Umferðarlög

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 12:57:55 (2317)

1995-12-21 12:57:55# 120. lþ. 75.6 fundur 259. mál: #A umferðarlög# (breyting ýmissa laga) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur


[12:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Málið er enn alveg í uppnámi. Þetta er enginn frágangur á því og ég sætti mig mjög illa við að þetta verði ekki til lykta leitt með skýrum hætti. Aðstæður í málinu er engan veginn boðlegar. Ég trúi því ekki að stjórnarliðar hafi ekki meiri metnað til hlutanna en þann að þeir vilji láta stjórnartillögu liggja í reiðileysi fyrir þinginu og örlög mín eru nú nokkuð sérkennileg, stjórnarandstöðuþingmannsins, að vera orðinn sá eini sem ber hana fyrir brjósti. Stjórnartillaga um aðgerðir í umferðaröryggismálum liggur hér fyrir þinginu. Hvað eigum við þingmenn þá að gera með hana? Eigum við að henda henni? Hún er í glanskápu, eitthvert fallegasta þingskjal sem hefur verið dreift um áraraðir. Ég man aldrei áður eftir því að það sé haft svo mikið við að notað sé ,,hard-cover``, glanskápa á þingmáli, af því þetta er svo fínt. Þetta er þá virðingin sem á að sýna því. Það á í raun og veru að henda því með afgreiðslu þessara mála hér.

Ég ætla ekki að tefja tímann með umræðum um þetta frekar og sætti mig svo sem við það að 2. umr. ljúki hér. En ég mótmæli því, herra forseti, að þetta verði tekið til 3. umr. fyrr en komin er einhver niðurstaða í þetta mál. Mér sýnist á ýmsu, m.a. á áköfum símtölum hæstv. fjmrh. út í bæ, hér í dyrunum, að stjórnarliðar þurfi einhvern tíma til að ná áttum í málinu. Ég legg til að þeir fái hann og málið verði tekið af dagskrá, helst að þessari umræðu verði frestað um sinn. Það má svo klára málið ef botn kemst í þetta síðar í dag.