Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 14:34:25 (2344)

1995-12-21 14:34:25# 120. lþ. 76.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[14:34]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli hv. þm. á því að um vaxtabætur er fjallað í lögum um tekjuskatt og eignarskatt og þær eru hluti af skattkerfinu, sömuleiðis barnabætur og barnabótaauki. Við skulum gera okkur grein fyrir því að bætur almannatrygginga eru skertar eftir tekjum með ýmsum viðmiðunum. Ellilífeyririnn er skertur miðað við tekjur, tekjutryggingin er skert miðað við tekjur og meira að segja er gengið það að langt að tekjutryggingin er skert mjög mismunandi eftir því hvers eðlis tekjurnar eru. Þannig er sérstakt frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna og sérstakt frítekjumark vegna almennra tekna og vaxtatekjurnar koma fyrst núna inn í þessa mynd.

Ég tel að Alþingi væri t.d. fyllilega í rétti ef það kysi að taka upp eitt frítekjumark fyrir allar tekjur þannig að lífeyrissjóðstekjur nytu ekki sértekna, atvinnutekjur væru meðhöndlaðar eins og aðrar tekjur og fjármagnstekjur eins og aðrar tekjur. En það væri ekki hægt að gera það nema með afturvirkri viðmiðun ef maður ætlaði að láta þetta ganga í gildi sama ár. Ég tel að afturvirkni í skattalögum og að breyta bótum með slíkum hætti væri alls ekkert á skjön við nein stjórnarskrárákvæði.