Umferðarlög

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 12:55:47 (2316)

1995-12-21 12:55:47# 120. lþ. 75.6 fundur 259. mál: #A umferðarlög# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur


[12:55]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þessi skýring hæstv. dómsmrh. var býsna góð svo langt sem hún náði en það vantaði í hana botninn. Botninn þarf að vera sá að hæstv. ráðherra taki af tvímæli um að þessi skerðing á ríkisframlaginu til Umferðarráðs á móti sé tímabundin og aðeins ákveðin fyrir árið 1996. Ef það er ekki gert, sér náttúrlega hver heilvita maður í gegnum það, að það er ekki verið að bæta stöðu umferðaröryggismálanna um eina einustu krónu með þessari ráðstöfun. Og þá verður ekkert úr framkvæmdaáætlunum um aðgerðir í umferðaröryggismálum því þær gera að sjálfsögðu ráð fyrir því að það komi til viðbótartekjustofn hjá Umferðarráði með hækkun gjaldsins til að standa undir nauðsynlegum nýjum aðgerðum og útgjöldum, fræðslu og ráðstöfunum í umferðar- og öryggismálum. Markmið áætlunarinnar er að draga úr alvarlegum umferðarslysum um 20% á nokkrum næstu árum þannig að það þýðir ekki að bjóða okkur svona einfalda röksemdafærslu. Það verður að banka í kollinn á hæstv. fjmrh. og hætta að láta hann stjórna alls óskyldum málum. Umferðaröryggismál heyra ekki undir fjmrn. og fjmrh. verður að gjöra svo vel að láta sér nægja að það liggi fyrir við afgreiðslu málsins að það sé eingöngu verið að ganga frá þessu til eins árs með þessum hætti. Öðruvísi er ekki hægt að sætta sig við þetta sem niðurstöðu.