Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 15:06:37 (2353)

1995-12-21 15:06:37# 120. lþ. 76.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[15:06]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. forsrh. að Alþýðusambandið vildi alltaf nálgast málið frá hinum endanum og það var ekki aðeins verkalýðshreyfingin og reyndar vinnuveitendur sem gagnrýndu þá aðferð og þá leið sem þá var farin heldur benti stjórnarandstaðan líka á það, eins og ég hef reyndar margoft rifjað upp í umræðunni, að þetta væri dæmi sem yrði ákaflega erfitt. Ég segi það enn og aftur að ég hefði verið tilbúin að styðja það að trappa þetta niður, taka þetta í áföngum. En eins og þetta var gert af hálfu ríkisstjórnarinnar er þetta svo mikið högg að fá akkúrat þennan hóp sem er með tekjur á bilinu 70--100 þús. kr. og það, hæstv. forsrh., er ekki hátekjufólk, það veit guð almáttugur. Það er einmitt verið að skerða hjá þeim hópi með aðgerðum ríkisstjórnarinnar á margfaldan hátt.