Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 11:13:58 (2301)

1995-12-21 11:13:58# 120. lþ. 74.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur


[11:13]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að undirstrika það að sú breyting sem hér er verið að gera er veruleg framför frá því sem til stóð af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hún hefur hopað á hæli í þessu máli a.m.k. hálfa leið af eftirfarandi ástæðum: Í fyrsta lagi þeirri að fjármunir eru tryggðir til bóta almannatrygginga eins og horfur eru fyrir árið 1996 samkvæmt fjárlagafrv. sem liggur fyrir. Í öðru lagi er ljóst að sú breyting sem hér er verið að gera mun í mesta lagi hafa áhrif á árinu 1997, en í upphafi þess verða gerðir nýir kjarasamningar. Þá er þetta mál bæði á borði Alþingis og líka verkalýðshreyfingarinnar. Í þriðja lagi er það þannig, það er grundvallaratriði málsins, að gildandi ákvæði þessa máls vakna á ný til lífsins og til viðmiðunar fyrir almannatryggingabætur í síðasta lagi frá og með 1. jan. 1998. Það er ávinningur í málinu og þess vegna styð ég þetta.