Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 22:31:31 (2238)

1995-12-20 22:31:31# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[22:31]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það hefur verið heldur dapurlegt að hlusta á þá framsóknarmenn sem hafa verið að kalla fram í og koma inn í umræðuna í andsvörum. Það verður ekki annað séð af því sem þeir hafa sagt en að þeir viti harla lítið um hvað verið er að fjalla í kvöld og út á hvað sú umræða gengur sem hér stendur yfir. Ég vildi nú beina þeim tilmælum til þeirra að þeir setji sig ögn inn í það hvað er væntanlegt á næstu vikum og mánuðum og hvað þær ráðstafanir þýða sem verið er að boða í frv. sem kallað er ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Hér er það einfaldlega að gerast að það á að afgreiða á tæpum tveim vikum breytingar á 33 lagabálkum, sem reyndar þróuðust þannig í nefnd að til varð nýtt frv. Í því var breytt nokkrum lagabálkum í viðbót. Við höfum upplifað það á undanförnum dögum að fæðst hafa nýjar tillögur á nánast hverjum einasta degi. Og þær eru enn að fæðast. Það var verið að leggja fram brtt. við lánsfjárlög sem var kynnt fyrir u.þ.b. klukkustund síðan á fundi efh.- og viðskn. Þannig að þessi vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar. Ég harma að þurfa á hverju einasta ári að taka þátt í umræðum af þessu tagi.

(Forseti (RA): Ég vil eindregið hvetja hv. þingmenn til að gefa ræðumanni gott hljóð. Þurfi þeir að rökræða þá gerist það utan fundarsalarins.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir. Menn hafa verið að reyna að semja um lok þingstarfa. Margir hafa mjög margt um þetta frv. að segja og ef þessi umræða á að ganga eitthvað þá verða menn náttúrlega að hafa frið til að tala. Það er nú fyrsta atriðið.

Ég var að nefna þau vinnubrögð sem tíðkast við frv. af þessu tagi en eins og fram hefur komið í umræðunni þá er það sérstakt við þetta frv., fyrir utan hvað það er viðamikið, að um er að ræða stefnubreytingu í fjölda mála. Hún felst í því að lagt er til í málum þar sem tekjustofnar hafa verið markaðir með ákveðnum hætti verði því hætt og hér eftir verði ákveðið á fjárlögum hverju sinni hversu miklu fjármagni verði varið til þessara málaflokka. Þarna er um margvísleg mál að ræða og misjafnlega mikilvæg, mismunandi hugstæð þeim sem fjalla um þau hér. En hvert einasta þessara mála hefði auðvitað átt að koma í sérstöku frv. til að fá eðlilega málsmeðferð á Alþingi. Ég nefni þar t.d. kvikmyndamál, húsfriðunarmál, Listskreytingarsjóð o.fl. o.fl. sem hér er til umræðu.

Þá er hér enn að finna hin hvimleiðu ,,þrátt-fyrir-ákvæði`` þar sem löggjafinn er með þessum hætti að grípa fram fyrir hendurnar á sjálfum sér með því að taka út gildi það sem áður hefur verið samþykkt. Þetta er vægast sagt hvimleið aðferð þótt hún sé nú heldur skárri en það sem er gert á öðrum sviðum þar sem lögum er breytt endanlega.

Það sem einkennir bandorminn er í fyrsta lagi að skorin eru niður framlög til ótal málaflokka. Í þessum endanlegu breytingum á lögum felst yfirleitt niðurskurður þó að reyndar hafi tekist að knýja fram örlitlar hækkanir í einstaka tilvikum í umræðum um fjárlög. Það er lagt til að tengsl bóta almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga við þróun launa verði afnumin þó að vonandi sé að verða eitthvert afturhvarf í því ef stjórn og stjórnarandstaða ná samkomulagi í kvöld eða nótt, hvað sem síðar gerist. Það er í nokkrum atriðum verið að velta byrðum yfir á sveitarfélögin og ég get ekki annað sagt en að mér finnst þau vera heldur andvaralaus gagnvart því sem hér er að gerast. Þó að þetta sé ekki í veigamiklum atriðum þá er þetta framkoma við sveitarfélögin af því tagi sem á ekki að líðast. Hér er um það að ræða að löggjafinn samþykkir að þau eigi að leggja ákveðna upphæð á hvern íbúa af mörkum í málefnum þar sem samið hafði verið um milli ríkis og sveitarfélaga að ákveðin verkaskipting og gjaldaskipting ætti sér stað. En nú leyfir ríkisstjórnin sér að leggja til að sveitarfélögin borgi. Þau eiga að borga en ríkið ætlar að hafa það nákvæmlega eins og því sýnist. Mér finnst þetta vera lúaleg framkoma við sveitarfélögin. Hér er ég annars vegar að tala um húsafriðun, þar sem sveitarfélögunum er gert að borga 150 kr. á íbúa. Ríkið á samkvæmt núgildandi lögum að koma með jafnmikið á móti en nú á að breyta þessu og ríkið ætlar bara að hafa það eins og því sýnist. Ég ætla reyndar að koma betur að þessum málaflokki á eftir. Sama gildir um skipulagsgjaldið sem hæstv. umhvrh. gerði heldur lítið úr í dag. Við höfum undir höndum bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem þessum breytingum er mótmælt og því haldið fram að þetta eigi eftir að kosta sveitarfélögin tugi milljóna en fulltrúar umhvrn. og hæstv. umhvrh. hafa gert mjög lítið úr þessu. Það sem þar er um að ræða ekki síður er einhliða breyting á samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga. Þetta höfum við reyndar horft upp á ár eftir ár.

Þá er að nefna, herra forseti, að í bandorminum er verið að breyta nýsettum lögum um bætur til þolenda afbrota. Lögð hefur verið gífurleg áhersla á það í þessari umræðu að fá meiri hlutann til að sjá að sér. Ég hef vonir um að nokkur árangur náist í því. Sannleikurinn er nú sá að það er algjörlega óþolandi að ríkisvaldið skuli ganga fram með þessum hætti. Menn vissu fyrir nokkrum mánuðum hvað þessi lög mundu kosta. Nú leyfa menn sér að koma hér og breyta þeim, skerða bæturnar til brotaþola. Þetta er ekki síður nöturlegt í ljósi þess að sami ráðherrann og stendur að þessari skerðingu gerir sér nú lítið fyrir og lætur undan þrýstingi þingmanna af Vestf. og Norðurl. e., þar sem til stóð að fækka sýslumannsembættum þó að augljóst sé að fólk á viðkomandi stöðum, Bolungavík og Ólafsfirði, getur auðveldlega fengið þessa tilteknu þjónustu í nágrannabæjum. Nei, þessu má ekki breyta. En það er hægt að gera atlögu að gamla fólkinu, að fötluðum og skerða bætur til brotaþola. Maður spyr sig, hvers konar forgangsröðun er þetta? Hvers konar siðferðismat er þetta? Það er sorglegt á þetta að horfa.

Þá er verið að koma á fjármagnstekjuskatti hjá gömlu fólki, þ.e. þeim öldruðu sem hafa fjármagnstekjur. Það er einnig verið að þrýsta mjög á og vonir eru um að slakað verði nokkuð á í þessu. Reyndar er komin fram tillaga um það. En eftir sem áður er reglan í gildi. Það er verið að taka þennan eina hóp út úr og fjármagnstekjur eiga að skerða tekjur hans, þ.e. aldraðra og öryrkja, en skerða ekki tekjur annarra. Ég get ítrekað að samkvæmt fréttum sem ég hef fengið af framgangi fjármagnstekjuskatts hjá þessari ríkisstjórn hef ég ekki sterkar vonir um að honum verði komið á á næsta ári. Ég hef það ekki, en annað kann að koma í ljós.

Í frv. er Framkvæmdasjóður fatlaðra er skertur í fyrsta sinn. Í fyrsta sinn gerist það að tekjur erfðafjárskatts renna ekki óskiptar í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Það er ekki hægt annað en að vara við þessu. Það er rétt sem komið hefur fram að framlög til málefna fatlaðra eru ekki skert. En það eru þarna tilfærslur sem eru vægast sagt vafasamar. Það er verið að nota sölu Sólborgar á Akureyri til þess að fjármagna Framkvæmdasjóð fatlaðra en það þarf líka uppbyggingu á Akureyri í staðinn. Það bara verið að taka þá peninga og setja þá í nauðsynlegar framkvæmdir, nýjar framkvæmdir. Þetta er afar vafasamt, ekki síst í ljósi þess hvernig farið hefur verið með þessa sjóði. Menn hafa búið til markaða tekjustofna til að standa undir ákveðnum framkvæmdum. Eftir nokkur ár er svo farið í sjóðinn og byrjað á að taka peninga í rekstur og svo er gengið lengra og lengra. Það sama gildir um Framkvæmdasjóð aldraðra.

Hæstv. forseti. Þá á að fella niður mæðra- og feðralaun með fyrsta barni og lækka mæðra- og feðralaun með öðru og þriðja barni. Hæstv. fjmrh. rökstyður þetta með því að á móti komi hækkun á barnabótaauka. En það er ekki sami hópurinn sem fær mæðra- og feðralaun og sá sem fær barnabótaauka. Svo sannarlega styð ég að hækka barnabótaauka því hann gengur til þeirra sem verst standa. En það er bara svo afstætt hvað tekjur fólks segja manni um stöðu. Hver er stefna íslenskra stjórnvalda í þessu efni? Á ekki að veita barnafólki neinn stuðning? Það er gert í flestum löndum Evrópu, a.m.k. í Vestur-Evrópu, og reyndar víðar í þeim ríkjum sem reyna að halda uppi sæmilegu velferðarkerfi. Hver á stuðningurinn að vera? Það felst í þessu stefnubreyting. Hún er sú að hætta stuðningi við fólk sem er yfir ákveðnu tekjubili. Er þetta æskilegt? Væri ekki réttara að móta stefnu í þessum málum heldur en að vera sífellt að klípa af hér og þar?

Þá er að nefna enn eitt efnisatriði sem felst í því að upphæðin sem greidd er í Framkvæmdasjóð aldraðra er fryst. Það er enn ein aftengingin.

[22:45]

Loks er það efnisatriðið sem ég hygg nú að muni fara út úr frv., sem er 61. gr. Það er aldeilis makalaust mál sem mér finnst þingmenn ekki hafa gert sér nægilega grein fyrir. Reyndar veit enginn enn þá hvaðan það er ættað, en það er galopin heimild til ríkisstjórnarinnar til að breyta ríkisrekstri og stofnunum ríkisins eins og henni sýnist. Þetta er svo galopin heimild að það er aldeilis makalaust. Hvaðan er þetta komið? Og til hvers er þetta hér? Það kemur í ljós að þessi grein eins og reyndar margar fleiri koma ríkisfjármálum ekki nokkurn skapaðan hlut við. Þær skila engum sparnaði, hafa lítil áhrif að sögn þeirra sem sömdu frv. Til hvers er þetta þá þarna? Hvers vegna er ríkisstjórnin að leita eftir þessari heimild í þessum langa lagabálki? Við hljótum að spyrja þess. Til hvers er þessi grein hér og hvaðan er hún ættuð? Kannski hæstv. menntmrh. geti svarað því. (Gripið fram í.) Já, það liggur vonandi fyrir tillaga um að hún verði felld út úr frv. En ég spyr samt sem áður: Hver var tilgangurinn með þessari grein? (Gripið fram í: Það fæst ekki upplýst.) Nei, það fæst ekki upplýst. En sem betur fer virðist ríkisstjórnin vera að sjá að sér en ég verð að upplýsa hæstv. menntmrh. um það að enn liggja ekki fyrir hér skriflegar tillögur um það nákvæmlega hvað verður fellt út úr... (Gripið fram í: Þær eru komnar.) Eru þær komnar? Það væri ágætt ef að einhverjir hv. þm. vildu vera svo vinsamlegir að... (Gripið fram í: Hvernig væri að þingmaður kynni sér málið áður en hann fer að tala um það?) Þær hafa komið eftir að ég steig hér í ræðustól. Hér eru komnar fram tillögur. Það eru mikil tíðindi, hæstv. forseti. Það er búið að dreifa brtt. við frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og það er eins gott að líta á hvað þetta er. Þar er fyrst að telja að hér eru breytingar á 18. gr. frv. sem fjallar um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. En hér er ekki verið að breyta upphæðunum.

(Forseti (RA): Ég vil benda hv. þm. á að þetta eru brtt. sem við veittum afbrigði fyrir áðan.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að upplýsa mig um það. Ég hef verið svo upptekin við að undirbúa ræðu mína að ég áttaði mig ekki á því að þetta væri komið hér fram. Það er sem sagt verið að breyta þessari grein og hún felur í sér að það er dregið úr þeirri skerðingu sem fyrirhuguð var. Í öðru lagi er verið að breyta 28. gr. og hér er ríkisstjórnin að slaka á fyrir stefnu sinni að aftengja bætur. Í þessu tilviki eru það atvinnuleysisbætur. Það á sem sagt að taka tillit til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála við ákvörðun á bótum á næsta ári. En í því samhengi vil ég upplýsa að það er búið að ákveða hækkun á þessum bótum um næstu áramót, eða um 5,4%. Þetta þýðir væntanlega að einhvern tíma fá hinir atvinnulausu bætt það sem launþegar munu fá með desemberuppbót á næsta ári. Síðan er hér breyting á væntanlegri bótaskerðingu vegna tekna, hún lækkar úr 35% í 30%. Síðan kemur breyting á 35. gr., bætur almannatrygginga. Þar skal hafa þróun launa, verðlags og efnahagsmála til hliðsjónar við ákvörðun bóta. 61. gr. fellur brott. Það er því ljóst að ríkisstjórnin ætlar að slaka nokkuð á í sínum málum og auðvitað fagna ég því. En eftir stendur nú ýmislegt. Það er mjög margt í þessum bandormi sem er gagnrýnivert, þótt þetta séu hin stóru atriði hér, þ.e. aftenging bótanna og bætur til þolenda afbrota. Hér er heldur gengið til móts við þær kröfur og þá gagnrýni sem hér hefur komið fram og ég fagna því. En ég vil jafnframt minna á að það er mjög margt eftir sem ég vil leyfa mér að mótmæla. Þetta þýðir sem betur fer að aðeins er dregið úr þeirri margföldu árás á gamla fólkið sem felst í aðgerðum ríkisstjórnarinnar og hv. þm. Guðni Ágústsson var að mótmæla hér áðan. Eftir stendur sú samþykkt sem gerð var í gær um að fella niður 15% afslátt til lífeyrisþega. Það standa eftir einhverjar hækkanir á komugjöldum á heilsugæslustöðvar sem munu bitna á öllum. Reyndar er ekki ljóst hvernig þau verða í útfærslu. Það var upplýst í hv. heilbr.- og trn. í gær að hugmyndin er að reyna að dreifa þessari hækkun en útfærsla á henni er ekki komin. Og það er ýmislegt fleira í þessum aðgerðum sem eftir er. Það er t.d. fjármagnstekjuskatturinn. Það er reyndar búið að lækka hann aðeins, eins og ég nefndi hér áðan. Eftir stendur skerðing á tekjutryggingu þeirra sem ekki hafa hirt um að greiða í lífeyrissjóði. Reyndar er upplýst að það skipti ekki miklu máli einmitt núna. Og svo eru það auðvitað Framkvæmdasjóður aldraðra og Framkvæmdasjóður fatlaðra, eins og áður er nefnt.

Hæstv. forseti. Ég hef farið á nokkuð mikilli hraðferð yfir flest þau atriði sem ég vil nefna hér. Úr því að ég hef hér hæstv. menntmrh. í sjónmáli vildi ég gjarnan spyrja hann um stefnu hans varðandi bæði Kvikmyndasjóð og húsafriðun. Þetta eru hvort tveggja mál sem ég ber mjög fyrir brjósti. Ég hef mikla trú á íslenskri kvikmyndagerð og finnst að við eigum að reyna að stuðla að sem bestum stuðningi við hana. Það hefur komið fram að ýmsir þeir samningar og sáttmálar sem við erum aðilar að sem tryggja erlent fjármagn til íslenskrar kvikmyndagerðar byggjast á því að framlög okkar sjálfra séu með ákveðnum og góðum hætti. Ég vildi beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. hver stefna hans sé varðandi Kvikmyndasjóð þegar hann missir það hald sem hann hefur í núgildandi lögum og þarf að berjast fyrir fjárveitingum á hverju einasta ári. Hver er stefna hæstv. menntmrh. í þeim málum? Það sama gildir um húsafriðunarmál. Því miður hafa framlög ríkisins verið skert ár eftir ár til þessa mjög svo þarfa verkefnis. Ég vildi gjarnan fá að heyra afstöðu hæstv. menntmrh. til húsafriðunarmála. Finnst honum að þar sé um brýnt mál að ræða? Og finnst honum réttlætanlegt að velta þessu yfir á sveitarfélögin með þeim hætti sem hér er verið að gera en ríkið tryggir ekki sinn hlut á móti?

Ég gæti flutt hér langa ræðu um húsafriðun og öll þau verkefni sem þar eru fyrir hendi en ég ætla að stilla mig um það. Vonandi fæ ég tækifæri til þess síðar. Það er eitt sem ég vil koma á framfæri, hæstv. forseti, sem þyrfti auðvitað að koma fram í tillöguformi. Reyndar fer það eftir því hvað gerist á næstu dögum í þinginu. Hér er til meðferðar frv. til laga um Bjargráðasjóð og reyndar er aðeins eftir að ræða það við 3. umr. Í því er að finna lagagrein þess efnis að framlög ríkisins til Bjargráðasjóðs skuli ákveðin á fjárlögum hverju sinni. Ákvæði það sem er að finna í þessum bandormi er því óþarft og væri auðvitað eðlilegast að fella það niður með tilvísun til þess að við munum væntanlega á morgun samþykkja ný lög um Bjargráðasjóð. Ég vil bara koma þessu á framfæri.

Það er auðvitað spurning hvað ég á að eyða miklum tíma í ýmis þau mál sem eftir eru. Ég vil þó aðeins nefna niðurskurð til flugmálaáætlunar og til vegagerðar. Þótt mér finnist mörg mál brýnni en einmitt þau, var afar athyglisvert að hlusta á útskýringar vegamálastjóra og flugmálastjóra á þessum niðurskurði og hvar hann myndi lenda. Í rauninni er það nokkuð merkilegt miðað við þær áherslur sem verið hafa hér í þinginu ef menn ætla að sætta sig við niðurskurð úti á landi, bæði til flugvalla og vegagerðar. En vissulega bitnar þessi niðurskurður líka mjög hart á okkur hér á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur komið fram í fréttum að undanförnu að það er mjög brýnt að endurnýja Reykjavíkurflugvöll. Ég vil reyndar taka það fram að ég hef miklar efasemdir varðandi þann flugvöll og staðsetningu hans. Það hefði átt að flytja hann fyrir löngu. Því miður völdu Bretar ekki góðan stað þegar þeir byggðu flugvöll þarna á sínum tíma þegar þeir hernámu Ísland. Þetta er mýri, flugbrautirnar á hreyfingu og hann þarfnast mikillar lagfæringar. Eins er brýnt að byggja nýja flugstöð. Sá niðurskurður sem hér er lagður til hefur auðvitað áhrif á forgangsröðun. Hann þýðir það, að sögn flugmálastjóra, að það verða engin ný mannvirki byggð á næsta ári. Og hvað þýðir það fyrir atvinnulífið? Það sama gildir um vegáætlun. Sá niðurskurður bitnar t.d. á Ártúnsbrekkunni. Framkvæmdum mun seinka um heilt ár. Þessu hafa sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu mótmælt harðlega í bréfi til okkar þingmanna Reykv. og Reykn. Jafnframt er bent á að ríkisstjórnin stendur ekki við þá framkvæmdaáætlun sem um var samið við verkalýðshreyfinguna á sínum tíma til atvinnusköpunar. Það hefur alls ekki verið staðið við hana. Ég er eiginlega undrandi á því hversu litla áherslu verkalýðshreyfingin hefur lagt á þá hlið málsins. En mál hafa þróast þannig að menn hafa frekar farið í vörn fyrir þá sem verst standa í samfélaginu.

Hæstv. forseti. Að lokum ætla ég að reyna að draga saman það sem mér finnst eftir standa í þessu frv. Ég endurtek að þótt ég sé mjög örg yfir þeim aðgerðum sem hér er verið að framkvæma og boða er þó nokkur léttir að því að hér er verið að slaka á. Þótt sú stefna ríkisstjórnarinnar að taka úr sambandi tengsl bóta og launakjara og launaþróunar lifi eftir sem áður er samt víða slakað á. Þó er harla mikið eftir og ég vil minna á að við eigum hér mikla umræðu fyrir höndum á morgun um heilbrigðismálin. Eftir því sem ég best veit er ekki komin nein niðurstaða í þau mál. Það kann að vera að hún sé að fæðast á þessari stundu í fjárln. Það er mikil umræða eftir um þann þátt. Það er líka eftir umræða um Háskóla Íslands og hvort menn ætla virkilega að skilja við hann í brotum eins og lýst hefur verið í okkar eyru af stúdentum og talsmönnum háskólans. Enn þarf þar að reyna að sporna við og bæta úr. Það sem eftir stendur í þessu máli eru auðvitað algjörlega ólíðandi vinnubrögð meiri hlutans á Alþingi í frv. sem er allt of seint fram komið, hefur tekið við stöðugum breytingum og felur í sér stefnubreytingu í fjölda mörgum málum án þess að þær breytingar fái viðhlítandi umræðu eða meðferð á Alþingi. Frv. felur í sér skerðingar og árásir á málefni fatlaðra, málefni aldraðra og allnokkuð marga aðra málaflokka og þessu, hæstv. forseti, mótmæli ég. Ég mótmæli þessu þrátt fyrir þær tilslakanir sem eru komnar fram og ég get ekki með nokkru móti stutt þetta frv. og mun greiða atkvæði gegn því í heild.