Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 22:23:28 (2235)

1995-12-20 22:23:28# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[22:23]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það erum ekki við í stjórnarandstöðunni sem erum að hræða aldraða og öryrkja. Aldraðir og öryrkjar munu finna mjög fljótlega fyrir því hvernig þessi ríkisstjórn herðir að þeim. Þið hafið ekki, hv. þm. Framsfl., fólk í fyrirrúmi. Þetta er Framsókn gegn lífskjörum fólksins í landinu. Þegar hv. þm. segir að við í Þjóðvaka höfum engar tillögur um tekjur er það ósatt. Við kynntum þær við 2. umr. fjárlaga. Hv. þm. þorir sjaldan að vera í þingsölum þannig að þær tillögur hafa farið fram hjá honum. Í tillögum okkar erum við að leiðrétta það sem Framsfl. er að gera. Við viljum að Framkvæmdasjóður fatlaðra fái sínar óskertu tekjur úr erfðafjársjóði. Við erum með tillögur um ýmsar aðgerðir, t.d. í sjúkrahúsmálum sem er nauðsynlegt að taka á, framlög í forvarnasjóð, bætur til þolenda ofbeldis en samt skilum við 1.400 millj. kr. meira í tekjuafgang en hv. þm. Framsfl. Þetta er nefnilega allt saman spurning um forgangsröðun. Við viljum koma á fjármagnstekjuskatti, ekki bara á gamla fólkið eins og hv. þingmenn Framsfl. Við viljum koma á fjármagnstekjuskatti sem nær til þeirra sem raunverulega eiga fjármagn í þessu landi. Ef hv. þm. gæfi sér tíma til að kynna sér tillögur okkar, þá tökum við þetta lið fyrir lið. Við skilum 1.400 millj. í tekjuafgang en leiðréttum það sem hægt er af þeirri grimmilegu atlögu sem framsóknarmenn standa að gagnvart öldruðum og öryrkjum.