Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 17:15:00 (2383)

1995-12-21 17:15:00# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[17:15]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég veitti því athygli að forseti ætlar ekki að fallast á beiðni um að hv. efh.- og viðskn. skoði þetta mál betur og ég ætla að bæta við einni mjög mikilvægri röksemd þar um.

Fyrir nokkrum árum var flutt á Alþingi tillaga um að ríkið veitti ábyrgð til þeirra aðila sem voru að leita að gullskipinu. Í tillögunni var gert ráð fyrir því að það væri skilyrði fyrir ríkisábyrgðinni að Ríkisábyrgðasjóður fengi veð í góssinu. Þegar menn fóru að skoða þetta betur kom í ljós að mál hefðu gengið þannig fyrir sig að ef ekkert góss hefði fundist, eins og raunin varð á, og greiðslur fallið á Ríkisábyrgðasjóð, þá átti Ríkisábyrgðasjóður veð í því sem ekki fannst.

Ég ætla að vekja athygli hæstv. forseta á því að eins og frá þessu máli er gengið er hér sama mál á ferðinni því að það er gert að skilyrði fyrir ríkisábyrgð að fjárhæð 1 milljarður kr. að ef ekki ganga upp áætlanir fyrirtækisins um kostnað og tekjur, er það skilyrði að ríkissjóði gefist kostur á því að kaupa fyrirtækið sem ekki hefur getað staðið í skilum með skuldbindingar sínar þannig að ríkisábyrgð hefur á fallið. Ég efast um það, virðulegi forseti, að þetta fyrirtæki þurfi frekari ríkisábyrgðir á sínum ferli því þarna er verið að lýsa því yfir að ef illa gangi hjá því þannig að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar, sé það skilyrði ríkisins að ríkið fái að kaupa fyrirtækið og yfirtaka skuldbindingar þess eins og þær eru á þeim tíma. Ég sé ekki, herra forseti, að það þurfi frekar um að binda í framtíðinni ef þetta skilyrði verður samþykkt. Ég er ansi hræddur um að erlendir lánardrottnar slíks fyrirtækis mundu sætta sig við það að ábyrgðin væri afgreidd með slíkum skilmálum.

Ég held að það fari ekki hjá því þegar á þetta er bent að menn verði sammála um það að efh.- og viðskn. þurfi að skoða þetta svolítið betur því ég sé ekki betur en að ef vilji hæstv. samgrh. ætti að ganga fram eins og hann hefur lýst honum, væri það helst gert með því að fella niður síðari setninguna í þessum tillögum. Annars væri hv. Alþingi að samþykkja það sem það vildi ekki samþykkja fyrir nokkrum árum síðan þegar fram kom svipuð tillaga um að veita ríkisábyrgð vegna leitarinnar að gullskipinu. Þá er verið að gera ráð fyrir því að ef ríkisábyrgðin falli á ríkissjóð vegna þess að góssið ekki finnst eða með öðrum orðum tekjuáætlunin og kostnaðaráætlunin gengur ekki upp, eigi ríkið að borga og fá í sinn hlut það sem ekki finnst, þ.e. framgang kostnaðar- og tekjuáætlunar eins og kemur fram í brtt. Ég ætla nú að biðja um það, virðulegi forseti, til að Alþingi verði ekki sér til skammar með afgreiðslu máls af þessu tagi, að það verði gert hlé og efh.- og viðskn. gefist kostur á að skoða þetta mat.