Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 16:15:46 (2371)

1995-12-21 16:15:46# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[16:15]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég hélt að hefði komið mjög skýrt fram í máli mínu þá er það hörmulegt, og þessi tillaga liggur frammi í þeim skugga, að allir þeir aðilar sem að þessu máli hafa komið hafa lýst yfir að það skyldi aldrei verða. Það er alveg hárrétt. Mér er það fullkomlega ljóst og ég hef gagnrýnt það mjög. En ég lagði fram í röksemdafærslu minni hvers vegna ég gerði þetta.

Þó að svona hörmulega sé að verki staðið, og ég ætla að ég og hv. þm. höfum engan meiningarmun um það, þá er spurningin þessi: Hvort er betra að falla frá þessu þegar ljóst er að forsendurnar sem sannanlega voru lagðar fyrir í upphafi eru ekki lengur til staðar eða að veita þessu ábyrgð? Það er röksemdin fyrir því hvers vegna ég tæki þá þennan vonda kost af tveim vondum. Ég lét það í ljós og það kom mjög skýrt fram að þessi málsmeðferð er mjög slæm. En ég get ekki borið ábyrgð á því og get ekki sagt um það hvers vegna þetta var svona. Hvers vegna hafa þrjár ríkisstjórnir verið plataðar í málinu? Hvers vegna hefur þjóðþingið núna í fimm ár talið sig gera þetta á röngum forsendum? Ég ber enga ábyrgð á því. Ég var aðeins að skýra hverju ég taldi mig hafa komist að.