Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 10:21:19 (2276)

1995-12-21 10:21:19# 120. lþ. 74.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur


[10:21]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér kemur til atkvæða sú fyrsta af mörgum brtt. sem við gerum við sambærileg ákvæði þessa frv., þ.e. að í staðinn fyrir að um varanlega lagabreytingu verði að ræða sem kveði á um aðra tilhögun ríkisframlaga en verið hefur eða er í gildandi lögum komi hefðbundið skerðingarákvæði sem taki eingöngu til þess fjárlagaárs sem í hönd fer. Við leggjum því til að þetta orðist með þeim hætti og það tengist afstöðu okkar til málsins í grundvallaratriðum að það sé óeðlilegt að standa að lagasetningunni með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórn leggur til, þ.e. að gerð verði varanleg breyting, stefnumarkandi breyting í mörgum tilvikum, á fjölmörgum lagaákvæðum í bandormsfrv. af þessu tagi. Þessi atkvæðaskýring vísar því til annarra sambærilegra brtt. sem koma hér fram við allmargar greinar í frv. á eftir.