Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 16:40:51 (2379)

1995-12-21 16:40:51# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[16:40]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það var, ég veit ekki hvort ég á að kalla það tilbreytingu, en lýsandi fyrir málafylgju síðasta ræðumanns, hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, að bera sig að með þeim hætti að biðja um orðið um stjórn þingsins þegar hann heyrði að ég átti að taka næstur til máls. (ÓRG: Það var ekki búið að því.) Það var búið að segja: ,,Næstur tekur til máls hæstv. ...`` og þá barði í borðið þessi hv. þm. því þá vissi hann að ráðherrann mundi taka til máls næstur. Hann vissi kannski ekki hver það yrði. Upphafssetning hans var sú að hann kvartaði yfir því að enginn ráðherra hefði tekið til máls um þetta mál né tekið ábyrgð á því í umræðunum. Hann skaust upp þegar hann heyrði að búið var að gefa ráðherra orðið til þess að kvarta undan því að enginn ráðherra hefði tekið til máls og lauk svo ræðu sinni með því að fara fram á að umræðunni yrði frestað án þess að ráðherrann fengi að taka til máls og skýra hvað lægi á bak við beiðnina um ábyrgðina. Þetta lýsir með skemmtilegum hætti leikfimi hv. þm. þegar hann stígur í ræðustólinn, enda rómaður mjög fyrir málafylgju sterka. Má segja að fáir séu jafnokar hans í því.

Ég held að nauðsynlegt sé að rifja þetta mál upp í heild sinni og ég verð að segja að ýmislegt af því sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði áðan kom mér mjög á óvart og satt að segja í opna skjöldu miðað við þær umræður sem voru í síðustu ríkisstjórn um þetta mál og álit sem sú ríkisstjórn hafði á samningnum sem gerður var um Spöl hf. í ársbyrjun 1991 og ég hygg að nauðsynlegt sé að rifja örlítið upp.

Mörgum þótt merkilegt að það skyldi vera alþýðubandalagsmaður í sæti samgrh. sem hafði forustu um að bryddað yrði upp á þeirri leið til fjármögnunar mikilla vegaframkvæmda hér á landi að stofna sérstakt hlutafélag um framkvæmdina sem skyldi bera ábyrgð á henni og vera sá aðili sem bæri ábyrgð á fjármögnun verksins gagnvart erlendum lánardrottnum. Auðvitað gerði sú ríkisstjórn sem þá sat sér grein fyrir því eitthvað varð að hanga á spýtunni. Það varð að leggja einhverja beitu fyrir þá sem hygðust fjármagna eða kaupa hlutafé í Speli hf. vegna þess að hér var um áhættuframkvæmd að ræða. Á þeirri stundu lá engan veginn fyrir að það væri tæknilega mögulegt að ráðast í gerð jarðganga undir Hvalfjörð. Það lá engan veginn ljóst fyrir og kom raunar ekki í ljós fyrr en við samþykktum það, ég og þáv. utanrrh., núv. hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, að fara fram á við Alþingi að úr ríkissjóði yrðu greiddar 50 millj. kr. til þess að ljúka rannsóknum á hugsanlegu gangastæði undir Hvalfirði. Þannig að það er algjörlega rangt sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði áðan að nú sé einhver stefnubreyting í þeim efnum, að ríkið komi ekki með eigið fjármagn inn í þessa framkvæmd eftir að samningurinn við Spöl var undirritaður á öndverðu ári 1991. Hann stóð sjálfur að samþykkt slíkrar tillögu, eftir ítarlegar umræður á fleiri en einum fundi í síðustu ríkisstjórn. Er auðvelt að fletta upp í gögnum þingsins til þess að fá úr þessu skorið, að fletta upp í breytingum á samningnum við Spöl sem síðasta ríkisstjórn stóð fyrir, til þess að leiða þetta í ljós.

[16:45]

En hvert var agnið sem fjárfestar fengu í ársbyrjun 1991 þegar Steingrímur J. Sigfússon var samgrh., Ólafur Ragnar Grímsson fjmrh. og Jón Baldvin Hannibalsson var utanrrh.? Agnið var að hluthafar skyldu fá á meðan á greiðslutímanum stæði 14% arð af hlutafénu og til viðbótar 14% vexti á uppsafnaðan arð ef fyrirtækið gæti ekki greitt arðinn út jafnóðum vegna þess að fyrstu árin er fyrirtækið auðvitað ekki rekið með bókhaldslegum hagnaði. Og ekki nóg með það. Það var líka gert ráð fyrir því að endurgreiðslutíminn yrði 25 ár. Nú liggur fyrir að endurgreiðslutíminn á hinum erlendu lánum verður kringum 18 ár. Það er því alveg ljóst að ef þær áætlanir standast mundi endurgreiðslan koma til 7 árum fyrr. Þá er ákvæði um það í hinum upphaflega samningi að ef endurgreiðslutíminn styttist með þessum hætti er að mati þeirra stjórnmálamanna sem gerðu samninginn gengið á rétt hluthafanna, þeir fengju ekki eðlilegan arð fyrir þá áhættu sem þeir hefðu ráðist í. Fyrir þær sakir var það ákveðið að þeir ættu að fá í tvö ár 35% af nettóhagnaði fyrirtækisins ár hvert eftir arðgjöf og skattheimtu. Á 19. og 20. ári, með öðrum árum ef áætlunin gengur fram, erum við að tala um að hluthafar ættu að fá í sinn hlut mörg hundruð millj. kr. Við í síðustu ríkisstjórn sögðum að slíkt kæmi ekki til greina, hvorki vaxtavextirnir hé heldur þessi sérstaki bónus sem fjárfestum var boðið með samningunum í ársbyrjun 1991.

Svo koma báðir þessir þingmenn og segja að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir því að ríkisábyrgð kæmi ekki til. Og bættu við: ,,Hluthafarnir óskuðu ekki eftir ríkisábyrgð.`` Nei, auðvitað óskuðu þeir ekki eftir ríkisábyrgð. Það tók margra mánaða stapp að fá þá til þess að fallast á að þeim hafi verið gefið of mikið í upphaflega samningnum. Þeim var gert alveg ljóst að við mundum ekki fallast á þær gjafir til þeirra sem fólust í upphaflega samningnum. Þetta var langt umfram allt velsæmi og það var líka skoðun síðustu ríkisstjórnar, þeirrar ríkisstjórnar sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sat í og var oddviti Alþfl. fyrir. Ég held því að það sé alveg óþarfi fyrir hv. þm. Jón Baldvin að koma hér upp og segja að núna sé í fyrsta skipti eftir að samningurinn var gerður í árdaga 1991 verið að fletta einhverju blaði. Það var alveg ljóst hjá okkur sjálfstæðismönnum að við mundum ekki gefa einkaaðilum þá fjármuni sem fólust í upphaflegu samningsgerðinni. Alveg ljóst.

Nú skulum við í öðru lagi athuga hvernig þetta hefur gengið. Við vorum sammála um það, ég og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, og lögðum það fyrir þingið að það væri nauðsynlegt að ríkið legði fram 50 millj. kr. til þess að kanna betur botninn og jarðveginn undir Hvalfirðinum. Það var fyrst þegar þær kannanir höfðu farið fram samkvæmt tillögum Vegagerðarinnar sem unnt var að bjóða verkið út. Á þeirri stundu var það svo að ýmsir verktakar töldu að mjög hæpið væri að bera ábyrgð á framkvæmdunum með þeim hætti sem gert var ráð fyrir í útboðinu. Niðurstaðan hefur samt orðið sú að þrír buðu í verkið og þeir sem fengu verkið var Ístak frá okkur Íslendingum, Skanska í Svíþjóð og Phil og Sön. Niðurstaða þeirra er sú að þetta verk gangi upp og þeir eru reiðubúnir til þess að leggja mikið undir. Skanska ábyrgist um 4 milljarða kr., 5 ef allt fer á versta veg. Þó áhættan yrði ekki svo mikil eru það þó þeir fjármunir sem Skanska ætlaði að ábyrgjast.

Þá kom upp það vandamál sem ég hef áður lýst og aðrir hafa lýst hér. Við ræddum það líka í ríkisstjórninni, ég og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, og ég vona að þeir hafi líka talað um það í ríkisstjórninni, sem hann var í þar á undan. Það var að Spölur væri auðvitað pappírsfyrirtæki í þeim skilningi að það væri ekki sterkur höfuðstóll á bak við hann. Þetta vissum við allir. Það þarf enginn að segja mér að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson eða hv. þm. Ágúst Einarsson sem er prófessor í hagfræði og lærður í sjálfu Þýskalandi viti ekki að erlendar lánastofnanir taka ekki bakábyrgð gilda til fulls af fyrirtæki sem ekki á gilda varasjóði. Þess vegna var nauðsynlegt á síðasta stigi málsins að brúa bilið eftir að Spölur gat ekki lengur komið til sögunnar varðandi ýmsa áhættuþætti sem ekki er hægt að tryggja sig fyrir hjá vátryggingafélögum. Þar voru ýmsar áhættur.

Enn fremur hafði það komið til að verkið hafði dregist á langinn vegna verðbólgu, sem er auðvitað fyrir hendi þótt hún sé ekki mikil, og ýmiss annars kostnaðar sem upp hafði hlaðist. Og þá var spurningin: Viljum við í ríkisstjórninni taka alla ábyrgð á þessum þáttum eða er verktakinn reiðubúinn til þess að taka á sig ábyrgðina? Við gengum jafnlangt og við gátum gagnvart verktakanum og verktakinn bauðst til þess að taka ábyrgð á þessum þáttum gagnvart lánardrottnum. Við settum það skilyrði að ríkisábyrgðin félli ekki fyrr, nema göngunum yrði skilað fullbúnum á réttum tíma. (ÓRG: Það stendur ...) Og þá erum við að tala um 300 millj. Nei, það stendur ekki, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Það er hins vegar svo að hv. þm. hefur heyrt þetta margsinnis og hann veit það af því að hann er glöggur maður og skýr og og leiðbeinir oft öðrum mönnum í þessum þingsölum að það sem fagráðherrar segja um orsakir beiðna af þessu tagi er auðvitað bindandi fyrir framkvæmdarvaldið. Þar að auki veit hann og getur gengið úr skugga um að rétt er með farið. Það er því ástæðulaust að brigsla mönnum um að þeir séu að tala þvert um hug sér, að brigsla okkur um að við séum að bera þetta mál fram á fölskum forsendum og biðja um 300 millj. kr. ríkisábyrgð af einhverjum allt öðrum ástæðum en við tölum um. Það er alveg ástæðulaust að brigsla mönnum um þetta. Samkomulag, ef undirritað verður, mun liggja fyrir. Og það er ástæðulaust að vera með aðdróttanir af þessu tagi og ekki trúverðugt, allra síst fyrir mann sem hefur jafnmikla pólitíska reynslu og hv. þm. Þegar þetta gjald fellur eftir að göngin eru tilbúin og öll áhætta af gerð þeirra úr sögunni er spurningin sú hvort einhver maður í þingsalnum sé á þeirri stundu reiðubúinn til að gefa út pappíra þar sem ríkið verður að greiða 14% ávöxtun verðtryggða á hverju ári. Það er ekki dónalegur búskapurinn sá. 14% arð verðtryggðan á hverju ári. Þessi 14% arður miðast ekki við að öll áhætta sé úr sögunni. Hún miðast ekki við það. Við sögðumst ekki vilja fallast á að Spölur útvegaði nýtt hlutafé á þessari stundu til þess að standa undir þessum hluta samningsins. Þá var mér sagt að þeir í Speli vildu það, þeir vildu fá að kaupa hlutaféð. Þeir vilja fá að kaupa pappíra þar sem ríkið ábyrgist 14% arð í 16--20 ár, kannski 30 ár að hluta til. Ég fellst ekki á það. Og ég verð að segja að sá stjórnmálamaður sem lýsir því yfir að hann vilji fallast á það er ekki trúverðugur í fjármálum ríkisins. Þess vegna er verið að tala í fyrirsögnum. Það er verið að tala á móti því sem maður sjálfur vill og það er verið að tala á móti þeim prinsippum sem einn af ráðherrum síðustu ríkisstjórnar lýsti svo fagurlega hér úr þessu ræðustól og sagði: Í fyrsta lagi, í öðru lagi og í þriðja lagi. Hér er sem sagt ekki verið að biðja um ríkisábyrgð til eyðslu, heldur stendur eign á bak við hana.

Það er líka eitt í þessu sem við skulum gera okkur grein fyrir af því að mér finnst vera kjarni málsins. Þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og hv. þm. Ágúst Einarsson, ef þeir eru á annað borð skiljanlegir, vilja að þetta viðbótarfé komi til endurgreiðslu á ábyrgð Spalar. Það þýddi að við héldum áfram að borga 14% vextina svo og svo mörgum árum lengur af fé sem engin áhætta fylgir. Sú skuldbinding fellur samkvæmt núgildandi samningi niður um leið og það fé hefur verið greitt sem aflað hefur verið til jarðganganna sjálfra. Og við teljum raunar að það sé kannski of seint, við teljum að þessi ávöxtun sé of mikil, of há.

Þá komum við að hinum 300 millj. Nú er það svo í öllu verki, ekki bara jarðgöngum undir Hvalfjörð, ekki bara jarðgöngum við Ísafjörð, ekki bara jarðgöngum við Ólafsfjörð heldur líka í stíflumannvirkjum og öðru slíku þar sem menn hafa leitað lánsábyrgðar hjá ríkissjóði til þess að ráðast í ákveðnar framkvæmdir, að stundum kemur til ágreinings eftir á milli verktaka og verkkaupa um það hvort þetta eða hitt falli innan útboðs eða utan. Ólafsfjarðargöng heppnuðust vel og því lítið um slíkt. Aftur á móti varð mikið slys fyrir vestan sem kostaði mörg hundruð millj. kr. en það var hinn mikli foss sem skyndilega braust niður í bergið, sennilega vegna þess að menn höfðu ofmetið styrk þess.

Taldar eru 1--12% líkur á því að það þurfi að setja meiri steypu, styrkja göngin meir en í útboðslýsingu stendur. Samkvæmt fjármögnun höfum við 150--200 millj. kr., við getum sagt 150 millj. svo varlega sé talað, til að mæta áhættu af þessu tagi. Á hinn bóginn væri óvarkárni, bæði af okkur og eins af verkkaupum að láta þar við sitja og reyna ekki að brjóta það mál betur til mergjar. Þess vegna förum við fram á það að heimild verði fyrir 300 millj. kr. ábyrgð til viðbótar ef til þess kynni að koma að verulegra styrkinga væri þörf.

Nú er það svo að Spölur á kost á því að fá allt að 300 millj. kr. lán hjá Þróunarfélaginu með 9,2% vöxtum, verðtryggt fé, í staðinn fyrir það lán sem við kynnum að geta útvegað með ríkisábyrgð. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson talaði um það sem sjálfsagðan hlut að ef ríkisábyrgð fylgdi væru vextirnir lægri. Hann hefur auðvitað gott vit á því. Þeir eru alveg ólmir í það hjá Þróunarfélaginu að fá að lána þessa peninga og þeir telja ríkið raunar skuldbundið til þess að verða við því að hluta. Þeir heimta að fá að lána a.m.k. 100 millj. kr. Af hverju? Af því að þeir meta það svo að vextirnir séu ekki í samræmi við áhættuna, séu hærri en áhættan gefur tilefni til. En auðvitað er það álitamál. Og þeir menn sem gerðu upphaflega samninginn á þeim grundvelli að hlutafjáreigendur gætu í lokin átt von á uppbót, glassúr, upp á mörg hundruð millj. á kostnað íslenskra vegfarenda og íslenskra skattgreiðenda, þykir náttúrlega ekki mikill munur á því hvort vextirnir séu 9,2 eða 6,5%. En það munar um það á 25 árum.

[17:00]

Síðan eru það 400 milljónirnar hinar síðustu. Í samningnum sem gerður var í ársbyrjun 1992 er sú kvöð og skylda lögð á ríkið að kosta að fullu og öllu veg sem skilgreint er nákvæmlega eftir hvaða kröfum skuli gerður að gangamunnum báðum megin og hvenær því verki skuli lokið, miðað við framkvæmd verksins. Það kostar um 800 millj. kr. Sú skuldbinding hvílir á ríkinu og hefur verið samþykkt af Alþingi. Það er þess vegna alveg augljóst að sama daginn og samningur er undirritaður við verktaka, um að hefja þessa vinnu, þá ber ríkinu að hefja undirbúning og það verk sem að því snýr. Það er alveg öldungis ljóst, morgunljóst eins og þeir segja fyrir norðan. Það þýðir ekki fyrir menn jafnreynda og þessir þrír menn eru, tveir hagfræðingar og einn alþjóðlegur ráðgjafi, að koma upp í þennan stól og segja: Við vissum af því í gærkvöldi að þessi samningur mundi hafa í för með sér einhverjar kvaðir fyrir ríkissjóð. Við vissum það ekki fyrr en í gærkvöldi. Hvar voru þessir menn staddir? Um hvað hafa þeir verið að hugsa? Hvernig horfðu þeir á fjárlögin? Vissu þeir ekki að þessi jarðgöng eru inni í fjárlögunum, eru í forsendum þjóðhagsspár? Og láta svo eins og þetta mál detti af hinum ofan. Við segjum að við viljum láta veggöngin standa undir helmingi fjárhæðarinnar, 400 millj. kr., en láta þá sem um veginn fara greiða helminginn. Á hinn bóginn er það í okkar tillögu að helmingur skuli greiddur af vegáætlun og þó með þeim hætti að vextir af því fé, þangað til það endurgreiðist af kjördæmisfé á Vesturlandi og á Reykjanesi, skuli greiddur af óskiptu fé Vegasjóðs til að koma til móts við fólk sem býr í þessum kjördæmum. Hér erum við því ekki að tala um nýja ábyrgð ríkisins. Þessi ábyrgð liggur fyrir.

Þeir sögðu báðir, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, að þeir hefðu ekki vitað um þetta mál fyrr en í gærkvöldi, þá hefði það dottið hingað inn ,,eins og þjófur úr heiðskíru lofti``. Hvernig stóð á því, ef svo var, og ef það er líka rétt sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði í ræðustól áðan að það væri að hans uppástungu sem aðilar málsins voru kallaðir fyrir nefndina? Þessir menn voru boðaðir í fyrradag og eftir því sem ég veit best var stjórnarandstaðan höfð í ráðum um hverjum var boðið. Ég fékk að vita í fyrrakvöld að það hefði verið samkomulag milli meiri hluta og minni hluta að boða þá á nefndarfund. Samt segja þeir að þeir hafi ekki vitað um málið fyrr en í gærkvöldi. Þetta er hálfgerður fyrirsagna-málflutningur satt að segja.

Nú skulum við gera okkur grein fyrir því að á þessari stundu liggur það ekki fyrir að samningar muni takast við lánardrottna og verktaka um að unnt verði að ráðast í framkvæmdina í janúarmánuði. Þess vegna er ástæðulaust að tala á þeim forsendum eða þeim grundvelli að það liggi fyrir. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að við skilgreinum nákvæmlega hversu langt við viljum ganga og hvernig við viljum standa að málinu. Síðan hafa þeir í Speli einkaleyfi á því að ráðast í jarðgöng undir Hvalfjörð, samkvæmt gamla samningnum, fram á næstu öld sem er náttúrlega ekki þægileg staða fyrir okkur. Það er engin óskastaða. Þeir munu auðvitað ekki vera ginnkeyptir fyrir því að sleppa þeirri stöðu bara svona. Þannig að við erum auðvitað bundin í þessu máli. Og þeir sem bera ábyrgð á hinum upphaflega samningi ættu, vegna orða sinna áðan að nauðsynlegt sé að brjóta málið til mergjar, að reyna að skýra nákvæmlega fyrir okkur hvernig að því var staðið og fjmrh. á þeim tíma var hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. (SJS: Ég held að ráðherrann þurfi svona tíu mínútur í viðbót til að drepa málið.) (ÓRG: Ég held að hann sé nú þegar búinn að drepa það, ég held að hann þurfi ekki tíu mínútur í viðbót.)

Að síðustu vil ég benda á að ef niðurstaðan verður sú að hætta við jarðgöngin er óhjákvæmilegt að vekja aftur upp þær áætlanir sem voru um uppbyggingu vegarins fyrir Hvalfjörð. Það er talið að sú vegagerð, ný vegarlagning á þessari leið muni kosta um einn milljarð kr. og það er talið að styrking vegarins, þar sem við það verður látið sitja, muni kosta um hálfan milljarð. Við erum að tala þar um fjárhæð sem er svona 1--1,5 milljarðar. Brúin yfir Laxá t.d. þolir ekki þann öxulþunga sem áskilinn er samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og er nauðsynlegt að endurbyggja hana og sömuleiðis brú yfir Botnsá. Þarna erum við því að tala um framkvæmdir sem ekki geta lengi dregist og er óhjákvæmilegt að ráðast í. Þunginn af þessum framkvæmdum verður auðvitað greiddur af kjördæmisfé Reykjaneskjördæmis og Vesturlandskjördæmis, sem eðlilegt er, þar sem þessi umferð og vegaþörf er inni í reikniformúlu þessara kjördæma. Síðar mun meiri þungi hvíla á veginum yfir Geldingadragann, Hestháls, og búast má við að ný vegagerð á þeirri leið ásamt nauðsynlegri brú á Hvítá upp í Norðurárdal muni kosta um hálfan milljarð kr.

Þessi mál voru mjög rædd á síðasta þingi og þingmenn úr Vesturlandskjördæmi voru mjög áhugasamir um þessa vegagerð (Gripið fram í: Og eru.) og eru. Að vísu saknar maður eins þingmanns úr Alþb. sem náði ekki kjöri en hann var einn þeirra manna sem sýndi þessu máli hvað mestan áhuga. Ég hygg að allir flokkar séu með einhverjum hætti skuldbundnir í því nema vitaskuld Þjóðvaki. Ég hygg að sá flokkur hafi lítið að því komið en hins vegar hefur formaður hans verið í ríkisstjórn sem hefur komið að þessu máli.