Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 15:32:19 (2363)

1995-12-21 15:32:19# 120. lþ. 76.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[15:32]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég byrja á því að taka undir með fyrrv. ræðumanni, hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni, að enda þótt sú niðurstaða sem nú blasir við sé ekki að öllu leyti góð, síður en svo, þá hefur verkalýðshreyfingin, samtök launafólks, BSRB, Alþýðusambandið og stjórnarandstaðan á þingi náð umtalsverðum árangri með tilliti til þeirra skerðingaráforma sem ríkisstjórnin hafði uppi fyrir nokkrum vikum.

Ég kem fyrst og fremst hingað til að leggja áherslu á að ég lít svo á að þær umræður sem hafa farið fram um breytta viðmiðun fyrir atvinnuleysisbætur, lífeyris- og tryggingabætur, séu afar mikilvægar. Hér hefur verið staðfestur sá skilningur sem ég setti fram við atkvæðagreiðslu fyrr í dag í þá veru að breytt viðmiðun fyrir atvinnuleysisbætur og lífeyris- og tryggingabætur munu ekki hafa í för með sér neinar skerðingar frá fyrra fyrirkomulagi.

Margir hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa komið upp og ítrekað þetta sjónarmið og hv. þm. Svavar Gestsson fór mjög rækilega yfir þessi mál í ræðu sinni að viðstöddum fjmrh. og hv. formanni efh.- og viðskn. þingsins. Við atkvæðagreiðsluna fyrr í dag var nær öll ríkisstjórnin viðstödd án þess að þeim skilningi, sem hér er lýst, væri andmælt eða önnur sjónarmið höfð uppi. Mér finnst ástæða til þess að leggja mjög ríka áherslu á þetta.