Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 15:56:29 (2367)

1995-12-21 15:56:29# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[15:56]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli 1. flm. þessarar brtt., þá er um þetta mál að segja að sannarlega orkar það tvímælis þegar menn líta það fyrst augum. Ég taldi því rétt að gera þingheimi grein fyrir því hvernig stendur á því að ég er einn af flm. þessarar tillögu.

Ég vil taka það fram svo að það sé alveg skýrt að persónulega fannst mér mjög óþægilegt hversu seint þetta mál er fram komið og hlýtur að vera til mikilla óþæginda fyrir þingið að þannig gerist það.

Ég var mjög lítt kunnur þessum málum öllum fyrr en fyrir fjórum dögum að það kom fyrst á okkar borð hjá efh.- og viðskn. Mér komu því þessar beiðnir dálítið spánskt fyrir sjónir. Eftir að hafa eftir atvikum reynt að kynna mér það og kynna mér alla málavöxtu eins og ég hef getað á þessum skamma tíma, var það niðurstaða mín að vera meðflm. að þessari tillögu. Eins og ég lít á þetta mál og eins og ég lít á það hvernig það er tilkomið, þá er það þannig að það má raunverulega skipta þessum eina milljarði í þrjá hluta. Fyrsti hlutinn eða 300 millj. kr. eru einfaldlega vegna þess að verkið hefur hækkað. Það hefur hækkað þann tíma sem liðinn er frá útboðinu en það eru einir 16 mánuðir síðan gengið var frá því. Hvort það er réttmætt eða ekki get ég ekki efnislega lagt dóm á en verð að treysta þeim aðilum sem þarna er um að fjalla og því að þeir séu að gera þetta af viti og samviskusemi. Þetta er bónus ofan á verkið sem verður þó ekki greiddur fyrr en því er lokið. Að mínu mati er því þarna um fjárskuldbindingu ríkisins að ræða, 300 millj., sem er einfaldlega hækkun verksins.

Í öðru lagi er þarna um aðrar 300 millj. að ræða sem er ábyrgð til fyrirtækisins Spalar hf. Í þeim 300 millj. er sannarlega eins og kom fram í máli 1. flm. nokkur áhætta. Ég tel að það sé þó nokkur áhætta. En fyrst og fremst eru rökin fyrir því að veita þessa ábyrgð þau að þetta fyrirtæki sem menn hafa sannfærst um fyrir einhverjum árum að væri rétti aðilinn til þess að annast verkið, er ákaflega lítið fyrirtæki. Það á reyndar mjög litlar eða engar eignir og er nánast skúffufyrirtæki. Það getur því ekki fjármagnað sig nema með ofurvöxtum þannig að stórum hluta til er verið að lækka kostnaðinn í heild með því að veita því ríkisábyrgð.

Um þetta má að sjálfsögðu deila og það er ástæða til þess að staldra við. Er rétt að veita fyrirtæki ríkisábyrgð til þess að lækka hjá því vexti? Almennt talað mundi það ekki vera. Almennt talað mundu menn ekki gera það, ekki að mínum dómi. En sannarlega eins og málum er komið mun þetta lækka verkið og sé áhættan tiltölulega lítil eins og gögn sýna sem við höfum skoðað, þá getur verið réttlætanlegt að gera það.

Í fjórða lagi er þarna um 400 millj. kr. að ræða vegna vegalagninganna að göngunum. Ég lít þannig á að með þessar 400 millj. séum við að fjalla um gamalt heimatilbúið vandamál í ríkisfjármálunum. Það er svo að það hefur löngum verið metnaðarmál manna að láta fjárlögin líta út með sem minnstum halla og er skiljanlegt. Að mínu mati eru menn að ofmeta þá þýðingu sem lítill halli fjárlaganna segir því að réttu ættum við að meta saman fjárlögin og lánsfjárlögin og reyna þannig að mynda okkur skoðun á því hvort staða ríkissjóðs er að veikjast eða styrkjast. Það er auðvelt að sýna fram á að fjárlög kannski með þó nokkrum halla, tíu milljörðum eða svo þar sem mikið er um arðbærar fjárfestingar, kunna að vera jafnvel betri en þau fjárlög sem hafa engan halla en allir peningarnir fara í eyðslu. Ég held því að undirrót þessa liggi í því að við yrðum betur í stakk búin til að fjalla um fjárlagavandann ef við tækjum hreinlega Vegagerðina, þetta stóra fjárfestingarfyrirtæki ríkisins út úr A-hluta ríkissjóðs og fjölluðum ekki um þær tölur sem Vegagerðin skapar í fjárlögunum jafnhliða því að fjalla um rekstrarvandann.

Viðfangsefni þingsins nú hlýtur að vera og er það sama og það hefur verið áratugum saman, að reyna að ná tökum á rekstrarvanda ríkissjóðs. Það er vandamál þessa þings. Það er vandamál allra þjóðþinga Evrópu og allir vita að hvorki okkur né öðrum hefur gengið svo mjög við það. Í heild má segja, ef við metum þetta og ég get sagt það hreinskilnislega að ég met þennan 3. lið eða þessar 400 millj. sem samsvörun þess að við værum með 400 millj. kr. meiri halla á fjárlögum. Ég segi það bara beint út. Ég sé enga ástæðu til að draga dul á það.

Ég ætla að það séu þrjár ríkisstjórnir sem hafa fjallað um þetta mál. Ég er í sjálfu sér ekki að draga í efa ágæti framkvæmdarinnar en það fellur óneitanlega mikill skuggi á þetta vegna þess að allan tímann sem málið hefur verið til umfjöllunar hefur það verið rætt á forsendum þess að ríkið þyrfti ekki og ætti ekki að koma nálægt því. Þess vegna hefur það fengið sérstaka afgreiðslu. Þess vegna má segja að þessi framkvæmd hafi komist fram fyrir aðrar framkvæmdir í þeirri goggunarröð sem unnið er eftir í vegaframkvæmdum. Það má því segja að fyrirtækið Spölur, sem mér skilst að sé hlutafélag í eigu opinberra fyrirtækja norðan Hvalfjarðar, hafi náð tilgangi sínum því að hann virðist vera sá að hafa komið þessari framkvæmd núna af stað, ella hefði framkvæmdin átt sér stað einhvern tíma um miðja næstu öld að því mér er sagt. Í sjálfu sér er því ástæða til að óska þeim aðilum til hamingju með það. Að öðru leyti verð ég að segja að mér finnst hlutur þessa fyrirtækis bágur að öllu leyti. Það hefur ekki getað staðið við það sem til var ætlast og því miður stöndum við uppi með það að allir þeir aðilar sem að málinu hafa komið í þrjár ríkisstjórnir, hafa því miður verið ósannindamenn af því að þær forsendur að þetta yrði án ríkisábyrgðar fást ekki staðist. Og það er mjög leiðinlegt því að ég veit að allir þeir sem hafa lýst þessu yfir í gegnum tíðina hafa verið að gera það í góðri trú. Ég efast ekki um það.

Hins vegar er mér ekki ljóst hvenær það varð að þetta verk gæti ekki gengið fram öðruvísi en með aðstoð og hjálp ríkisins. Ég veit það ekki. Ég verð þó að trúa því og ætla að það hljóti að hafa verið eitthvað áður en fyrir fjórum eða fimm dögum þegar þinginu var fyrst sagt frá þessu á mánudag. Ég trúi ekki öðru og mér finnst það mjög miður að svona beri málið að. Mér finnst það mjög miður því að það hlýtur að skaða alla sem að málinu koma því það hlýtur að hafa verið þekkt fyrr.

Eftir að hafa reynt að skoða þetta mál eins og hægt er á fjórum sólarhringum, varð það mín niðurstaða og okkar nefndarmannanna að það væri ljóst að án þessarar hjálpar kæmi þetta verk ekki til framkvæmda. Það væri sem sagt búið spil. (ÓRG: Það eru nýjar upplýsingar í málinu.) Það er mitt mat og okkar að komi ekki ríkisábyrgð til, muni ekki koma til þessara framkvæmda. Það er bara mat.

[16:00]

Þótt mér finnist þetta bera illa að og hörmulegt að vegaframkvæmdum skuli hafa verið raðað upp á fölskum forsendum, lít ég þannig á að það væri meira tjón og meiri ábyrgðarhlutur að koma í veg fyrir framkvæmdina heldur en að veita þessa ríkisábyrgð sem mér er þó alls ekki ljúf. Þótt aðdragandinn hafi verið slæmur, met ég það svo að framkvæmd þessa verks sé í sjálfu sér þjóðinni og öðrum til ágætis og get ekki annað en óskað þeim til hamingju sem munu njóta þessarar framkvæmdar. Þess vegna tek ég þá afstöðu að styðja málið. Ég vil heldur gera það en eiga þátt í því að verkið falli niður og allt sem unnið hefur verið að í 6 ár fari í súginn. Ég tel það skárri kost af tveimur illum.

Ég met það líka svo að með því að gera þetta á þennan veg þótt ógeðfelldur sé, séu menn að styrkja heildarstöðu ríkisins. Ég ætla hvorki að leita blórabögguls í þessu máli né sakafella neinn vegna þeirra röngu upplýsinga sem voru hér á ferðinni. En ég tel það skyldu okkar að reyna að halda tjóni ríkissjóðs í lágmarki og koma með tillögur um það á hvern veg þetta gengur best úr því sem komið er. Þess vegna er ég flm. þessarar tillögu.