. (Gripið fram í: Síðari hlutann já.)