Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 15:02:30 (2350)

1995-12-21 15:02:30# 120. lþ. 76.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[15:02]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að fá tilefni til þess að svara þessu. Ég verð að segja eins og er að mér finnst þessi yfirlýsing Alþýðusambandsins, með fullri virðingu fyrir þeim miklu samtökum, nokkuð óvarlega orðuð svo ekki sé meira sagt. En það hefur kannski gerst í hita einhvers leiks. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Til að tryggja frið á vinnumarkaði og skapa traustari skilyrði fyrir sátt í þjóðfélaginu um kjaramál hefur ríkisstjórnin ákveðið eftirfarandi aðgerðir:

1. Atvinnuleysisbætur hækki 1. jan. 1996 um 150 millj. kr.`` Það er gert.

,,2. Bætur almannatrygginga hækki 1. jan. 1996 um 450 millj. kr.`` Það er gert þannig að það var staðið algerlega við þessar yfirlýsingar.

Til viðbótar og umfram þetta var síðan í meðferð hv. efh.- og viðskn. bætt inn einum 40 millj. kr. til að styrkja enn frekar þessa þætti og þá einkum varðandi fæðingarorlofið ef ég man rétt. (Gripið fram í: Í fjárln.) Var það í fjárln.? Já, auðvitað. Þannig að þetta fær alls ekki staðist og hv. þm. getur verið algerlega róleg yfir því. En síðan segir í ályktuninni, með leyfi forseta:

,,Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir einnig megnustu andúð sinni á tillögu heilbrrh. um að auka enn frekar við tekjutengingu grunnlífeyris elli- og örorkulífeyrisþega úr 25% í 35%. Það framferði,`` eins og það er orðað ,,að hækka skatta elli- og örorkulífeyrisþega sem er með tekjur á bilinu 68--100 þús. kr. með þessum hætti en halda skattbyrði þeirra sem eru með yfir 300 þús. kr. á mánuði óbreyttum, segir meira um pólitískar áherslur og siðferði ráðherrans og ríkisstjórnarinnar en orð fá lýst.``

Ég hlýt að vekja athygli á því að ríkisstjórnin hefur að kröfu Alþýðusambandsins einmitt gert sérstakan þátt, þ.e. lífeyrissjóðsgreiðslur, frádráttarbærar frá skatti sem kemur ekki síst til góða þeim sem hærri hafa tekjurnar þannig að ég tel að þetta sé afar óvarlega orðað af hálfu Alþýðusambandsins.