Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 16:23:54 (2376)

1995-12-21 16:23:54# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., Frsm. minni hluta JBH
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[16:23]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég byrja á því að taka undir þá rökstuddu ósk hv. þm. Ágústs Einarssonar í ljósi þeirra upplýsinga sem þessi umræða hefur þegar leitt fram að umræðu verði frestað en ég tel rétt hins vegar að gera það eftir að fram hafa komið --- og þær munu koma fram í máli mínu --- upplýsingar um hina þinglegu málsmeðferð gagnvart efh.- og viðskn.

Ég mótmæli því harðlega sem hv. formaður efh.- og viðskn. sagði í upphafi ræðu sinnar að hann teldi að efnisleg afstaða manna til Hvalfjarðarganga, til verkefnisins sjálfs, ráði afstöðu manna til þessa máls. Allur aðdragandi málsins afsannar það. Þetta mál er ekki nýtt. Það á sér langan aðdraganda. Sennilega hefur verið fjallað um það í þremur ríkisstjórnum, ég veit ekki hve mörg ár. Það hafa verið gerðir um það samningar af hálfu stjórnvalda og þeir samningar verið skilyrtir og bundnir rækilega tilteknum forsendum. (Gripið fram í: Og afgreiddar tillögur á Alþingi.) Og afgreiddar tillögur á Alþingi og það sem nú er að gerast er það að fáeinum klukkustundum fyrir þinglok er verið að kippa þessum forsendum öllum til baka og segja síðan að allt sem áður hafi verið gert í málinu og öll áform um þessar framkvæmdir í framtíðinni séu í hættu nema því aðeins allir aðilar falli frá gefnum forsendum málsins. Sá sem vefengir þessa málsmeðferð er ekki að taka afstöðu til verkefnisins sem slíks. Það er allt annað mál.

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég ræða málsmeðferðina. Það var ekki fyrr en í gærkvöldi á fundi efh.- og viðskn. sem við fulltrúar stjórnarandstöðu í efh.- og viðskn. fengum að vita að uppi væru áform um það af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja fram tillögu um ríkisábyrgð upp á einn milljarð. Það er rétt að formaður nefndarinnar hafði skýrt frá því að ríkisstjórnin hefði uppi áform um tillöguflutning í þessu máli sem við þekktum ekki efnislega og engar upphæðir nefndar. Það vorum við, fulltrúar stjórnarandstöðunnar, sem óskuðum sérstaklega eftir því og gerðum um það kröfu að aðilar málsins kæmu á fund efh.- og viðskn. til þess að veita upplýsingar. Það er þá fyrst þegar þeir setjast á fund með okkur sem okkur er ljóst að fyrir dyrum stendur við lokaafgreiðslu hér úr þingi að leggja fram tillögu um algera stefnubreytingu í þessum málum undir þeim formerkjum að framhald málsins sé algerlega undir því komið að ríkið falli frá boðaðri stefnu og forsendum áður gerðra samninga og kúvendi málinu. Rétt er að taka fram að þær upplýsingar sem við fengum voru í alla staði ófullnægjandi þegar ræðum mál af þessari stærðargráðu og mál sem bundið er þessari áhættu. Fjarri því að upplýsingarnar væru fullnægjandi eða málið hefði verið rætt til nokkurrar hlítar. Við hlustuðum á þessa menn sem komu á fund nefndarinnar. Í þeim umræðum kom fram að menn voru mjög gagnrýnir og fjöldi spurninga vaknaði í þeim umræðum sem við teljum að sé enn ósvarað samanber þær umræður sem hér fara fram.

Virðulegi forseti. Um málsmeðferðina. Þegar um er að ræða mál sem er svona stórt þar sem þær fjárhæðir sem um er að ræða eru jafnháar og raun ber vitni og í ljósi þeirrar staðreyndar að ríkið er áður búið með samningum að leggja niður forsendur málsins, svo er allt í einu komið og kúvent málinu gersamlega fyrirvaralaust, þá spyr ég: Hvernig dettur nokkrum heilvita ábyrgum manni í hug að ætla að keyra þetta mál í gegnum Alþingi á seinustu klukkustundum þinghalds bara með þeirri fullyrðingu: Já, málið er ella í hættu og við ætlum að fara að byrja framkvæmdir núna í janúar, ,,come hell or high water``, hver svo sem áhættan er burt séð frá stefnubreytingunni, burt séð frá því að forsendur eru gerbreyttar. Er það boðlegt í ljósi þess að einn flutningsmanna, eins og hér hefur komið fram, segir: Ég tel persónulega að 300 millj. kr. séu nægar í formi ríkisábyrgðar til þess að koma í veg fyrir það að málið sé í hættu eða uppnámi en flytur síðan tillögu um einn milljarð? Eða viðbótarrökin að 300 millj. af þessu séu settar fram ósk um ríkisábyrgð til þess að lækka vaxtakostnað skúffufyrirtækis sem ríkið hefur samið við á þeirri forsendu að til engrar ríkisábyrgðar komi. Það er ekki eins og þetta mál hafi byrjað í gær eða fyrradag. Síðan afgangurinn, 400 millj., vegna þeirrar ábyrgðar sem ríkið hefur frá upphafi haft á vegtengingunni sem er allt annað mál og er ekki svo knýjandi í tímanum að Alþingi eigi að taka slíkar ákvarðanir á þessum forsendum.

[16:30]

Forsaga málsins er sú að víðtækur stuðningur var við það að fara af stað með þessar framkvæmdir á tilteknum forsendum. Forsendurnar voru þær að einkafyrirtæki samdi um og fékk einkaleyfi um það að það ætlaði að annast þessar framkvæmdir. Það kynnti áætlanir um fjármögnun framkvæmdanna og tók það fram í hvert einasta skipti að það óskaði ekki eftir ríkisábyrgðum. Ekki væri verið að fara fram á neinar ríkisábyrgðir og stuðningur ríkisins og samningar ríkisins eru á þeirri forsendu. Þess vegna var á það fallist að þessi framkvæmd færi ekki bara í vegáætlun og færi ekki bara í langtímaáætlun ríkisins um opinberar framkvæmdir eða byggðist á samningum milli hv. þm. um skiptingu á vegafé milli kjördæma. Hvernig stendur á því að þessar forsendur eru nú allar fallnar? Hvenær var upplýst að þessar forsendur stæðust ekki lengur? Ef það er staðreynd að þær standist ekki lengur, hver eru viðbrögðin? Liggur ljóst fyrir að þá eigi bara að segja: Ja, því miður? Einkaaðilinn hefur brugðist og þá er engin önnur leið en sú að opna tékkhefti ríkissjóðs og almennings? Hvað er að segja um hina erlendu fjármögnunaraðila? Hvað er að segja um þá aðila sem hafa sagt: ,,Þessi framkvæmd er í lagi vegna þess að hún er byggð á arðsemismati til lengri tíma?`` Hefur það breyst? Hefur stefna erlendra aðila og aðild að fjármögnuninni, hér er nefndur Enskildabank, breyst? Er nú verið að leggja fram einhverjar nýjar kröfur á hendur ríkinu vegna þess að af hálfu fjármögnunaraðila sé ekki lengur traust á milliaðilanum, Speli hf.? Er staðreynd að búið sé að semja um að veita verktakanum sem vann útboð um framkvæmdina tryggingar fyrir því að hann megi ganga kannski 300--420 millj. kr. umfram umsamið verk á ríkisáhættu? Ef það er svo, hvað er að segja um vinnubrögðin í málinu þegar jafnstór og mikil framkvæmd er boðin út gagnvart öðrum tilboðsaðilum sem lögðu fram tilboð í verkið og fengu þau metin á allt öðrum forsendum?

Það er líka ástæða til að spyrja: Er það svo að þegar hafi átt sér stað greiðslur úr ríkissjóði, án heimildar, upp á tilteknar upphæðir til þessa fyrirtækis sem Alþingi hefur ekki lagt blessun sína yfir? Ég bið menn að staldra við. Ég er einfaldlega að varpa fram eðlilegum og sjálfsögðum spurningum og upplýsa um það hvernig þetta mál ber að gagnvart þinginu. Ég bið menn og segi við hv. stjórnarliða, hv. þingmenn í liði ríkisstjórnarinnar sem hefur meiri hluta á Alþingi: Er ekki ástæða til þess af ykkar hálfu að þið staldrið nú ögn við? Ætlið þið einfaldlega að láta ykkur nægja þær upplýsingar sem hér hafa komið fram? Teljið þið ykkur hafa fengið þær upplýsingar sem duga til þess að kúvenda þeirri stefnu sem mótuð hefur verið í þessu stóra máli? Þurfið þið ekki að fá fyllri upplýsingar ef þið ætlið að axla ábyrgð af stefnubreytingunni? Verður ykkur ekki hugsað til annarra sambærilegra ákvarðana sem hafa verið teknar í skyndingu og að lítt athuguðu máli og reynst í framkvæmd með allt öðrum hætti heldur en þegar upp var lagt? Það þýðir ekki að segja sem svo að þetta séu nú ekki nema 400 millj. kr. í aukinn halla í ríkisbúskapnum. Það er verið að kúvenda frá boðaðri stefnu í gríðarlega stóru máli. Ég spyr: Úr því að það er kúvent svona léttilega núna og lögð er fram tillaga um milljarð þegar flm. segir að 300 millj. séu nóg, hafið þið fengið upplýsingar, sem eru sannfærandi og þið treystið, um að ekki verði komið aftur og beðið um meiri ríkisábyrgð að kröfu fjármögnunaraðila vegna þess að þeir hafa glatað trú á Speli hf.? Væri nú ekki æskilegt að menn hugsuðu ráð sitt og litu ekki á þetta mál sem eitthvert metnaðarmál að keyra í gegnum Alþingi með þessum hætti? Hugið þið að málsmeðferðinni. Ég hygg að við séum allir undir þá sök seldir að eiga rétt á því áður en svo viðamiklar ákvarðanir eru teknar um að kollvarpa gildandi stefnu að rannsaka málið miklu, miklu betur, að krefjast miklu meiri upplýsinga en t.d. við sem eigum sæti í efh.- og viðskn. höfum undir höndum. Þetta mál er þess eðlis, það er það mikið í húfi, að ekki á að keyra það í gegn með einhverjum asa og ofurmetnaði á örstuttum tíma. Við erum á kafi í risavöxnum verkefnum þótt þetta bætist ekki við. Þetta eru viðvörunarorð og ég segi ekki meira á þessari stundu.

En ég endurtek, virðulegi forseti, í ljósi þeirra upplýsinga sem fram eru komnar um að flm. telur að hér sé verið að fara fram á miklu meiri ríkisábyrgð en nauðsyn krefji og í annan stað að hluti af því sem verið er að fara fram á sé til þess að lækka vaxtakostnaðinn hjá skúffufyrirtæki, svona röksemdir duga ekki til þess að keyra málið í gegn. Þess vegna er það eðlileg og sanngjörn ósk og í alla staði þingleg að óska eftir því við hæstv. forseta að hann gæti nú sóma þingsins og þetta mál verði tekið af dagskrá og það fái eðlilega umfjöllun, hver svo sem niðurstaðan kann að verða.