Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 16:11:21 (2369)

1995-12-21 16:11:21# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[16:11]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég tók skýrt fram orkar það að sjálfsögðu tvímælis svo ekki sé meira sagt að veita ríkisábyrgð til að lækka vexti. En mér er sagt að þannig hátti til um samninga ríkisins og Spalar hf. að frá þeim hafi verið gengið þegar annað ráðuneyti Steingríms Hermannssonar var við völd. Þá gegndi hv. þm. starfi fjmrh. Þannig var frá málum gengið að Spölur hf. fékk einkaleyfi á þessari framkvæmd. Með því að lækka vaxtakostnað fyrirtækisins styttist einfaldlega sá tími sem gjald er tekið af veginum. Hér er einfaldlega verið að lækka framkvæmdakostnað. Það eru rökin sem lögð voru fyrir nefndarmennina og þannig skildum við málið eftir að hafa reynt af fremsta megni að kynna okkur það.

Í öðru lagi skýrði ég frá því að þeir samningar sem allt stendur og fellur með eru þannig að beðið er um 300 millj. kr. ríkisábyrgð til að framkvæma verkið, með því fororði að það gjaldfalli ekki fyrr en því er lokið. Ég skýri bara frá þeim upplýsingum sem við fengum þegar við kynntum okkur málið. Ég tel mig fara með rétt mál og óhætt sé að treysta því að svona er þetta.