Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 17:25:34 (2387)

1995-12-21 17:25:34# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., Frsm. meiri hluta VE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[17:25]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil hvetja hæstv. forseta til að halda þessari umræðu áfram. Ég tel að málið sé algerlega í þeim búningi að það geti fengið þá meðferð sem þarf. Það liggur fyrir að meiri hluti efh.- og viðskn. stendur að þessari tillögu og ég hygg að í stjórnarflokkunum sé líka drjúgur stuðningur við þetta mál. Ég veit ekki til þess að neinn af þeim þingmönnum sem eru í stjórnarliðinu ætli ekki að greiða þessu atkvæði.

Varðandi meðferð málsins í efh.- og viðskn., þá kom málið fyrst upp í fyrrakvöld þar sem ég lýsti því á fundi að við mundum verða með málefni Spalar á dagskrá í gærkvöldi. Öllum þingmönnum var ljóst að málið gæti orðið umfangsmikið. Það lá ekki ljóst fyrir á þeim tímapunkti hver upphæðin yrði í þessu sambandi enda var hún þá heldur ekki endanlega ákveðin. Síðan var haft samstarf við nefndarmenn um það hverja skyldi kalla til fundar í gærkvöldi til þess að ræða um þetta mál. Þeir voru kallaðir til sem samkomulag náðist um að væri ástæða til þess að tala við. Þeir komu til fundar við nefndina í kvöldmatnum í gærkvöldi. Ég vil vekja athygli á því að í lok fundarins eftir að búið var að kynna þá tillögu sem fyrir lá, eftir að það var búið að ræða við nefndarmenn og eftir að nefndarmenn höfðu fengið tækifæri til þess að spyrja gesti okkar og kynna sér málið, þá lagði ég fram þær breytingartillögur sem meiri hlutinn hugðist gera við frv. til ráðstafanir í ríkisfjármálum eða bandorminn. Ég las líka upp ákveðna þætti, m.a. um afgreiðslu lánsfjárlaganna og því vissu allir sem í hlut áttu að fyrirhugað væri að afgreiða þetta mál og þessi tillaga lá fyrir. Ég taldi mig spyrja og ég vona að allir nefndarmenn hafi heyrt það líka að ég spurði þá að því hvort ég ætti að leggja fram þessa tillögu sem meiri hluti nefndarinnar lagði síðan fram um bandorminn í ljósi þess sem um var talað og í ljósi þess að það ætti að afgreiða lánsfjárlög með þeim hætti sem tillaga lá fyrir um. Ég tel því ekki að ég sem formaður nefndarinnar hafi staðið að því að brjóta eitt eða neitt samkomulag um þinglok og að þessi tillaga hafi legið fyrir áður en gengið var frá breytingartillögum meiri hluta efh.- og viðskn. um bandorminn. Þess vegna tel ég að það sé ástæðulaust annað en að afgreiða þetta mál hér.